þriðjudagur, 11. nóvember 2008

Sérhyggjan

Við líðum fyrir það hvernig störf Alþingis hafa þróast. Ráðherrar hafa tekið sér alræðisvald. Nánast engin skil eru orðin á milli stefnumótunar og framkvæmdavaldsins. Ráðherrar líða það ekki að samþingmenn komi fram með annað en það sem er í takt við það sem þeir stefna að. Allir þingmenn eru óvirkir.

Ráðherrar hafa ekki liðið spurningar fjölmiðlamanna um annað en þann árangur sem þeir hafa náð. Ef fjölmiðlamenn spyrja um hvort það sé í samræmi við þá stefnumótun sem lagt var upp með og hvort upphaflegur árangur hafi náðst, svara ráðherra; Þetta er ómálefnaleg spurning eða jafnvel dónaleg.

Þeir eru báðum megin við borðið og leggja sjálfir með sínu aðstoðarfólki mat á eigin störf.Þingnefndir eru algjörlega óvirkar vegna þess vinnulags sem íslenskir ráðherrar hafa innleitt. Samskipti við aðila vinnumarkaðs og aðra hópa einkennast af tilskipunum frá ráðherrum og aðstoðamönnum þeirra.

Það er núna fyrst í mörg ár sem almenningur mótmælir á virkan hátt. Ráðherrar, fyrrv. og núverandi, hafa kallað þetta; „Lýðskrum eða Skrílslæti“ og vel uppaldir fjölmiðlamenn taka það upp eftir þeim og spyrja viðeigandi spurninga.

Ráðherrar hafa undanfarna tvo áratugi innleitt markaðshyggjuna í stað þeirrar jafnaðarhyggju og samkennd sem einkenndi íslenskt þjóðfélag. Ójöfnuður hefur aukist gríðarlega.

Hin íslenska sérhyggja einkennist af því að við viljum fá að njóta sérstakra kjara, fá að njóta hins besta sem samstarf þjóða hefur upp á bjóða, en án þess að þurfa að undirgangast reglur sem okkur finnast óþægilegar. Á þessu byggja þingmenn og ráðherrar sérhyggjunnar kröfu sína að taka einhliða upp Evru eða Norska krónu og finnst það bara eðlilegt.

Þetta gekk hér áður fyrr, en núna erum við búinn að vera fyrirferðamikil erlendis og nú segja þeir við okkur, Þið verðið að axla sömu ábyrgð og aðrir. Þetta skilja ekki íslenskir ráðherrar.

Þetta viðhorf er starfmönnum stéttarfélaganna ekki óþekkt. Þangað leitar fólk sem krefst aðgengis að sjúkrasjóðum eða orlofssjóðum án þess að hafa verið þátttakendur í að byggja þá upp eða vera félagsmenn. Hér má einnig benda á kröfur aðila, sem ekki eru sjóðsfélagar í lífeyrissjóðum, um að sjóðirnir séu nýttir til ýmissa atriða til hagsbóta fyrir aðra en sjóðsfélaga.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvers vegna hefur maður ekki heyrt stunu frá verkalýðsforingjum þessa lands um það mál sem snýr að formanni VR og hans gjörðum?

Í minni sveit er þögn sama og samþykki.

Ég er búinn að vera að bíða eftir að heyra þínar skoðanir á þessu máli VR hér á blogginu.

Þórður.

Unknown sagði...

Sæll Guðmundur,
ég tek undir með "Þórði" - hvernig stendur á því - mitt í öllum leðjuslagnum" að þú tekur upp hanskann fyrir GPP í VR? Er það rétt að þú sért sáttur við að hann sitji áfram.

Bjarni sveik að sönnu Valgerði, hann var reyndar held ég ekki kosin til að standa sérstakan vörð um hagsmuni hennar, en GPP sveik sína umbjóðendur.

Það er grátlegt að vita til þess, að jafn ágætur og skynsamur maður og þú, virðist a.m.k. vera af skrifum að dæma, samþykkir svona hegðan. Og átt þú þó að vera málsvari lítilmagnans

Guðmundur sagði...

Hvar í veröldinni hefur það komið fram að ég hafi einhverja skoðun á því hvað GPP sé að gera?

Ég kannast ekki við það.

Ég hef svarað einni spurningu vegna þessa og þar benti ég á að ég sé ekki félagsmaður í VR og hefði ekki með starfsreglur þeirra að gera.

Ég vísa til þess svars á heimasíðu RSÍ rafis.is