mánudagur, 10. nóvember 2008

Annarskonar þjóðfélag

Nú er svo komið landsmönnum er endanlega að þrjóta þolinmæðin gagnvart stjórnmálamönnum. Í hratt vaxandi mæli eru gerðar kröfur um að verkalýðshreyfingin geri eitthvað. Boði til stórs útifundar og allsherjarverkfalls. Núverandi ríkisstjórn verði að víkja og tekin verði upp ný efnhags- og peningastjórn. Seðlabankastjóri virðist hafa það eitt fyrir stafni að stofna til illinda milli ríkisstjórnarinnar og annarra.

Viðskiptaráðherra og forsætisráðherra gengu fram af þjóðinni nú um helgina með því að lýsa því yfir að þeir ætli að taka höndum saman við fulltrúa úr hinum stjórnmálaflokkunum til þess að framkvæma eigin naflaskoðun.

Ef minnst er á hvort ekki sé ástæða til þess að rjúfa þing og kjósa annað fólk til stjórnunarstarfa, svara þeir hinir sömu með því að segja í hrokafullri forundran; „Já en það eru engir betri en við.“ Þetta segja þeir hiklaust þó þeir séu búnir að keyra þjóðina í þrot og skipa aftur til starfa þá bankamenn sem settu alla bankana í þrot og gerðu helming landsmannna fátækari jafnvel gjaldþrota.

Viðskiptaráðherra og forsætisráðherra hafa haldið hvern blaðamannafundinn á fætur öðrum þar ekkert hefur komið fram, nema fjarstæðukennd loforð sem vekja óraunsæjar væntingar, sem þeir verða að leiðrétta nokkrum dögum síðar. Þeir forðast að horfast í augu við eigin gerðir og hafna því að breyta um stefnu. Já en við ætlum að byggja fleiri álver, svara þeir, en getum ekki gert það af því eiginfjárstaða Landsvirkjunar og Orkuveitunnar er kominn á neyðarplan.

Það segir okkur svo óendanlega margt, að þeir réðu sér styrjaldarfræðing sem fjölmiðlafræðing. Og hann mætir í fjölmiðla og reynir að telja almenning í trú um hversu rosalega flinkur hann sé. Og forsætisráðherra og viðskiptaráðherra koma fram og lofa hann.

En samt hrópar þjóðin á upplýsingar. Hún viti ekki hvað sé að gerast. „Já en hann opnaði pósthólf“ var svar fóstbræðranna viðskipta- og forsætisráðherra. „Ef fólk vill vita eitthvað getur það svo sem sent spurningar þangað.“

Sama er upp á teningunum þegar maður er erlendis. Stólpagrín er gert af íslenskum ráðherrum og Seðlabankanum. Dettur íslenskum ráðherrum og bankamönnum í hug að við ætlum að moka meiri fjármunum í þessa hít, kom fram í fréttum frá Svíþjóð í dag.

Hvað hafði ég eftir þeim í gær og líka fyrr í síðustu viku, „Íslendingar verða að byrja á því að taka til í eigin ranni og skipa nýtt fólk. Þið eruð rúin trausti um alla veröld og öðlist það ekki aftur fyrr en þíð erum búin að losa ykkur við þá sem stjórnað hafa landinu.“

Aðilar atvinnulífs eru búnir leggja ítrekað fram tillögur um úrbætur auk þess að kalla eftir samráði. Ráðherrar svara engu, neita að ræða við fulltrúa launamanna og fyrirtækja. Þetta hefur komið ítrekað fram í fjölmiðlum, en þeir gera ekkert með það. Og almenningur kallar eftir svörum og upplýsingum.

Já talandi um fjölmiðlana. Af hverju ganga þeir ekki skrokk á ráðherrunum? Hvers vegna er alltaf tekið með silkihönskum á þeim? Hvers vegna því tryggilega haldið til haga á sjónvarpstöðvunum að forsætisráðherra segi að landsmenn sé skríll, en lítið sem ekkert birt af því sem fram kemur á friðsömum hópfundum almennings?

Með leyfi má ekki lyfta þessu á hærra plan og biðja um annarskonar þjóðfélag takk fyrir. Já um leið betri og ábyrgari fjölmiðla, sem taka hagsmuni almennings fram yfir auðjöfra og ríkjandi stjórnvöld.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Guðmundur.
Verkalýðshreyfingin þarf að ganga til liðs við almenning og koma vitinu fyrir stjórnmálamenn. Firring sumra þeirra jaðrar við geðveiki.

Á borgarafundinum í Iðnó sagði varaformaður Framsóknarflokksins að færa ætti eftirlaunaréttindi þingmanna og ráðherra aftur til þess sem var árið 2003. Valgerður Sverrisdóttir hefur ekki enn komið því inn í höfuðið á sér að krafan um afnám eftirlaunaóþverrans felur í sér að hún og klúbbfélagar hennar við Austurvöll búi við sömu lífeyrisréttindi og aðrir opinberir starfsmenn. Hvað heldur manneskjan að hún sé? Fúskarinn sem einkavinavæddi fjármálastofnanir landsmanna í hendur fjárglæframönnum. Flokksgæludýrum.

