Í orðinu á götunni er verið að fjalla um mál sem hefur verið rætt um meðal starfsmanna í stéttarfélögunum undanfarið. Þetta er ekki einstakt því eitt af því erfiðara sem við glímum við í daglegum störfum okkar hjá stéttarfélögunum eru ungir starfsmannastjórar sem eru nýkomnir úr háskólanum. Viðhorf þessa unga fólks einkennist af miskunarlausri æskudýrkun og hagræðingu.
Þessu fólki hafa verið kenndar í háskólunum ýmsar aðferðir við að hagræða með notkun Exceltaflna, þar sem stungið er inn ýmiskonar tölum eins og t.d. að fækka starfsfólki og láta það sem eftir er vinna aðeins hraðar. Sameina störf og láta konuna sem ekki er alltaf að svara í símann elda kaffi og skúra í dauðum tímum.
Vinsælt er nú að gera fastlaunasamning með inniföldum föstum vinnutíma, en láta svo starfsfólkið vinna langt fram á kvöld og um helgar án þess að greitt sé fyrir það.
Þegar út í atvinnuífið er komið er ekki lengur verið að fást við tilfinningalausar tölvur og skoða glæstar niðurstöður úr Exceltöflum, heldur er verið að fást við lifandi fólk. Oft á tíðum fólk sem hefur skilað inn öllum sínum bestu starfsárum með mikilli trúfestu hjá einu fyrirtæki. Gengið með því í gegnum djúpa dali og tekið á sig skert laun og auka vinnuálagog dregið fyrirtækin til betri stöðu.
Í augum „mannauðsstjóranna“ virðist svo vera að starfsmenn séu ekki mannlegar verur, heldur einhverjar stærðir í Exceltöflu. Við sjáum kennslubókardæmi um þetta í starfsmannastefnu Byr.
Það virðist þó vera einhver snefill af mannlegum tilfinningum hjá „mannauðsstjórnarfólki“ sem búið er að snúa öllum mannauðskenningum á haus. Það er nefnilega áberandi að í öllum samningum sem það leggur fram, að það verði að vera fullur trúnaður um alla ráðningarsamninga og skilyrði að starfsmenn megi alls ekki segja nokkrum lifandi manni frá innihaldi samninga og settar inn fjársektir og margskonar hótanir. „Mannauðsstjóranir“ vita semsagt upp á sig skömmina.
Það er svo sem af mörgu að taka í þessum efnum úr daglegum slagsmálum okkar starfsmanna stéttarfélaganna. Margir halda að við sitjum með hendur í skauti milli kjarasamninga. Og jafnmargir virðast halda að öll fyrirtæki bíði eftir því með öndina í hálsinum að fá að ausa yfir starfsmenn sína launahækkunum og öðrum gæðum ef þau bara fengju að gera það í friði fyrir stéttarfélögunum, sem eru sífellt að setja bönn á svoleiðis hluti í kjarasamningum!! (Hér er vísað til endurtekinna ummæla uppáhalds vitringa minna í starfsmannamálum eins og glöggir lesendur mínir átta sig örugglega á Frjálshyggjumannanna).
Hlustaði nýverið undrandi á forstjóra eins af stærri fyrirtækjum hérlendis, þar sem hann var að hrósa sér að svakalega góðri starfsmannastefnu. Þetta fyrirtæki er alræmt meðal stéttarfélaga og starfsmönnum þess að bannað að vera í stéttarfélögum.
Starfsmönnum er algjörlega bannað að sýna nokkrum manni ráðningarsamninga sína. Þrátt fyrir það höfum við fengið að sjá þá, því margir vilja vera áfram í sínum stéttarfélögum og njóta þess umhverfis sem þau hafa skapað félagsmönnum sínum með margvíslegum fjölskylduryggingum og fleiru. Fyrirtækið kemur sér hjá því að greiða í lögbundna sjóði en réttir svo starfsmönnum sínum árlega einhverja upphæð og hrósar sér af þeirri rausn.
Þessi upphæð eru jafnvel lægri en það þyrfti að greiða lögum samkvæmt og svipuð og önnur fyrirtæki sem greiða lögbundin gjöld í eru að greiða starfsmönnum að auki. Eins og t.d. í líkamsræktarstyrjk og námskeiðstyrki. Þannig að í raun er fyrirtækið að hafa af starfsmönnum sínum umtalsverð réttindi.
2 ummæli:
Guðmundur; - þetta sem þú ert að ræða er afar þarft - en oft rangtúlkað efni. "Mannauðsstjórnun" - -er aldrei unnin með einföldustu Excel-´töflum - - slíkt er einmitt dæmi um "skort á mannauðsstjórnun" - -
Það sem þú ert að ræða er innihaldslaus duttlungastjórnun - - sem "fjárfestar" - græðginnar eru veikir fyrir - - og styður sig ekki við þekkingu á stjórnun og einkum ekki mannauðsstjórnun - - en hallar sér þeim mun meira að línulegri stæðrfræðigreiningu og rúðustrikuðum áætlunarblöðum - - í Excel. Gamaldags stjórnunaraðferðir - hernaðarhyggju og ofbeldisstjórnunar - - í anda "vísindalegrar stjórnunar" - eru því miður að ganga aftur - - í gegn um fjárfesta græðginnar - - sem hyggjast leysa út hagnaðinn fyrirfram
Eins og talað út úr mínum munni. Vel ort.
Þetta er allt sama bullið. Það er reynt að kreista fólk til hins ítrasta með launaleynd og öðru leynimakki. Svo ef fólk er eitthvað meðvitað um rétt sinn (sem það er oft ekki) og vekur máls á þessum atriðum, fær það reiðan yfirlestur.
Skrifa ummæli