miðvikudagur, 2. janúar 2008

Landkynning?

Ég hef frá árinu 1975 dvalist töluvert á hinum Norðurlandana vegna náms og vinnu, mest í Danmörk. Ég varð oft undrandi á spurningum frænda okkar, reyndar frekar fullyrðingum, um hver væru viðhorf okkar og hvernig daglegt líf gengi fyrir sig á Íslandi. Fullyrt var að allt líf á Íslandi mótaðist af veru varnarliðsins. Íslendingar töluðu jafnvel frekar ensku en íslensku, klæddust amerískum fötum og horfðum og hlustuðum á ekkert nema kanasjónvarpið og útvarpsstöð hersins. Bandarísk lágmenning væri það eina sem þrifist á Íslandi.

Í mínu umhverfi skipti varnaliðið ekki miklu og ef ég reyndi að mótmæla þessu varð mér lítið ágengt. Ég áttaði mig svo á hvers vegna þessi viðhorf voru svona rík hjá hinum norrænu vinum mínum, ítrekað voru sýndir viðtalsþættir á norrænu ríkissjónvarpsstöðvunum um lífið á Íslandi. Alltaf við sömu konurnar, þar fremsta í flokki vinsælan barnabókahöfund og alþingismann, sem lýstu með áferju einhverri veröld sem ég kannaðist lítið við. Einnig voru algeng blaðaviðtöl við sama fólkið og alltaf var hamrað á sömu viðhorfunum.

Við værum að fara til fjandans með hernáminu. Öll íslensk sjónarmið væru að hverfa og amerísk að taka við. Allar stúlkur lægju undir könum og íslenskir karlmenn væru hugmyndalausir plebbar sem dúnkuðust á milli sveitaballanna á amerískum bílum blindfullir og í slagsmálum. Myndirnar sem fylgdu viðtölunum sýndu okkur frá þessu sjónarhorni. Það var ömurlega leiðinlegt að sitja undir þessu og nánast óframkvæmanlegt að koma inn annarri mynd um okkur.

Það var áberandi hvað blaðamönnum og spyrjendum fannst þetta skemmtilegt viðfangsefni. Þeir völdu greinilega viðmælendur sem höfðu þessi viðhorf, og svarendur sem höfðu áhuga á að koma þessu áliti inn hjá frændum okkar. Þetta var í sjálfu sér ekkert annað en skemmdarverkastarfsemi. Það var ekki fyrr en tók að nálgast aldamótaskiptin að það fór að draga úr þessu áliti frænda okkar.

Þetta rann svona upp fyrir mér þegar ég sá að enn einu sinni er sjálfskipaður blaðafulltrúi okkar að hrósa sér af því að hann hafi birt greinar í suður og norður Ameríku um hversu stórkostlegt allt sé hjá okkur, sakir þess þess hversu langt við séum kominn fram á veg Frjálshyggjunnar, með því að lækka skatta á hinum hæstlaunuðu, samfara því að hækka óbeina skatta á þeim sem ekki nenna að vinna og minna mega sín með hertum skerðingum í bótakerfinu, lækkun persónufrádráttar og hækkun þjónustugjalda í heilbrigðis- og umönnunarkerfinu.

Öll þessi endalausa hamingja hafi byrjað með tilstilli eins manns þegar hann komst til valda árið 1991. Aðrir eins t.d. verkalýðshreyfingin hafi svo sem verið að þvælast fyrir honum með einhverju kjaftæði eins og Þjóðarsátt, sem var vitanlega ekkert nema nokkurra mánuða verðstöðvun.

Þessi hinn sami samdi nýja sögu íslenska ríkisins síðustu aldar. Þar voru það hægri menn sem björguðu landinu og íslenskum almúga frá sjálfum sér, í fullkominni andstöðu við alla aðra. Þessir þættir voru svo sýndir í sjónvarpi allra landsmanna á besta sýningartíma og seldir í alla grunnskóla landsins.

Ég er aftur á móti sammála því sem kemur fram í áramótaummælum núverandi forsætisráðherra, að í forystusveit launamanna og vinnuveitenda séu viðhöfð ábyrg vinnubrögð sem hafi skilað okkur fram á veg vaxandi kaupmáttar og aukinnar velmegunnar umfram annað.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Margt er hér rétt sagt og af spakviti. Hitt er einnig, að lýðskrum um ,stöðu okkar minnstu bræðra" hefur einnig stundum sprungið í andlit manna, þegar grennslast er eftir því, hvernig sá hópur er samesettur og er ég einn þeirra, sem hvet mjög til, að hagur þeirra sem eru í ,,raunverulegri" þörf fyrir aðstoð, fái hana án refja. En til þess, að það megi verða, verður að vinsa úr, það sem er þar á röngum forsendum og aumingjadýrkuninni einni saman.

ÞEtta hef ég þurft að finna á eigin skinni, en dóttir mín varð fyrir slysi og þurfti aðstoð en var la´tin bíða LENGI en fram fyrir hana teknir útlendir sem voru ekki í bráðri þörf, þar sem vinnu var allstaðar að fá.

Vinkona hennar (portúgölsk) var ein þeirra sme fékk ríkulega af styrkjum og aðstoð ýmiskonar. Dóttir mín komst eftir því, hversu mikllir fjármunir og þeirra ígildi væru þarna á ferðinni og reiknaðsit okkur svo til, að mánaðarlegar greiðslur, með einum eða öðrum hætti, voru nokkuð til jafns við mín laun en ég er ekki í láglaunastarfi.

Annars þarf nauðsynlega að fá menn á borð við Einar minn Odd til að leggja fyrir sig stjórnmál. Fyrr verður ekkert af viti gert. Þar fór maður úr Stuðlabergi íslensku. Með sýn beggja að leiðarljósi.

Gleðilegt ár og hafðu þökk fyrir hugvekjurnar sem þú pikkar hingað inn svona við og við.

Miðbæjaríhaldið