Ég fór fyrir nokkrum árum á Golden Globe hátíðina. Þegar Björk var tilnefnd til verðlauna sem aðalleikona, en Julia Roberts vann fyrir Erin Brockovisch. Björk var einnig tilnefnd til verðlauna fyrir tónlist en Bob Dylan vann. Þar virðist fólk hafa meiri skilning á kjarabaráttu en sumir hér á landi, sé litið til atburða síðustu daga.
Ég gekk rauða dregilinn margfræga með öskrandi blaðamenn og ljósmyndara á báðar hendur. Reyndar ekki á mig ótrúlegt nokk, engin þeirra þekkti verkalýðsforingja frá Íslandi. En það voru margir sem létu öllum illum látum til þess að fá Björk og aðra þekkta einstaklinga til þess að stoppa og stilla sér upp. Sumir kölluðu spurningar til Bjarkar um hverjir væri með henni og báðu svo um að við stilltum okkur upp við hlið hennar.
Á rauða dreglinum fer fram ákveðið leikrit. Dregillinn er svið sem gætt er mjög vandlega af starfsmönnum, engin fær að ganga eftir honum nema fólk sem er að fara inn í sal Golden Globe hátíðarinnar. Ljósmyndarar og aðrir fá að standa á pöllum við hlið hans. Það er einkennilegt hvernig allt gjörbreytist þegar komið er inn í salinn. Í stað leikritsins sem fram fór á dreglinum með öllum sínum uppstillingum, þá urðu allir allt í einu eins og venjulegt fólk. Engu skipti hver þú varst, ert mitt á meðal allra stórstjarnanna og þær voru mjög venjulegt fólk sem töluðu við alla, svona eins og í eftirmiðdagspartý.
En svo gall við aðvörun og allir settust við sitt borð og útsending hófst. Nokkru síðar gall við önnur tilkynning um auglýsingahlé og allir spruttu upp og héldu áfram að rölta um og spjalla við alla um allt og alla. Þannig gekk öll útsendingin. Ég sat við hlið Anthonio Banderas, fínn gæi og mjög skemmtilegur, á hina hlið mér sat Jennifer Lopez og á næsta borði voru Tom Hanks og Mickael Douglas. Semsagt allt aðalliðið.
Það er eftirminnilegt að sjá hvernig ljósmyndarnir láta og hversu aðgangsharðir þeir eru. Sömu læti eru í flugstöðvum þegar þangað er komið og listamenn verða að sýna ótrúlega stillingu. En stundum gengur þetta alltof langt. Sumir ljósmyndararnir grípa til fólks til þess að fá það til að stoppa, jafnvel krafist að farið sé úr jökkum eða öðru og fólk stilli sér upp. Ganga svo langt að grípa til barna listafólksins og þeim hrint í fang foreldris til þess að ná mynd að geðþótta ljósmyndarans. Ef þú mótmælir, birtist eitthvað mjög neikvætt í pressunni daginn eftir.
Flest af fræga fólkinu er með lífverði, eða aðstoðarmenn sem ryður því leið í gegnum flugstöðvarnar. Björk hefur aldrei talið ástæðu til þess og er oft ein á ferð eða með nokkrum nánum vinum. Núna þá er hún á leið til Nýja Sjálands og Ástralíu til tónleikahalds og fer þaðan til Japan. Hún fer á undan hljómsveits sinni sakir þess að hún er á leið yfir í allt annað tímaskeið og búin að vera jólafríi. Til þess hafa tíma til þess að jafna sig á tímamun og fara í ræktina til þess að ná þolinu upp aftur og hita upp röddina.
Ég varð vitni að einni uppákomu í flugstöð í LA. Ljósmyndari áttaði sig á að Björk væri þarna og hann ruddist inn á milli okkar, hrinti okkur til hliðar og barni Bjarkar og krafðist að hún stillti sér upp og hljóp á eftir henni hvert skref. Oft þurftum við að ýta honum til hliðar til þess að komast áfram og að endanum sögðum við honum að nú væri nóg komið. Þá hrópaði hann að þetta væri frjálst land og við skildum bara gæta okkur annars myndi hann kæra okkur fyrir líkamsárás og skerðingu á persónulegu frelsi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli