þriðjudagur, 1. janúar 2008

Myndun ríkisstjórnarinnar

Það er ekki hægt að segja annað en að ummæli forsætisráðherra nú um áramótin hafa verið drengileg og varpað skýrara ljósi á myndun núverandi ríksstjórnar. Geir hefur verið gagnrýndur af ýmsum m.a. Morgunblaðinu, fyrir myndun þessarar stjórnar ekki síst fyrir að hafa með því bjargað pólitísku lífi Ingibjargar Sólrúnar og jafnvel átt að hafa komið í veg fyrir mikla niðursveiflu Samfylkingarinnar. Svo sem hvort tveggja ásteytingarsteinar byggðir fyrst og fremst af óskhyggju. Afstaða nokkurra innan Sjálfstæðisflokksins í garð Ingibjargar hefur verið byggð á barnalegu hatri og kostulegum klisjum, svo vægt sé til orða tekið, frá þeim tíma er hún náði Reykjavíkurborg á sínum tíma.

En Geir svarar þessu drengilega að mínu mati í áramótaávarpi sínu, um að það sé ekki meginhlutverk sitt sem forystumanns í stjórnmálum, að koma öðrum stjórnmálaforingjum fyrir pólitískt kattarnef. Flokkar takist á um stefnur, en illvíg persónuleg átök milli einstakra manna tilheyri liðinni tíð. Það geti ekki verið markmið að halda tilteknum einstaklingum frá völdum hvað sem það kostar, á meðan þeir hlíta almennum leikreglum stjórnmálanna, heldur hitt að tryggja landinu trausta og öfluga ríkisstjórn. Ríkisstjórn sem tekur í öllum höfuðatriðum mið af stefnumálum Sjálfstæðisflokksins.

Þorgerður sagði um helgina að aðkoma Vinstri grænna að þingskaparfrumvarpinu sýndi að þau væru ekki stjórntæk og Geir tekur í sama taum í áramótagrein sinni með því að segja að stjórn VG og Sjálfstæðisflokksins hefði orðið kyrrstöðustjórn og málefnalega dýru verði keypt. Þetta eru svo sem skýr skilaboð til tiltekins hóps innan flokksins og ekki síður Moggans.

Þetta eru mun hreinskiptari og drengilegri samskipti en maður hefur átt að venjast. Þau eru til þess fallin að auka traust almennings á stjórnmálamönnum, enda sannarlega ekki þörf á sé t.d vísað til könnunar Gallup. Þar kemur fram að traust til allra stofnana hefur dalað, í mismiklum mæli, frá því í febrúar 2006. Alþingi nýtur minnst trausts en einungis 29% svarenda sögðust bera traust til þingsins, sem er lækkun um 14 prósentustig frá síðasta ári og hefur aldrei verið eins lítið síðan mælingar hófust í ágúst '93.

En hin hliðin er síðan sú að skipan dómara nýverið var svo sem ekki til þess fallinn að auka traust fólks á stjórnmálamönnum.

Engin ummæli: