mánudagur, 14. janúar 2008

Það er ætíð betra að hugsa fleiri en einn leik í einu

Nú hafa landssamböndin tekið fram upphaflegar kröfur, vegna þess að SA og ríkisstjórnin höfnuðu tillögum ASÍ um sameiginlegt átak SA, ASÍ og ríkistjórnarinnar um að bæta kjör þeirra sem minnst mega sín og marka með því efnahagslega stefnu til tveggja ára. Lesendum til upprifjunar þá voru tillögur ASÍ í grunninn byggðar á tillögu framkv.stj. SA frá því í nóvember síðastl. Kröfur landssambandanna innifela hækkun taxtakerfa um 20 þús. krónur og laun almennt um 4%, auk nokkurra annarra atriða eins og betri virkni í ávinnslu orlofskerfisins.

Svör ríkisstjórnarinnar og SA eru ákaflega ábyrgðarlaus og stefna efnahagsmálum í mikla óvissu. Það mikla að ekkert landssamband treystir sér til þess að semja lengur en til eins árs. Engin þarf að undrast þessa niðurstöðu, þetta kom mjög skýrt fram á fundum forystu ASÍ með SA og ríkistjórninni í byrjun desember.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarnar vikur, þá gengu nokkrir stjórnarþingmenn og framkv.stj. SA harkalega fram gegn tillögum ASÍ með margskonar ómerkilegum dylgjum og órökstuddum útúrsnúningum. Ríkisstjórnin fylgdi tilmælum SA og hafnaði tillögum ASÍ í síðustu viku og ráðherrar öpuðu hugsunarlaust útúrsnúningana í fjölmiðlum.

Nú er SA og ekki síður ríkisstjórnin kominn í umtalverðan vanda og reynt að draga í land, sé litið til ummæla Hannesar G. Sigurðss. aðstoðarframkv.stj. SA í útvarpinu í kvöld. Það er hreinlega útilokað að skilja hvert SA vill fara, fullkomið stefnuleysi. Fyrir nokkrum dögum höfnuðu þeir þessu alfarið, en grátbiðja núna. Það mun líða langur tími þar til framkv.stj. SA ásamt fyrrv. liðsfélögum sínum, geta bætt fyrir þau skemmdarverk sem þeir hafa unnið. Það ríkir fullkominn trúnaðarbrestur milli aðila.

Engin ummæli: