sunnudagur, 25. maí 2008

Stolnar fjaðrir

Nú um helgina birtu framkvæmdastjórar ríkistjórnarflokkanna afrekaskrá ríkisstjórarinnar á árs afmæli hennar. Forsætisráðherra var einnig viðtölum í dagblöðunum og ítrekaði að ekki stæði til að breyta efnahagsstefnunni. Í afrekaskránni eru meðal annars talinn upp verk sem eru reyndar þannig til komin að það var verkalýðshreyfingin sem þvingaði þau fram í kjarasamningum í vetur. Það er kaldranalegt fyrir launamenn að hlusta á stjórnarflokkana að eigna sér þessar athafnirog skreita sig með stolnum fjöðrum.

Í ummælum hagfræðinga að loknum kjarasamningum kom fram aðkoma ríkisstjórnarinnar hefði verið henni til minnkunar og einkennst af nánasarhætti gagnvart verkafólki. Þeir bentu á að þær upphæðir sem ríkið hefði látið af hendi rakna væru um 20 milljarðar, en á móti kæmi aftur inn í ríkissjóð um 7 milljarðar í tekjumi, þessu væri dreift á 3 ár. Til samanburðar léti ríkisvaldið bændur hafa á hverju ári í beina styrki 9-10 milljarða.

Skattbyrði hefði verið að aukast á undanförnum árum, þá sérstaklega hjá hinum lægst launuðu. Síðastliðin 10 ár hefur hlutur hins opinbera í þjóðartekjum landsmanna verið að aukast stig af stigi og er nú kominn í 48,2% og skattbyrði hinna lægst launuðu aukist um 7% umfram hinna tekjumeiri, eins og Indriði fyrrv. skattstjóri hefur ásamt mörgum öðrum bent á.

Það sem verkalýðshreyfingin þvingaði ríkisstjórnina að gera við gerð kjarasamninga í vetur var að hækka persónuafslátt um 7.000 kr. á þremur árum umfram verðlagsbreytingar. Einnig tókst samningamönnum launamanna eftir löng fundarhölda að fá ríkisstjórnina að draga úr tekjuskerðingum barnabóta.

Ríkisstjórnin fékkst til þess að beita sér fyrir aðgerðum til að lækka vöruverð, einkum matvælaverð og eftir mikið hark að hækka húsaleigubætur. Einungis tókst að fá 35% hækkun á eignaskerðingarmörkum vaxtabóta. Það er einungis lítill hluti af því sem þurft hefði til þess að vaxtabætur næðu aftur sama marki og þær voru í.

Ríkisstjórnin féllst á að fella niður stimpilgjöld vegna lána til kaupa á fyrstu fasteign, þrátt fyrir loforð um þau yrði alfarið felld niður. Samkomulag varð um að koma á húsnæðissparnaðarkerfi með skattaafslætti fyrir einstaklinga 35 ára og yngri. Einnig varð samkomulag um átak í fræðslumálum þeirra sem ekki hafa viðurkennda starfs- eða framhaldsskólamenntun.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Geir var líka flottur í drottningarviðtalinu í 24 Stundum. Hagstætt, sagði hann, að vera utan við ESB því þá væri hægt að bregðast við áföllum með skjótari hætti.
Ég átti ekki orð til að segja upphátt um hann og er ég þó kjaftfor með afbrigðum. Heldur maðurinn virkilega að sveiflurnar yrðu svona öfgakenndar ef við værum í ESB? Væri ekki líklegara að við værum í sömu eða svipuðum sporum og t.d. Danir eða jafnvel Færeyingar og ekki þyrfti að setja allt á hvolf með "aðgerðum"?

Nafnlaus sagði...

Heill og sæll Guðmundur,

Ég má til með að benda á það að með grein okkar Andra Óttarssonar í Fréttablaðinu um helgina vorum við að gera grein fyrir því hvernig gengi að uppfylla þau fyrirheit sem ríkisstjórnin veitti í stjórnarsáttmálanum. Þau atriði sem þú kallar stolnar fjaðrir eru flest nefnd í stjórnarsáttmálanum svo sem hækkun barnabóta, hækkun persónuafsláttar,lækkun vöruverðs, afnám stimpilgjalda o.s.frv.
Við í Samfylkingunni tökum mjög alvarlega þau verkefni sem tiltekin eru í sáttmálanum. Við lítum svo á að við berum pólitíska og siðferðilega ábyrgð á því að efna þessi fyrirheit. Það mun auðvitað taka sinn tíma að koma á annað hundrað verkefnum í framkvæmd en það verður gert á þessu kjörtímabili, sem klárast vorið 2011. Nú þegar eru nær 90% þessara verkefna komin í framkvæmd eða á góðan rekspöl í ráðuneytunum. Geri aðrir betur!Sumt gerist strax, annað þarf að vinna í áföngum en þetta verður gert. Það er því fráleitt að halda því fram að verkalýðshreyfingin hafi þvingað ríkisstjórnina til þess að efna þessi fyrirheit sem eru í stjórnarsáttmálanum, það stóð aldrei neitt annað til, minn kæri.

kær kveðja
Skúli Helgason framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar