þriðjudagur, 1. janúar 2008

Jákvætt á síðasta ári

Ef litið er yfir málefni vinnumarkaðar á síðasta ári, þá mun þessa árs líklega verða minnst með þeim hætti að loks virtust stjórnvöld viðurkenna hver staða erlendra launamanna hér á landi væri og taka markvisst á málum af festu með nýjum félagsmálaráðherra.

Starfsmenn stéttarfélaganna höfðu árangurslítið staðið í glímu við starfsmannaleigur og bent á að þær kæmust upp með brot, sem íslensk fyrirtæki væru tekin í bakaríið ef þau reyndu slíkar kúnstir. Þetta svigrúm höfðu tilteknar leigur nýtt til þess að sniðganga allar reglur. Á undanförnum árum hafa stéttarfélögin mátt sitja undir allskonar aðdróttunum frá stjórnvöldum og ákveðnum stjórnmálamönnum, sem með kostulegum málatilbúnaði héldu því fram að stéttarfélögin væru á móti þróun og væru með fasisma gagnvart erlendu fólki.

Það er fyrst í haust sem stjórnvöld taka á þessum málum af stefnufestu og í raun viðurkenna það sem starfsmenn stéttarfélaganna hafa ætíð haldið fram. Fyrir ári voru sett hér framsækin lög um úrbætur í skráningu á erlendu launamönnum og eftirliti með fyrirtækjum og starfsmannaleigum. Verkalýðshreyfingin átti drjúgan þátt í mótum þessara laga og fagnaði staðfestingu þeirra, reyndar með undantekningu sem virtist tengjast kosningabaráttu eins flokks.

Eigendur starfsmannaleiga hafa nýtt sér stöðuna, ef einhver fjallaði opinberlega um framferði þeirra, var hinum sama hótað meiðyrðamálum. Ef við lítum til byggingamarkaðarins þá sjáum við að lág laun erlendra byggingarmanna og lakur aðbúnaður hefur ekki skilað sér í lækkandi verði fasteigna, þvert á móti. Það eru einungis fjárfestar og eigendur starfsmannaleiganna sem hafa hagnast á þessu ástandi. Eftir sitja hlunnfarnir erlendir launamenn og íslenskir byggingarmenn með lakari launaþróun og svo kaupendur íbúðanna sem voru að greiða aukinn arð til fjárfestanna.

Engin ummæli: