fimmtudagur, 3. janúar 2008

Ísland er tengt Evrópu

Ég verð alltaf jafnundrandi þegar stjórnmálamenn sem vilja láta taka sig þokkalega alvarlega taka þannig til orða að þeir vilji ekki ganga í Evrópusambandið, sakir þess að þá séu þeir að afsala sér með því fullveldi og fá yfir sig allt það reglugerðarfargan sem því fylgir. Hafa Svíþjóð, Danmörk eða Finnland virkilega afsalað sér fullveldi?

Nokkrir stjórnmálamenn gripu enn einu sinni til þessara ummæla nú um áramótin. Reglulega kemur fram í umræðum um þessi efni þegar þátttakendur eru einstaklingar sem hafa þekkingu á þessu sviði, eins og t.d. prófessorar og lektorar háskólanna, að við erum hluti af ESB og viðskipti Íslands við EES-ríki (ESB og EFTA) eru um 70% af öllum utanríkisviðskiptum Íslands og liðlega helmingur þeirra fer fram í evru og hlutfall evrunnar fer vaxandi í heildarviðskiptum okkar. Viðskipti okkar við Bandaríkin eru um 10% og fara minnkandi.

Ísland yfirtekur sjálfvirkt um 80% af reglum ESB. Viðskiptalíf Íslands fylgir þar af leiðandi ákvörðunum ESB. ESB er langstærsta viðskiptaveldi heims, með hartnær tvöfalt meiri utanríkisviðskipti en Bandaríkin. Við aðild að ESB fengju íslensk fyrirtæki sömu kjör og samkeppnisaðilar í ESB. Ísland er hálfgildings ESB ríki en á ekki aðild að ákvarðanatökuferlinu.

Sem betur fer tókst einangrunarsinnum ekki að koma í veg fyrir samþykkt EES-samningsins fyrir rúmum áratug. Sú samþykkt á stærstan þátt í þeirri velmegun sem við búum við í dag samfara því að aðilum vinnumarkaðs tókst að koma á Þjóðarsátt árið 1990 og fá stjórnvöld til þess að taka þátt í henni.

Það sama á við í núverandi stöðu okkar. Staða íslensku krónunnar veldur efnahagslífinu miklu tjóni og kemur í veg fyrir áframhaldandi jákvæða þróun atvinnumála hér á landi. Hagfræðingar hafa sýnt fram á að matvælaverð myndi lækka hér á landi við inngöngu í ESB og raunveruleg samkeppni á sviði bankamála mun leiða til lækkandi vaxta og matvælaverðs myndi þýða mikla kjarabót fyrir almenning hér á landi.

Engin ummæli: