miðvikudagur, 23. janúar 2008

Valdabrölt og hæfni stjórnmálamanna

Ég hef stundum velt því fyrir hvers vegna hæfni stjórnmálamanna þá sérstaklega í sveitarstjórnum er aldrei til umræðu. Eins og komið hefur fram undanfarna tvo daga þá er leitað af miklu kappi eftir einhverjum sem geta tekið að sér setu og stjórn í fagstjórnum Reykjavíkurborgar fyrir hönd Ólafs/Frjálslynda flokkssins. Veit eiginlega ekki hvort er en það skiptir svo sem ekki öllu.

Samkvæmt minni þekkingu sem iðnaðarmanns sem hef unnið töluvert lengi við stórar og litlar verklegar framkvæmdir. Þá hefur stjórnmálaleg skoðun og sannfæring ekkert að gera með hvort viðkomandi sé hæfur í sveitarstjórn til mats á þeim verkefnum sem fyrir liggja.

Össur tekur mjög oft þannig til orða að einn eða annar sé mjög fær stjórnmálamaður, en ég hef aldrei heyrt skilgreiningu á því hvað hann eigi við. En mér virðist það þó vera, samkvæmt skilgreiningu Össurs og nokkurra annarra, að viðkomandi sé snjall í því að komast til valda, ná til sín völdum, stinga upp í aðra í orðræðu. Snúa út úr staðreyndum eins og við höfum svo oft upplifað, t.d. nýverið í rökum þeirra, sem þindarlaust reyna að fá okkur til þess að trúa því að það sé einungis óvild í garð Davíðs, sem hafi fengið nánast alla lögfróða menn á landinu ásamt drjúgum hluta almennings að gagnrýna gerðir Árna Matt.

Eftir hverju er farið þegar menn eru settir til æðstu valda við ákvarðanatöku og verklega stjórnun í fagráðum Reykjavíkurborgar? Stjórnmálamenn hafa haldið því fram að þar ráði niðurstaða í prófkjörum, en þar ræður stigaskali Morfís. Þessa stundina virðist það heldur ekki skipta máli.

Sú atburðarrás sem borgarbúum hefur verið boðið upp á á þessu kjörtímabili er vitnisburður hvert valdabrölt í pólitík leiðir menn. Þar ráða ekki hugsjónir eða málefnanleg umræða og þaðan af síður mat á því hvort sett sé til valda í þýðingarmiklum nefndum hæft fólk.

Hefndarhugur ræður för eða snilli í stjórnmálum. En hvað með velferð borgaranna og þau verkefni sem við bíðum eftir að verði framkvæmd. Á hvaða forsendum fengu Sjálfstæðismenn sín atkvæði? Skiptir það engu nú, var það bara sjónarspil að setja fram eitthvað sem vitað var að myndi ganga í fólk og þægilegt til þess að stinga upp í aðra í orðræðu.

Íslenskir stjórnmálamenn virðast telja að þeir þurfi einungis að ná athygli kjósenda á kjördag. Síðan taki við þeirra eigin geðþótti og á hauginn fara öll loforðin. Tilgangurinn er sá einn að ná völdum. Í dag er veifað framan í okkur stefnuskrá nýs borgarstjórnarmeirihluta. Ólafur fullyrðir, og að því virðist með réttu, að þetta sé ljósrit af þeim minnispunktum sem hann tók með sér í viðræður við Vilhjálm og Kjartan.

Eða er þetta kannski allt saman smjörklípa sett fram af Davíð til þess að beina orðræðunni inn á aðrar brautir en þær hafa verið undanfarna daga? Hverju á maður að trúa? Maður hefur ekki einu sinni landsliðið til þess að trúa á.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já það er góð spurning hversu margar "hæðir","greinar" eru í þessum málum.

Nafnlaus sagði...

Það sem að ber fram úr öllu öðru er aðferð setts dómsmálaráðherra að virða að engu störf faglegra skipaðrar nefndar. Og þó að þessi gerningur sé svo augljós þá er eins og það komi ekki þjóðarþegnum við, heldur er haldið að þessum málum frá flokksfólki hans eins og að svona athæfi sé sjálfsagt.
Já, sjálfsagt að virða að engu niðurstöðu faglegrar nefndar með þeim afleiðingum að þjóðarþegnar fá skilaboðið að dómaraskipan í princip er á sama hátt og í einveldisríkjum.
Og við bláeygð héldum að landið stæði á lýðræðilegum grundvelli.