mánudagur, 24. nóvember 2008

Til varnar fullveldinu

Það er ánægjulegt hvernig íslenskum almenning er að takast að draga stjórn umræðunnar úr höndum stjórnmálamanna. Það er ekki langt síðan stjórnmálamenn ásamt fjölmiðlum hæddust að mótmælum almennings. En undanfarnar vikur hafa fjölmiðlar tekið við sér og eru farnir að snúa sér að íslenskum almenning fremur en forrituðum viðtölum ráðherra. Í þessu sambandi má benda hvernig ráðherrar hæddust með góðri aðstoð fjölmiðlamanna að fólki sem stóð fyrir mótmælum. Völdu gjarnan almenning hiklaust orð eins skríll og skrílslæti.

Áður voru skorður á því sem náði í gegn í fréttum og fékk birtingu fjölmiðla. Nú eru beinar útsendingar frá mótmælum. Frummælendum jafnvel hrósað. Á örfáu vikum er kominn mikil gróska í umræðuna. Þolinmæði landsmanna gagnvart stjórnmálamönnum er þrotin. Sama gildir gagnvart spyrjendum í fréttaþáttum. Þess er krafist að þeir gangi vasklega fram og spyrji aftur fái þeir ekki svör. Þetta hefur leitt til þess að ráðherrar víkja sér í vaxandi mæli undan að mæta í þessa þætti og nú líður ekki sá dagur að tekið sé fram í fréttum eða fréttatengdum þáttum að einn eða fleiri ráðherrar treysti sér ekki til þess að horfast í augu við íslenska alþýðu.

Íslenskir ráðherrar eru hafa á undanförnum árum einangrast frá íslenskum almenning og reyndar frá Alþingi. Búa í sinni veröld einangraðri af handvöldum embættismönnum, með sín sérkjör og eftirlaun. Það segir íslenskum almenning svo margt að ráðherrar ráði erlendan stríðshana til þess að koma á framfæri þeim upplýsingum, sem hæfa íslenskri þjóð að þeirra mati.

Stjórnvöld hafa með hátterni sínu undanfarin ár rofið það aðhald sem þjóðin á að geta búið þeim. Íslenskir stjórnmálamenn hafa í vaxandi mæli komist upp með að vera til viðtals vikuna fyrir kjördag, sem svo er sambandið rofið í fjögur ár. Nú þegar lokinu hefur verið svipt af Alþingi blasir við ormagryfja sjálftöku, sukki og spillingu. Þjóðin er að rísa upp til varnar fullveldinu og það stefnir hraðbyri í flauelsbyltingu ef fer sem horfir.

Í kjölfar hruns bankakerfisins hafa stjórnmálamenn aftur tekið upp pólitíska misnotkun á bönkunum. Ríkisstjórnin víkur frá almennum reglum réttarríkisins eins og hún hefur gert á undanförnum mánuði við gjaldþrot bankanna.

Stjórnarþingmenn halda því að almenning að orsök hruns bankakerfisins sé að leita í óviðráðanlegum ytri aðstæðum. Hvítþvotturinn er ástundaður. En á hverjum degi birtast okkur ítarlegri upplýsingar sem afhjúpa þá gríðarlegu spillingu sem ríkt hefur á Íslandi. Fallið var heimatilbúið í skjóli getulausra stjórnmálamanna.

Í kjölfar samninga við ESB og opnun inn á innri markað ESB gerðu íslenskir ráðherrar engar varúðarráðstafanir. Ráðherrar núverandi ríkisstjórnar segjast hafa staðið vaktina. Öll vitum við hversu fálmkennd viðbrögð þeirra hafa verið á þessu ári og hversu fjarri þær voru því sem nauðsynlega þurfti. Hópur innlendra og erlendra hagfræðinga ásamt ráðherrum nágrannalanda okkar margendurtóku að krónan væri myllusteinn íslensks hagkerfis. En ráðherrar lögðu ekki í stjórn Seðlabankans.

Öll vitum við að í stjórn Seðlabankans eru samankomnir forpokuðustu Evrópuandstæðingar þessa lands. Frá lýðveldisstofnun hafa engir ráðherrar hafa valdið íslenskum almenning jafn miklum skaða og núverandi ráðherrar Íslands. 1. desember nálgast þann dag á að nýta til þess að minna valdahafana enn frekar að fullveldinu hefur verið hætt í þeirra höndum.

4 ummæli:

Unknown sagði...

Þetta mundi í raun gerast um leið og Ísland kæmist inní ERM II samstarfið hjá ESB. Þá mundum við fá verð í Íslenskum krónum og evrum, þar sem Íslenska krónan yrði í raun undirmynt evru, þangað til að við gætum skipt algerlega yfir í evru.

Þær breytingar sem þarf að gera á hagkerfinu munu sjálfkrafa leiða til minni verðbóglu hérna á landi, þannig að eina vandamálið hérna á landi yrði skuldastaða ríkissjóðs og viðskiptahallin fyrst um sinn.

Þannig að það er óþarfi að fara löngu leiðina.

Verðtryggingin mun hverfa um leið og Ísland er komið inní ESB, enda engin þörf á henni þegar landið kemst inní ESB og hagkerfið nær sæmilegum stöðugleika.

Nafnlaus sagði...

Þakka þér góðan pistil Guðmundur,
eins og endranær.
Þú veist að það er verið að skipuleggja Þjóðfund við Arnarhól 1.desember kl. 15., á 90 ára afmæli fullveldisins. Vonandi verður þar krafa um nýtt
lýðveldi,ásamt því augljósa:burt með klíkurnar; SÍ, FME og stjórn GHH og ISG... sjálfsagt fleira sem fjúka má saknaðarlaust. Kv. Fríða

Unknown sagði...

Hvað er að gerast í Virðingu?

Lífeyrisjóðurinn okkar rafiðnarmanna er stór eigandi af þessu kompaníi.

Nafnlaus sagði...

Íslenskir fjölmiðlar eru farnir að fá gagnrýni í erlendum fjölmiðlum. Þess vegna hafa þeir tekið við sér. Þeim líkar ekki spegilmynd sú sem blasir við þeim í erlendum fjölmiðlum. Ég held því miður ekki að þeim sé allt í einu orðið eitthvað svo umhugað um okkur almúgann. Þeir beygja sig og bukka fyrir valdinu nú sem fyrr. Því er nú verr og miður - og allt í nafni hlutleysislegrar umfjöllunar. Það eina merkilega sem hefur gerst í íslenskri fjölmiðlun undanfarnar vikur er skúbb DV þegar þeir náðu í samning Árna og Davíðs við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Og hvaða orð féllu um það - jú að þetta myndi eyðileggja fyrir okkur möguleikana á að ná samningi við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn!!