þriðjudagur, 18. nóvember 2008

Afneitun arkitektsins

Það var greinilega athyglisverður fundur hjá Viðskiptaráði í morgun. Davíð endurtók það sem fram kom á almennum borgarafundi í gærkvöldi um að fjölmiðlar væru alls ekki að standa sig. Dáldið einkennilegt að heyra Davíð taka undir það að Mogginn sé að flytja fréttir sem henti eigendum, margir hafa haldið þessu fram í mörg ár. Hin æpandi þögn Moggans á vissum sviðum hefur það verið kallað.

Reyndar hefði Davíð átt að benda á hversu stóran þátt hann átti í að skapa þetta ástand með sínum smjörklípum og að mæta einn í drottningarviðtöl þar sem hann réði ferðinni. Á þetta hefur reyndar verið bent allnokkrum sinnum hér á þessari síðu og öðrum á Eyjunni. Fékk reyndar skammir frá Kastljósinu fyrir að vekja athygli á vinnubrögðunum.

Á sama fundi var Gylfi Zoega, deildarforseti hagfræðideildar Háskólans, en honum hryllti við að láta Davíð hafa þá aura sem verið að er að lána okkur. Tek undir það, reyndar eru allir óreiðumennirnir enn að störfum í bönkunum skipaðir þar til starfa af ríkisstjórn þessa lands. En afneitun ráðamanna er skelfileg og það að ráðherrar hafa varið 5 vikum í að reyna að telja þjóðinni í trú um að við höfum verið í einhverri samningsstöðu var einfaldlega óskhyggja, sem kostaði okkur hundruð milljóna í verðfalli eigna.

Það hefur legið fyrir lengi að okkur hafi ekki staðið til aðstoð af neinu tagi fyrr en ljóst væri að ráðherrar og Seðlabankastjórn létu af afneitun sinni. En Davíð er enn einu sinni að víkja sér undan ábyrgð á eigin gerðum. Hann er sannarlega arkitektinn að þessu ástandi ásamt þeirri hirð sem í kringum hann hefur verið.

Einhversstaðar stendur að í góðæri komist til valda óhæfir menn, froðusnakkar. Í efnahagslægð þurfum við fólk með þekkingu og getu.

Sumir héldu því fram að Kastljósviðtalið hefði verið skipulagt til þess eins að koma á úlfúð milli IMF og ríkisstjórnarinnar til þess eins að viðhalda óbreyttri stefnu. Nú er spurning hvort hinir erlendu bjarvættir kippi að sér hendinni og við verðum aftur sett á ís.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Magnað Guðmundur, að RÚV sendir beint út af þessum fundi (ræðu Davíðs) á Rás1...en mótmælin á Austurvelli eru sýnd daginn eftir.

Nafnlaus sagði...

Arkitekt er lögverndað starfsheiti. Vinsamlegast ekki bendla illmennum við þá starfsstétt. Þeir eiga það nógu erfitt fyrir.
LOL.