Stór hluti þingmanna kýs því miður að misskilja kröfuna um afnám eftirlaunaóþverrans. Verkalýðshreyfingin þarf að leggjast á árar með almenningi og slíta forréttindin út úr skoltinum á þeim.

Rómverji

Nafnlaus sagði...

Frábær pistill Guðmundur, ég segi bara heyr,heyr!
Verkalýðshreyfingin þarf að vera sýnilegri...oft var þörf, en nú er nauðsyn.
Sigrún Jónsdóttir

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur,

Hvers vegna berast engar fréttir af aðgerðum eða samráði leiðtoga verkalýðsfélaganna?

Hvers vegna skrifa þeir ekki færri bloggfærslur og láta taka við sig færri fréttaviðtöl?

Hvers funda þeir í útlöndum en ekki á Íslandi með umbjóðendum sínum?

Hvers vegna gera þeir ekkert?

Ætli t.d. Gvendur Jaki heitinn væri bloggandi þessa dagana eða væri hann úti á meðal fólksins að krefjast aðgerða?

Arnar

Nafnlaus sagði...

Já góður pistill Guðmundur, en getur þú frætt okkur um hvað veldur doða og aðgerðaleysi verkalýðshreyfingarinnar? Hvað eiginlega er í gangi hjá
ASÍ? kv. Fríða

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir góðan pistil,

það hreinlega kraumar í fólkinu reiðin og það verða að fara að koma einhver svör frá ráðamönnum. Það er nánast að maður gapi yfir aumingjahætti fréttamanna sem leyfa ráðherrum, þingmönnum og viskiptajöfrum að komast upp með að svara engu, eða í besta falli, útí hött. Fréttamaður spyr að einhverju og svarandinn setur bullmaskínuna í gang og kemst upp með það.

Svo virðist sem enginn ætli að segja af sér. Í fréttum Rúv í gær kom fram að Jónas hjá FME ætli ekki að segja af sér þar sem hann telji að hann hafi lagt sig allan fram í því starfi sem hann sinnir. Hvað ef það er ekki nóg? Það er allt komið í rassgat meðal annars útaf getuleysi FME. Það er ekki nóg að keyra rosa vel, þú verður að vita hvert þú átt að keyra til þess að dæmið gangi upp.

Mér finnst að verkalýðshreyfingin eigi að koma miklu sterkari inn í umræðuna og bera hag okkar vinnandi fólks fyrir brjósti sér. VR er reyndar of upptekið í sínu hlutabréfabraski til að sinna sínum félagsmönnum en vonandi hafa aðir foringjar tíma og kjark til að stíga fram og heimta svör, aðgerðir og ábyrgð þeirra sem eru nánast búnir að ganga af okkur dauðum. Það er alltaf verið að kjagast á því að við eigum að bíða róleg og vera ekki á nornaveiðum, aðeins til að svikurunum gefist ráðrúm til að koma sér betur fyrir og passa að ekkert komist upp. Hvaða rugl er það að nánast allir millistjórnendur og framkvæmdastjórar bankanna haldi sínum stöðum? Þetta er tilvalið tækifæri fyrir þá að hreiðra betur um sig, þeir gátu rekið þá sem voru þeim ekki hliðhollir og dregið aðra nær sér.

Mætum í mótmælin

kv. Kron

Nafnlaus sagði...

Já góður pistill Guðmundur, en getur þú frætt okkur um hvað veldur doða og aðgerðaleysi verkalýðshreyfingarinnar? Hvað eiginlega er í gangi hjá
ASÍ? kv. Fríða

Nafnlaus sagði...

Forseti ASÍ vill ekki kosningar
Forseti ASÍ vill ekki útifund
Forseti ASÍ vill áfram sömu ríkisstjórn
Forseti ASÍ vill halda verðtryggingunni
Forseti ASÍ ......

Nafnlaus sagði...

já, hvar eru samtök launamanna og forystumenn þeirra? Af hverju hafa þeir ekki komið fram fyrr? Einn þeirra tók nú þátt í svínarínu og situr enn. Guðmundur, virkjaðu nú félaga þína sem eru í forystu hjá öðrum stéttarfélögum.
Ég er tilbúin í nýtt og betra ísland. Burt með spillingarliðið.

Nafnlaus sagði...

Guðmundur ætlarðu ekki að svara þessu?
Hvar er verkalýðshreyfingin?

Forseti ASÍ vill ekki kosningar
Forseti ASÍ vill ekki útifund
Forseti ASÍ vill áfram sömu ríkisstjórn
Forseti ASÍ vill halda verðtryggingunni
Forseti ASÍ ......lýsir yfir stuðningi við Gunnar Pál.

Þetta er ljóti skrípaleikurinn!