sunnudagur, 13. janúar 2008

Ekki boðlegar umræður

Í Silfri Egils í dag var að venju farið yfir helstu málin í þjóðlífinu í dag. Staldrað var við stöðuna í kjaramálum. Þar kom glögglega fram að þáttastjórnandinn ásamt viðmælundum hafði ákaflega takmarkaða þekkingu á stöðu þessara mála. Klifað var á að verkalýðshreyfingin hefði átt að leggja fram skattatillögur sínar í lok samningaferils.

Agli og viðmælendum hans til upplýsingar hef ég dregið helstu punkta ferilsins saman :
SA lagði fram í nóvember tillögur um fasta krónutöluhækkun á launataxta og launatryggingu og tveggja ára samning, með þessu var lagt til að flytja launakostnaðaraukningu yfir á þann hóp sem tekjulægstur væri. Forysta ASÍ fór yfir tillögurnar og fundaði um þær. Fjölmennir fundir samninganefnda og stjórna félaga í lok nóvember féllust á að fara þessa leið, þrátt fyrir að verið væri að flytja hugsanlega launahækkun stórra hópa sérstaklega í VR og iðnaðarmannahópunum annað. Sett var það skilyrði að skattar yrðu lækkaðir á tekjulægstu hópunum, þannig að þær launahækkanir sem fyrrnefndir hópar voru að afsala sér og færu yfir til hinna tekjulægstu en ekki í ríkissjóð í formi tekjuskatta.

Þ. 12 des. fór ASÍ forystan til ríkisstjórnarinnar og hún spurð hvort þetta kæmi til greina, lagðar voru fram tillögur um aðferðir og bent á nokkrar útfærslur. Farið var fram á svör fljótt því vinna við samningsgerðina væri stopp og myndi verða það þar til svör fengjust. Þann 4. janúar leggur framkv.stjórn SA í herferð gegn tillögum ASÍ með margskonar rangfærslum. Ríkisstjórnin birtir svo svar sitt loksins þ. 9. jan. Ríkisstjórnin hafnaði tillögum um skattaklækkun þeirra tekjulægstu, en boðaði áframhaldandi flata lækkun skatta, sem skilar sér að mestu til þeirra tekjuhæstu. Það er rökstutt með þeim kostulegum hætti að 20 þús. kr. hækkun persónuafsláttar hjá fólki með tekjur undir 300 þús. kr. valdi aukinni fátækt!! Hið rétta er að ráðstöfunartekjur hjóna með 3 börn og samanlagðar tekjur undir 300 þús. aukast um 40 þús. kr. á mánuði, þrátt fyrir aukin jaðaráhrif.

Verkalýðsforystan varð undrandi þar sem hún taldi sig vera að vinna í samræmi við yfirlýsta efnahagsstefnu stjórnarflokkanna. Vonbrigði komu fram sakir hversu lengi ríkisstjórn dró að svara og hafði tafið umræður við gerð kjarasamninga um rúman mánuð.

Verkalýðsforystan hefur vitanlega í kjölfar þessa svars farið þá leið sem hún tilkynnti í byrjun desember, hvert landssamband semur fyrir sig.

Óskandi væri að stjórnandi Silfursins fengi t.d. hagfræðinga ASÍ í þáttinn þegar hann ætlar að fjalla um þróun kjaramála í Íslandi.

Engin ummæli: