Samgönguráðherra brást harkalega við þegar Fréttablaðið setti á forsíðu, að ráðherra væri búinn að setja jarðgöng í sinni heimabyggð fram fyrir Sundagöngin. Þjóðina setti hljóða og brást svo harkalega við. Sundagöng eru ekki einkavegur Reykvíkinga, þetta er hluti þjóðvegar 1. Þjóðin kemst ekki leiðar sinnar nema að aka í gegnum Reykjavík og býr við í dag að þurfa oft á tíðum að bíða í allt að 3 klst. í allt að 70 km. löngum biðröðum. Samgönguráðherra sagði að þetta væri skáldskapur Fréttablaðsins.
Maður veit stundum ekki hverju maður á að trúa í fréttum og á ferðum um bloggheima kemst maður ekki hjá því að verða reyndar stundum undrandi á því efni sem verið er að birta og ekki síður viðhorfum sumra. Þá á ég sérstaklega við slúðurdálka“fréttirnar“. En það er eins og sumir vilji trúa hinu versta upp á aðra og geti ekki fjallað um efni án þess að snúa sér að persónunni með skítkasti og gera viðkomandi upp hið versta.
Vitanlega hafa menn misjafna sýn á stefnur og ákvarðanir í stjórnmálum eða þjóðfélagslegum efnum og rökræða þau mál með réttu. Í bloggheimum hafa menn meira frelsi til þess að koma skoðunum sínum á framfæri. Þurfa ekki að una því að bíða marga daga eftir því hvort efni þeirra birtist í prentmiðlunum og þá stundum að löngu liðinni umræðunni. Um það efni fjalla menn án þess að vera að skipta sér af viðkomandi persónu eða einkalífi hennar.
Einhver hrekklausasta manneskja sem ég þekki er Björk. Hún fæddist með mikla hæfileika og hefur nýtt þá til þess að skapa sér atvinnu og gengið prýðilega. Reyndar látið allmarga íslenska tónlistamenn og hljóðmenn njóta velgengi sinnar og nýtt hvert einasta tækifæri til þess að kynna landið. Nú er vitanlega til fullt af fólki sem vill hlusta á aðra tónlist og hið besta mál, það er einfaldur hlutur að slökkva, skipta um stöð eða setja annan disk í spilarann.
Ég er klár á að Björk hefur aldrei drukkið Vodka hvorki blandað eða óblandað. Ég þori að fullyrða að þetta vita líka ráðandi menn á Moggablogginu. Það er t.d. frétt á Moggablogginu í morgun þar sem fram kemur að umsjónarmaður þess er einn af þeim sem hefur skrifað mest um Björk. Þeir sem koma nálægt þessu vita að Björk reynir gífurlega á rödd sína á tónleikum og verður að gæta mjög vel að því sem hún neytir til þess að halda henni hreinni. Eins og allavega hluti þjóðarinnar veit þá er Björk á 2ja ára tónleikaferðalagi, því fylgir algjör breyting á lifnaðarháttum á meðan á því stendur. Hvaða tilgangi þjónar það birta athugasemdalaust frétt um að Björk viðhafi sömu siði og afi hennar og amma að þamba einn lítra af Vodka á föstudagskvöldum.
Manni bregður ekki síður við að sjá viðbrögð Moggabloggara og umsagnir þeirra. Kannski ekki síst að ég hélt að allir vissu að Breska slúðurveitan er líklega sú alræmdasta í veröldinni. Hvers vegna þeir vilja draga Moggabloggið niður á það stig skil ég ekki. Kannski ekki síst sakir þess að Árni Matt er að veitast að dóttur minni og saklausum háöldruðum foreldrum.
1 ummæli:
Þau sem eru stór.Verða altaf einhverntíman fyrir áreitni lítilla sála.
Skrifa ummæli