mánudagur, 28. janúar 2008

Umræðuréttur skrílsins


Undirstaða þess þjóðfélags sem við búum í




Með lýðræðislegri umræðu er ekki einungis átt við skoðanaskipti meðal kjörinna fulltrúa í lokuðu umhverfi, sem lýkur í formi tilkynninga frá hinu opinbera til almennings. Hún fer ekki fram í formi einboðinna skoðanna ritstjóra sem birtast í leiðurum dagblaðanna. Lýðræðisleg umræða stendur ekki yfir örfáa daga fyrir kjördag og lýkur þegar kjörklefum er lokað.

Lýðræðisleg umræða miðar að því að taka ákvörðun um hagi almennings. Hlutverk slíkrar umræðu er að draga fram í dagsljósið þá hagsmuni sem eru í húfi og skilgreina kosti og galla. Almenningur hefur rétt til þátttöku í opinberri umræðu alla daga ársins, sakir þess að hún snýst um ákvarðanatöku sem snertir almannahagsmuni.

Almenningur krafðist þátttöku í lýðræðislegri umræðu um Eyjabakkanna þegar stjórnvöld ætluðu að hefja þar framkvæmdir án lögformlegra heimilda. Stjórnvöld létu sér ekki segjast fyrr en fyrir lá að 80% þjóðarinnar/almennings/kjósenda stóðu fyrir opinberum mótmælum. Almenningur krafðist sömu réttinda þegar kjörnir fulltrúar ætluðu riðja í gegn fjölmiðlalögum þar sem hefta átti þátttöku almennings í lýðræðislegri umræðu. Kjörnir fulltrúar numu þá úr gildi stjórnarskrárvarin rétt almennings um kosningu.

Undanfarin misseri hafa staðið yfir mótmæli almennings við sértækum eftirlaunalögum þar sem kjörnir fulltrúar stóðu að óheftri sjálftöku úr opinberum sjóðum sjálfum sér til handa. Nýverið krafðist almenningur þátttöku í umræðu um skipan dómara sakir þess að ráðherra fór ekki að settum lögum um þrískiptingu valdsins. Almenningur er þessa dagana að krefjast þess að vera þátttakandi í umræðu um skipan stjórnsýslu Reykjavíkurborgar, sakir þess að það er ekki farið að niðurstöðum kosninga. Ef ekki er farið að niðurstöðum kjördags, þá vill almenningur annan kjördag núna.

Mótmæli er þáttur í lýðræðislegri umræðu. Mótmæli er eina leið almennings til þess að koma skoðunum sínum á framfæri, þegar kjörnir fulltrúar fara ekki að settum leikreglum. Almenningur hefur ekki aðgang að lokuðum fundum kjörinna fulltrúa og hann hefur ekki að gang að skrifum leiðara eða Staksteina. Runnin er upp sá tími að almenningur getur sett fram skoðanir sínar án þeirrar hömlu sem ritstjórnir fjölmiðla höfðu, lengst af eins, sem hefur haft þær afleiðingar að ritstjórn þess fjölmiðils hefur aldrei náð sér eftir það ofríki sam hún hafði á stjórn umræðunnar með því að sitja að gátt birtingar og ákvörðunar um hvaða mál voru sett á dagskrá.

Mótmæli almennings, hvort sem það eru verkföll, mótmælagöngur, mótmælafundir fyrir framan Alþingishúsið eða Ráðhúsið, eiga jafnmikinn rétt á sér og fundir kjörinna fulltrúa. Séu gerð hróp og köll að kjörnum fulltrúum þegar þeir standa að vafasömum gjörning, þá eiga kjörnir fulltrúar að staldra við. Mótmæli almennings við valdgræðgi og ráðstöfun á opinberra fjármuna án samþykktra heimilda eru ekki skrílslæti.

Það er svo spurning hvort það sé almenningur eða hinir kjörnu fulltrúar sem séu hin raunverulegi skríll og hafi í frammi skrílslæti. Eins og málin hafa þróast undanfarinn misseri þá virðist það hlutskipti liggja hjá hinum kjörnu fulltrúum og ekki síst fulltrúum stærsta flokksins, og það séu þeir sem standi að mestu skrílslátunum og þeim langdýrustu. Fjármögnuð með sjálftöku úr opinberum sjóðum í eigu almennings.

Sagan segir okkur að ætíð hafi almenningur haft rétt fyrir sér, ekki hinir kjörnu fulltrúar.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sammála

Nafnlaus sagði...

Það væri því miður vægt til orða tekið að tala um skrílmennsku þegar eftirlaunalögum þeirra Steingríms J. Sigfússonar, Guðjóns A. Kristjánssonar, Össurar Skarphéðinssonar og Halldórs & Davíðs var mismunað gegnum þingið.

Tugmiljóna sjálftaka með samstilltu og leynilegu samsæri framkvæmdavalds og löggjafarvalds er eitthvað miklu verra en skrílmennska.

Og hvað er formaður Samfylkingarinnar að hugsa, sem setti þetta mál á oddinn fyrir kosningar? Eru sjálftökulögin orðin bærileg núna, eftir að hún persónulega hefur af þeim fjárhagslegan ávinning? Varla þarf að bíða vegna Geirs H. Haarde, sem einnig hefur lýst því yfir að afnema beri ólögin.

Guðmundur sagði...

Það er ekki tugmilljóna sjálftaka, það er 600 millj. kr. sjálftaka.

Davíð hélt því reyndar fram að það væri bara 6 millj. kr. Pétur Blöndal sagði að ríkissjóður sparaði sé aur á þessu í vörnum sínum.

En það er rétt að það var ekki bara Davíð sem stóð að þessu eins flestir héldu til að byrja með. M.a. núv. forsætisráðh. hefur sagt að Össur sé arkitektin.

Fálæti allra þingmanna við mótmælum almennings segir okkur alla söguna

Nafnlaus sagði...

Rétt er það Guðmundur, en Rómverji kaus að tala um tugmiljónir með hliðsjón af persónulegum ávinningi þeirra frumvarpsmanna.

Davíð Oddson sagði í sjónvarpsfréttum 11. desember 2003 (um eftirlaunafrumvarpið):

“Ja mér finnst það ágætt ef að það er svo að mönnum þykja þessar breytingar, sem munu kosta ríkissjóð væntanlega á næsta ári um 6 milljónir króna, ef að þær breytingar eru slíkar að það eigi að hafa áhrif á allar kjarakröfur í landinu, þá finnst mér gott að málið komi fyrir áður en það er farið í kjarasamninga heldur en málið komi fyrir eftir að öllum kjarasamningum er lokið.”

Úr fréttum 15. október 2005 er síðan þetta:

“Aukinn kostnaður ríkisins vegna eftirlaunafrumvarpsins, sem tekur til alþingismanna, var um 650 milljónir króna árið 2004, samkvæmt fjársýslu ríkisins.”

Nafnlaus sagði...

Enn um eftirlaunafrumvarpið:

Gunnar Birgisson sagði í mbl. 12. maí sl.:

"Upphaf þess að frumvarpið var samið er þetta: Fulltrúar stjórnarandstöðunnar, Guðjón A. Kristjánsson, Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson komu til forsætisráðherra og hreyfðu þessu máli fyrstir manna."

Ekki trúir maður öllu sem Gunnar segir, en enginn nefndra manna hefur mótmælt þessu. Þeir keppast við að þegja, nema helst Guðjón Arnar.

Flokkar þessara manna bera höfuðábyrgð á að afnema ólögin, ganga til liðs við réttsýnt fólk á Alþingi.