fimmtudagur, 10. janúar 2008

Fram fram veginn gegn þeim sem minnst mega sín


Á undanförnum árum hefur í vaxandi mæli komið fram gagnrýni á stjórnvöld fyrir óréttlátar skattabreytingar, byggð á því að skattbyrði þeirra tekjulægstu hefur verið að vaxa á undanförnum árum með lækkandi skerðingarmörkum og hækkandi þjónustugjöldum, samfara því að skattbyrði þeirra tekjuhæstu hefur lækkað.

Stjórnvöld hafa reynt á ýmsan hátt að slá þessari gagnrýni út af borðinu með því að leggja fram alls konar meðaltöl. En þeir sem eitthvað kunna fyrir sér í stærðfræði vita að meðaltöl segja oft alls ekki allan sannleikann. Vinsæl myndræn líking í þessu sambandi er að maður hafi það að meðaltali gott ef annar fóturinn sé í ísfötu en hinn í sjóðandi vatni.

Í þessu sambandi má benda á meðatöl stjórnvalda um vaxandi kaupmátt á undanförnum árum. En við skulum aðeins skoða betur heita vatnið og ísfötuna.

Árin 2003 – 2004 fékk 81% launamanna kaupmáttaraukningu, en 19% kaupmáttarskerðingu
Árin 2005 – 2006 fékk 60% launamanna kaupmáttaraukningu, en 40% kaupmáttarskerðingu
Árin 2006 – 2007 fékk 55% launamanna kaupmáttaraukningu, en 45% kaupmáttarskerðingu.

Þetta segir okkur að þar sem kaupmáttur hafi vaxið að meðaltali á meðan vaxandi hópur býr við kaupmáttarskerðingu, þá blasir við að það hefur verið að draga mikið í sundur. Þeir sem eru í hærri kantinum hljóta að vera fá mikið meira þar sem meðaltalið er í plús.

Það var þetta sem stéttarfélögin vildu fá stjórnvöld í lið með sér og leiðrétta og gera það samfara kjarasamningum. Á öðrum tíma er það einfaldlega ekki hægt, (Afsakaðu lesandi góður, en hér er verið að kenna tilteknum stjórnarþingmönnum og pistlahöfundum grunntengsl kjarasamninga og efnahagslífs).
Samtök launamanna voru tilbúin að beina miklum meiri hluta launakostnaðarauka við samningsgerðina til hinna lægst launuðu á meðan hinir hærra launuðu sætu kyrrir. Hinir hærra launuðu féllust á þetta svo framarlega að gengið yrði þannig frá málum að það sem þeir væru að gefa eftir í launahækkun færi ekki þráðbeint í ríkissjóð í hækkuðum sköttum hinna lægst launuðu.

Launamenn lögðu til að tekinn yrði upp sérstakur 20 þús. kr. persónuafsláttur til þeirra tekjulægstu, sem færi lækkandi frá 150 þús. kr. á mánuði og rynni út við 300 þús. kr. Samhliða þessu var lagt til að skerðingarmörk barnabóta væru hækkuð úr 90 þús. kr. í 150 þús.kr. ASÍ lagði einnig fram tillögur um ráðstafanir til þess úr jaðaráhrifum.

Eins og ég hef komið að í pistlum hér framar, fóru nokkrir stjórnarþingmenn hamförum gegn þessu með harkalegum ummælum í garð launamanna (að venju). Og svo kom SA (já virkilega af öllum) og fór fram á það við ríkisstjórnina að hún vísaði þessu frá, sem hún gerði eftir að hafa dregið kjarasamningagerð í einn mánuð.

Vonbriðgi launamanna urðu vitanlega mikil. Og urðu reyndar enn harkalegri þegar ríkisstjórnin og málsvarar hennar veittist að samtökum launamanna um óvönduð vinnubrögð með kostulegum skýringum um jaðaráhrif. Steininn tók úr þegar fram kom að stjórnvöld ætla ekki að breyta stefnu sinni um að lækka skatta á þeim tekjuhæstu. En í stað þess gefur hún þeim tekjulægstu langt nef, með því að hafna að taka þátt í sameiginlegu átaki sem launamenn gerðu kleift með tilslökunum í kjarasamningum.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir greininguna.

Þögn er eitt einkenni valdhafa þegar svo þykir henta.

Nafnlaus sagði...

Góður að vanda, Guðmundur! Vona bara að sem flestir lesi greiningar þínar, þær hafa það fram yfir flest annað að vera á amannamáli. Keep on fighting