miðvikudagur, 30. janúar 2008

Standa verkalýðsfélögin í vegi fyrir launahækkunum?

Á ferð minni um bloggheima rakst ég á vangaveltur eins frjálshyggjumanns um að nú stæðu verkalýðsfélögin enn einu sinni í vegi fyrir að samningar næðust og fólk fengi sínar launahækkanir. Það er einkennilegt hvernig sumu fólki tekst sífellt að snúa hlutunum á haus.

Verkalýðsfélögin settu fram í byrjun desember kröfur um hvað þau vildu semja, en Samtök atvinnulífsins hafa ekki fengist til þess að ræða þessar kröfur. Ef verkalýðsfélögin samþykktu það sem þeim stendur til boða þá fengju mjög stórir hópar engar launahækknair, ekki eina kr. Það er aftur á móti helst að skilja á frjálshyggjumönnum að fyrirtækin bíði í ofvæni eftir því að fá heimild verkalýðsfélaganna til þess að að hækka launin. Sú töf sé að þeirra mati ástæðulaus, starfsmenn eigi að fá að taka á móti þessum launahækkunum án afskipta og tilgangslausra tafa verkalýðsfélaganna.

Oft er ekki hægt að skilja framsetningu frjálshyggjumanna öðruvísi en svo að verkalýðsfélögin semji við sjálf sig um launahækkanir, og það sé þeim að kenna að hafa ekki samið við sjálf sig um nægilegar rausnarlegar launahækkanir. Við vitum öll að frjálshyggjumennirnir og sumir stjórnmálamenn munu strax eftir kjarasamninga skammast út í verkalýðfélögin að þau hafi ekki samið um nægilega miklar launahækkanir.

Flest vitum við að sum fyrirtækjanna hækka laun starfsmanna án afskipta verkalýðsfélaganna og oft meir en umsamdar lágmarkslaunahækkanir. Sum fyrirtækjanna hafa þegar frá áramótum hækkað laun sinna starfsmanna um 3-5%, en það á bara við sum fyrirtækjanna og eins suma starfsmenn.

Í þessu sambandi má t.d. benda á ófarir markaðslaunasamninga hjá þeim lægst launuðu. Eitt af stærri verkalýðsfélögum gerði tilraun fyrir nokkrum árum um að setja þetta alfarið í hendur vinnustaðanna með launaviðtölum. Eftir 3ja ára samningstímabil kom að endurnýjum kjarasamninganna og þá kom í ljós að nær allir félagsmennirnir, sem voru á lægstu töxtum höfðu ekki fengið eina kr. í launahækkun allt samningstímabilið og semja varð um sérstaka afturvirka aukahækkun fyrir þann hóp. Og aftur taka upp sérstök gólf og lágmarkslaunahækkanir á hverju ári.

Við höfum einnig séð spretta upp fyrirtæki á undanförnum árum sem ráða hingað fagfólk og greiða því byrjunartaxta unglinga. Þetta fólk fær sumt hvert enga veikindadaga, ekkert orlof og er ekki tryggt. Önnur íslensk fyrirtæki bentu Samtökum atvinnulífsins ásamt verkalýðsfélögunum á að ef hér ætti að ríkja eðlileg samkeppni þá yrðu sömu leikreglur að gilda fyrir alla.

Í þessu samhengi má einnig benda á vinnureglur opinberra fyrirtækja að hafa ætíð almenna starfsmenn á lægstu töxtum. Það á reyndar ekki við um embættismenn og stjórnendur, þeir taka launabreytingum í samræmi við það sem gengur og gerist á almennum vinnumarkaði.

Fyrirtækin ásamt launamönnum komu saman í byrjun síðustu aldar og settu ákveðnar leikreglur sem eru skrifaðar í kjarasamninga. Þar er fyrirtækjum gert að greiða ákveðin lágmarksfjölda veikindadaga, sama gildir um orlof mörg önnur atriði. Einnig eru starfsmönnum sett margskonar skilyrði eins og að þeir verði að mæta í vinnu á umsömdum tíma, umfang neysluhléa, veikinda, orlofs og mörg önnur atriði.

Hvers vegna voru þessara leikreglur settar? Jú það var vegna þess að það voru stanzlausar skærur á báða bóga, fyrirvaralaus verkföll og fleira. Hlutverk stéttarfélaganna er að sjá um að farið sé eftir þessum leikreglum og fylgja friðarskyldu.

Þessi slagsmál standa ekki einvörðungu við þau fyrirtæki sem sniðganga lágmörk samninga, oft þarf að koma launamönum í skilning um að ekki sé innistæða fyrir kröfum þeirra.

Engin ummæli: