laugardagur, 26. janúar 2008

Ólýðræðisleg vinnubrögð

Í baráttu fyrir jafnari skiptingu þess arðs sem hin vinnandi hönd skapar, upplifa launamenn það ætíð þegar þeir grípa til síns eina vopns, að hafna því að vinna fyrir þau kjör sem eigendur fjármagnsins bjóða og krefjast hærri hlutar við skiptingu arðsins, að tilteknir stjórnmálamenn og málgögn þeirra hefji massívan áróður fyrir því að nú sé beitt ólýðræðislegum brögðum. Þar fari hópur sem beiti fyrir sig ólýðræðislegum brögðum og hrifsi til sín völd sem þeir ekki hafi. Skapi með því óþægindi fyrir saklaust fólk.

Þessi málflutningur ber merki mannfyrirlitningar, með honum er sett fram krafa um að launamenn eigi að sætta sig möglunarlaust við það endurgjald sem þeir fá fyrir vinnu sína og eigi þegjandi og hljóðalaust að halda áfram að vinna. Það eru valdhafarnir sem séu handhafar lýðræðisins.

Borgarstjóri varð í haust uppvís af því með aðstoð eins fulltrúa flokks sem rétt dróg inn í borgarstjórn, að vera kominn á bólakaf með nokkrum harðsnúnum fjármálamönnum að ráðstafa eigum almennings. Þeim varð ekki sætt vegna þess að almenning og flokksystkinum borgarstjórans ofbauð. Hinn staki fulltrúi bjargaði sér með því að stökkva um borð hjá minnihlutanum. Ef þá hefðu farið fram mótmæli í ungliðahreyfingu flokks borgarstjórans, hefðu þau að beinst að hans eigin athöfnum sem urðu til þess að flokkur hans hraktist frá völdum.

Síðan þá hafa valdamenn leitað hefnda gegn borgarfulltrúanum staka. Ljóst var að pólitísku lífi hans var lokið, hann hafði gengið gegn handhöfum valdsins. Nú hefur borgarstjórinn fyrrverandi fengið annan stakan fullrúa sem hefur ekkert bakland, til þess að koma yfir til sín, gegn loforðum um að hann megi ráðstafa hundruðum milljóna af almannafé án þess að fyrir liggi samþykkt, til þess að ganga þvert á áður samþykkt skipulag og verða borgarstjóri í nokkra mánuði. Þá ofbauð fólki, mælir einleiksins var orðinn fullur, ekki bara í einum flokk heldur í öllum.

En viðbrögðin létu ekki á sér standa hjá málsvörunum, leiðarahöfundunum þremur ásamt hinum venjubundnu þátttakendum í spjallþáttunum. Enn er því haldið fram að við öll hefðum rangt fyrir okkur og við séum með ólýðræðislegum brögðum að standa í vegi þeirra. Því er blákalt haldið fram að fólk sé viljalaust og skoðanalaus verkfæri, sem sé smalað svo hundruðum skipti í hóp og skipað að hrópa og stappa gegn lýðræðinu.

Í dag snúast stjórnmál um völd einstaklinga. Það er liðin tíð að bera mál undir flokksráð og stóra fundi þar sem þau eru rædd og afgreidd með lýðræðislegum hætti. Það tekur svo langan tíma kemur fram í svörum hinna stöku valdhafa. Ekki fengum við að kjósa um fjölmiðlalögin, þó svo stjórnarskráin segði að við ættum skilyrðislaust þann rétt. Sami einleikur var uppi þegar við vorum gerð að viljugri þjóð til stríðsleikja. Eftirlaunalögin voru smíðuð á borði fárra einstaklinga sem komu til með að njóta þeirra og rutt í gegnum Alþingi umræðulaust.

Undiraldan vex meðal almennings. Honum er misboðið, ekki bara núna það á sér sögu í endurteknum einleik stjórnmálamanna á undanförnum misserum. Hver viðburðurinn hefur rekið annan þar sem almenning hefur verið freklega misboðið.

Fólk er ekki fífl og það ber að umgangast af virðingu. Málefnin skipta almenning máli umfram valdapot, hagsmuni og sérhyggju einstaklinga. Sú hegðun sem stjórnmálamenn hafa viðhaft undanfarin misseri hefur rúið stjórnmálamenn trausti almennings, það staðfesta skoðanakannanir.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er alvarlegt mál og komið mál til að fólk fari að vakna og sporna við.

Snorri sagði...

Rétt hjá þér Guðmundur, það eru valdhafar sem eru lýðræðið, við kjósum á 4.ára fresti, eftir kosningar byrjar makkið um hverjir sjái um "lýðræðið" næstu 4.ár því miður virðist ekki skipta neinu máli hverjir verma valdastólana, það virðast allir leggjast á sömu árarnar og róa á móti þeim sem minna mega sín í þjóðfélaginu.Reyndu að snúa samningstímabili inn á kosningaár .