sunnudagur, 20. janúar 2008

Skálafell lokað en Heiðmörkin full


Það er fínt skjól á skokkbrautunum í skóginum

Bestu skíðabrekkur á höfuðborgarsvæðinu eru í Skálafelli. Það er erfitt að sætta sig við að þar sé nægur snjór en allt lokað. Langar raðir voru í Bláfjöllum og það tók langan tíma að koma lyftum inn ef eitthvað fór úrskeiðis. Stjórnmálamenn tóku þá ákvörðun í fyrra að segja öllum starfsmönnum skíðasvæðanna upp, nú er allt í tjóni vegna þess að þekkingin á tækjunum á svæðinu fór vitanlega með þeim. Ég veit ekki nákvæmlega hversu stór fjárfesting er í skíðasvæðum höfuðborgarsvæðisins, en það er örugglega nokkrir milljarðar, sem þarna standa hálflokaðir eða alveg lokaðir.



Á skíðum í Heiðmörkinni

Gríðarlegur fjöldi göngumanna hefur undanfarna daga verið í Heiðmörkinni á hinum geysilega fallegu og vel skipulögðu brautum sem þar eru. Það er mikill fjöldi fólks sem notar hið skemmtilega og vel skipulagða göngustíganet í Grafarvoginum sem liggur um hverfin og með sjávarströndinni upp í Mosfellssveit og það er mitt helsta leiksvæði og sótt þangað mikla líkams- og ekki síður hugarrækt.

En Heiðmörkin þá sérstaklega Hjallasvæðið er mitt annað leiksvæði, það býður upp á ákaflega fjölbreyttar göngu- og hlaupaleiðir. Þar er oftast logn í skjóli skógarins þó svo blási annarsstaðar. Nú er búið að troða brautirnar og Heiðmörkin skartar sínu fegursta.

Engin ummæli: