miðvikudagur, 9. janúar 2008

Stefnuleysi stjórnmálamanna og flugvöllurinn

Það er of oft sem við skattgreiðendur verðum að borga brúsann fyrir ístöðuleysi/stefnuleysi stjórnmálamanna. Það er komin tími til og það reyndar fyrir löngu að borgaryfirvöld taki ákveðna stefnu í uppbyggingu miðbæjarins. Hvað hún ætli að gera og standi þá við hana, sama úr hvaða flokk menn koma.

Á undanförnum árum höfum við mátt horfa upp á ákvarðanir sem hafa verið teknar en svo breytt ef einhver hópur mótmælir. Hvað er t.d. búið að breyta Austurstrætinu oft. Nú erum við að tapa 700 millj. kr. á ístöðuleysi friðurnarnefndar og borgarstjórnarmanna vegna niðurníddra og ónýtra húsgarma. Þessar 700 millj kr. væru mikið betur settar í að lækka Morgunblaðshöllina um 3 hæðir, setja nýtt þak á húsið og aðra framhlið. Þá væri kominn endanleg og heildstæð mynd á Grjótaþorpið.

Í þessu sambandi má einnig benda á flugvöllinn. Það er kominn tími til og það fyrir löngu, að tekin sé ákvörðum um hvað menn ætli að gera. Áberandi hafa verið sjónarmið þröngs hóps fólks sem býr á 101 svæðinu. En sá hópur sem býr út á landi ásamt fólki sem býr hér á höfðuborgarsvæðinu og þarf að fara reglulega út um allt land vegna vinnu sinnar, líður fyrir stefnuleysi og ódug stjórnmálamanna að taka ákvörðun.

Áberandi stór hluti þess fólk sem stjórnar spjallþáttum býr á 101 svæðinu. Sama gildir um nánast alla borgarstjórnarmenn. Þetta fólk talar í sífellu niður til úthverfanna og landsbyggðarinnar. Úthverfin er eitthvað sem er upp til heiða og 101 fólkið virðist halda að fólk búi þar gegn vilja sínum. Grafarvorgurinn er t.d. mun lægri miðað við sjávarlínu en t.d. Skólavörðuholtið, sama gildir um Mosfellsbæinn. Það er einfaldlega mikill fjöldi fólks sem ekki vill búa á 101 svæðinu. Úthverfin bjóða upp á margt sem miðbærinn getur aldrei boðið upp á. En munurinn er sá að úthverfafólkið talar aldrei niður til 101 fólksins og kemst sjadnast að með sjónarmið sín. Hinn þegjandi meirihluti.

Ef flugvöllur yrði fluttur til Keflavíkur þá lengist ferðatími með innanlandsflugi til allra staða á landinu um 3 klst. þá er miðað við fram og tilbaka og venjubundinn biðtíma í flugstöðvum. Það tekur 3 klst. að aka langleiðina til Akureyrar, auk þess getur að viðkomandi lagt af stað þegar honum hentar og tilbaka á sömu forsendum. Flugtíma er oft breytt með litlum fyrirvara og ef viðkomandi er kominn til Keflavíkur þá situr hann þar án þess að tími nýtist.

Það er samdóma álit þeirra sem nýta innanlandsflugið að flutningur þess til Keflavíkur sé sama og taka ákvörðun um að leggja það niður nema þá til Egilsstaða og Ísafjarðar. Flugvöllur í nágrenni við Landspítala er mikið öruggisatriði fyrir þá sem búa utan Reykjavíkur og ekki síður þá sem vinna utan Reykjavíkur. Þessi ákvörðun myndi hafa mjög afdrifaríkar neikvæðar afleiðingar gagnvart ungu fólk sem hugsanlega vildi vildi flytja út á land.

Fjölskylda með 2 börn og vill ferðast til Reykjavíkur til þess að sækja einhverja þjónustu eða heimsækja vini og skyldmenni þarf í dag að greiða um 80 þús. kr. í fargjöld. Þetta skiptir þar af leiðandi geysilega miklu máli ef það á að heppnast að jafna byggð í landinu að innanlandsflug sé á Reykajvíkursvæðinu. Það er afstaða þessa fólks að flugvöllurinn eigi að vera þar sem hann er.

Samkeppnisaðili Flugfélagsins hefur boðað 40% lækkun fargjalda sem væri geysilega mikil aðstöðubót fyrir ofangreint fólk. Grundvöllur þess er að félagið fái aðstöðu á flugvellinum. Á þessum forsendum er það sé óafsakanlegt að stjórnvöld séu ekki fyrir löngu búinn að byggja öfluga samgöngumiðstöð við Reykjavíkurflugvöll.

Engin ummæli: