Það er fastur liður í mínu fjölskyldulífi að allir komi saman á gamlárskvöld og hafi skemmtilegt kvöld og kryddi það með því að vera meir og minna úti og kveikja í margskonar dóti. Mest minniháttar dót sem krakkarnir geta höndlað, en svo um áramótin eina-tvær kökur og nokkrir alminnilegir. Þetta er ómissandi.
En það er svo oft með okkur íslendingana að geta ekki gert neitt nema að keyra langt fram úr öllu hófi. Sem leiðir svo til þess að það verður að setja allskonar skorðandi reglur. "Forsjárhyggja" hrópum við svo svekkt. "Og mig sem langaði svo til þess að styrkja hjálparsveitinar!!"
Það stendur núorðið yfir samfelld sprengjuhátíð frá öðrum í jólum nánast allan sólarhringinn fram yfir þrettándann. Jaa á meðan ég er að skrifa þetta um hábjartan daginn núna 8. Janúar, þá eru að fljúga upp heilmiklir flugeldar. Það er ekki hægt að sitja heima á kvöldin yfir hátíðarnar spjalla og lesa eða horfa á sjónvarpið, án þess að hrökkva margoft við eða þurfa að hækka upp úr öllu valdi.
Við hrukkum upp á mínu heimili kl. 07.15 að morgni þess 29. des. við þessa líka svaka sprengjuhátíð í götunni sem stóð í allangan tíma. Og það var snarbrjálað veður, suðaustan 15 með slyddudrullu og ekki nokkur lifandi maður úti við. Núorðið getur maður ekki einu sinni snúið sólarhringnum við í jólafríinu og lesið fram á nótt eða púslað möndlugjöfinni. Og svo skilja menn allt draslið eftir á gangstéttinni eða út á götu. Ábyrgðinni er lokið og einhver annar á að sjá um hreinsunina.
Með þessu áframhaldi erum við að kalla yfir okkur samskonar lög og eru gildandi í mörgum öðrum löndum, þar sem rokeldspýtur og stjörnuljós er hámarkið.
„Ert´ ekk´ að grínast í mér afi. Fáum við þá ekki að kaupa alminnilegt gamlársdót?“ „Ja ef þessu heldur áfram, þá verður það aðaltekjulind hjálpasveitanna að vera á vakt á vegum hins opinbera og hánka þá sem sprengja fyrir utan tímann milli 20.00 -00.01 á gamlárskvöld“.
Er ekki með sameiginlegu átaki rétt að koma þessu í eitthvert vitrænt horf áður en það verður of seint?
2 ummæli:
Góður pistill - þetta nær út yfir allan þjófabálk eins og þetta er orðið.
Æi er þetta ekki stormur í vatnsglasi hjá Dofra og félögum. Þetta er ein vika á ári og svo er það búið. Fjarar út. Þetta er ekki vandamál.
Skrifa ummæli