miðvikudagur, 9. janúar 2008

Leikreglur kjarasamninga

Oft er tekið þannig til orða að það sé við verkalýðshreyfinguna að sakast að laun að séu lág. Þetta orðatiltæki er sérstaklega tamt tilteknum stjórnmálamönnum. Þeir hinir sömu veitast einnig oft að verkalýðshreyfingunni þegar fjallað er um bætur í almannatryggingakerfinu.

Hlutunum er nú einhverja hluta þannig fyrirkomið að verkalýðshreyfingin semur ekki við sjálfa sig. Hún semur við samtök atvinnurekenda eða við einstök fyrirtæki. Ég hef aldrei upplifað það að samningamenn verkalýðshreyfingarinnar standi í samningaherbergjum og segi; “Nei nú er nóg komið af launahækkunum. Alls ekki hærri launatilboð takk fyrir.” Ég hef aftur á móti upplifað það við gerð hvers einasta kjarasamnings að samningamenn launamanna rífi hár sitt og skegg og skelli hurðum sakir þess að þeir ná ekki fram þeim launahækkunum sem þeir sækjast eftir.

Samkvæmt landslögum þá er það stjórnarþingmenn á Alþingi sem ákveða bætur í almenna tryggingarkerfinu, ekki verkalýðshreyfingin. Verkalýðshreyfingin hefur æði oft lagt til að persónuafsláttur sé hækkaður, eða skattar lækkaðir á lægstu laun, matarskattur lækkaður, eignastuðull í vaxtabótakerfinu hækkaður, skerðingarmörk í barnabótakerfinu hækkuð, frítekjumörk ellilífeyrisþega og öryrkja hækkuð og þannig mætti lengi telja. Langoftast með daufum undirtektum stjórnarþingmanna og stundum hafa þeir reyndar gengið í öfuga átt, sérstaklega á síðustu árum.

Þessa dagana erum við einmitt að upplifa það að stjórnarþingmenn eru að hafna tillögum launamanna/kjósenda um lagfæringar á kjörum hinna lægst launuðu. Það er ekki langt síðan þeir hinir sömu stjórnarþingmenn töluðu um að lægstu laun væru alltof lág. Verkalýðshreyfingin gaf stjórnvöldum tækifæri til þess að taka þátt í Þjóðarsátt til þess að lagfæra þetta en þeir hafa nú hafnað því, en vilja frekar viðhalda uppteknum hætti að lækka skatta ennfrekar á þeim sem hafa mest til hnífs og skeiðar.

Stjórnarþingmenn settu á sínum tíma undir forystu hins merka húnverska bónda Páls Péturssonar þáv. Félagsmálaráðherra lög um gerð kjarasamninga, svonefnd Pálslög. Þar segir að þegar samningamenn í Karphúsinu telja að ekki verði lengra komist, þá verða þeir samkvæmt lögunum að bera samningsdrögin undir viðkomandi félagsmenn. Það eru svo félagsmennirnir sem taka ákvörðun um hvort samningsdrögin séu að þeirra mati ásættanleg, ekki samninganefndin.

Ef félagsmenn samþykkja samningin þá er málið dautt, eins og menn segja í dag. Samninganefndarmenn geta ekki meir og stéttarfélögin eru bundin friðarskildu til næstu samninga.

Ef félagsmenn aftur á móti fella samningsdrögin þá fyrst geta samninganefndarmenn leitað eftir verkfallsheimildum eða öðru til að þrýsta á um að ná lengra.

Einnig eru í þessum lögum margskonar ákvæði sem setja kosningum margskonar skorður.

Alltof oft tala íslenskir stjórnmálamenn eins og þeir viti ekki hvaða lög hafa verið sett á Alþingi í lýðveldinu Ísland.

Nýlega setti dómnefnd mönnuð einvala úrvalsmönnum eftir farandi fram um störf núverandi stjórnvalds : Ráðherra fór langt út fyrir slík mörk og tók ómálefnalega ákvörðun. Ráðherra gekk í berhögg við yfirlýst markmið um að styrkja sjálfstæði dómstólanna og auka traust almennings á því að dómarar séu óháðir handhöfum framkvæmdarvaldsins og viðhafði óvanda stjórnsýslu.

Greinarhöfundi finnst þessi dómur um stjórnvaldið athyglisverður.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hefur Indriði ekki lög að mæla?:

http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?radnr=1184299

Nafnlaus sagði...

Við erum greinilega mjög samstiga í launa- og kjaramálum enda gamlir refir hjá Sátta. (sjá blogg mitt www.gislibal.blog.is) Hef verulegar áhyggjur af því ferli sem framundan er. Þó Indriði bendi á gallana þá er það nú þannig að galla má laga. Við búum á tölvuöld. Gísli Baldvinsson

Guðmundur sagði...

Það væri ágætt að Indriði temdi sér vandaðri vinnubrögð og kynnti sér betur bakgrunn þess sem hann fjallar um.