laugardagur, 19. janúar 2008

Hagsmunir öryrkja

Ég verð að viðurkenna að ég hef stundum átt erfitt með að átta mig á því hvers vegna samtök öryrkja eru að eyða orku sinni í innbyrðis átök á opinberum vettvangi. Það tekur virkilega í þegar þessi átök blossa upp hjá þeim að því virðist reglulega. Hvers vegna geta þau ekki leyst sín innri mál á fundum, en nýtt opinberan vettvang til þess að koma sínum málum fram.

Á margan hátt er starfsemi Öryrkjabandalagsins lík starfsemi samtaka launamanna. Hagsmunasamtök sem ráða til sín starfsmenn til þess að koma baráttumálum á framfæri og vinna þeim framgang. Flest baráttumála öryrkja tengjast helstu stefnumálum samtaka launamanna. Breytingar í almenna tryggingarkerfinu og heilbrigðiskerfinu. T.d. eru mjög ofarlega á blaði kröfugerða launamanna í yfirstandandi kjarasamningum veruleg aukning á byggingu félagslegs húsnæðis, ásamt hækkun á skerðingarmörkum almannatryggingarkerfisins og frítekjumörkum.

Svo einkennilegt sem það nú er þá beina stjórnmálamenn oft spjótum sínum í þessum málaflokkum að samtökum launamanna, og saka þá um hver staða þessara mála er. Ég veit ekki hvort það er vegna þekkingarleysis á eigin störfum, en held þó frekar að það sé til þess að víkja sér undan ábyrgð á eigin getuleysi. Öll vitum við að það erAlþingi sem ákvarðar um öll kjaraatriði öryrkja. Samtök launamanna eru þar í sama hlutverki og samtök öryrkja, að setja fram tillögur um lagfæringar og vinna þeim stuðning.

Með harðvítugum innbyrðisdeilum eru öryrkjar að ganga gegn eigin hagsmunum. Öll vitum við að þar eru ær og kýr stjórnmálamanna og þeir setja óðara til hliðar lausn vandamála komist þeir í slíkan slag. T.d. eins og gerðist nú um áramótin þegar samtök atvinnurekenda gleymdu hlutverki sínu í fyrstu viku þessa árs og skelltu sér í skotgrafir stjórnmálamannanna og sökuðu samtök launamanna að vera með tillögur um að setja 67% jaðarskatta á öryrkja og einstæða mæður og það myndi kosta samfélagið 40 milljarða. Þetta var nú líka fóður sem gekk vel ofaní stjórnmálamenn og spjallþættina, þó svo að flestum öðrum væri ljóst hvílík endaleysa og útúsnúningar þetta var. En stjórnmálaleikur SA splundraði vinnu við gerð kjarasamninga og eyðilagði eins og hálfsmánaðar vinnu og setti kjarasamninga á byrjunareit.

Mörg mál sem eru öryrkjum ákaflega verðmæt eru nú í vinnslu hjá stjórnvöldum, þeim er öllum stefnt í voða hleypi öryrkjar stjórnmálamönnum inn á uppáhaldsleikvang sinn, leðjuna.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Öryrkjahreyfingin hefur vissulega þurft að berjast fyrir að fá að eiga aðkomu að sínum málum.

Verra er þegar verkalýðshreyfingin hefur ekki stutt hana í þessari baráttu. Þannig tóku fulltrúar ASÍ og BSRB sæti í nefnd ríkisstjórnarinnar til að endurskoða örorkubótakerfið, þar sem ekki var gert ráð fyrir fulltrúa frá ÖBÍ. Að lokum tókst að berja það í gegn að bandalagið fengi fulltrúa - en það var ekki fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar að þakka.

Og ekki var mikið betra að horfa upp á ASÍ ætla að gera samkomulag við SA um endurskoðun bótakerfisins að aðalatriði samninga á vinnumarkaði án þess að ræða við nokkurn mann innan ÖBÍ - og raunar í fullri andstöðu við öryrkja.

Með slíka vini þurfa menn ekki óvini.