fimmtudagur, 27. nóvember 2008

Kattarþvottur eftirlaunaósómans

Eftirlaunaósóminn er ofarlega í huga launamanna. Fyrir landsmönnum blasir veruleg skerðing á almennum lífeyrissjóðum vegna falls bankanna á meðan lífeyrissjóður þingmanna og ráðherra er ríkistryggður. Þjóðin hefur lengi krafist þess að þingmenn og ráðherrar afnemi eftirlaunasérréttindi sín.

Á föstudag var lagt fram frumvarp í Alþingi sem er kattarþvottur á fyrra frumvarpi. Þingmenn og ráðherrar ætla sér ekki að draga úr ójöfnuðinum. Það er langt frá því að þeir ætli sér að sitja við sama borð og aðrir. Einhverra hluta vegna kjósa þeir að kattarþvotturinn eigi ekki að koma til framkvæmda fyrr en næsta sumar. Það blasir við að núverandi ráðherrar og þingmenn eru hræddir um að missa stóla sína í kosningum í vetur.

Í dag ávinna launamenn í almennum lífeyrissjóðum sér árlega lífeyrisrétt sem nemur frá 1.2% til 1,47%.

Fyrir sama iðgjald ávinna ákveðnir ríkisstarfsmenn sér lífeyrisrétt sem nemur um 1,9%. Það er 20% hærri réttindi en sjóðfélagar í almennu lífeyrissjóðanna afla sér.

Auk þess ber ríkið ábyrgð á þessum lífeyrissjóð eins og frægt er. Ef lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna, þingmanna og ráðherra eiga ekki fyrir skuldbindingum vegna slakrar ávöxtunar eða taps, þá er það sem upp á vantar greitt úr ríkissjóði. Almennum sjóðum er aftur á móti gert að skerða réttindi öryrkja og ellilífeyrisþega samkvæmt lögum sem Alþingi setti.

Á heimasíðum lífeyrissjóða eru lífeyrisreiknivélar. Það æpir á mann að svo er ekki fyrir þingmenn og ráðherra. Hvers vegna? Þegar maður talar við þingmenn um þessi mál og krefur þá svara þá kemur ætíð fljótt upp sú staða að þeir bera fyrir sig að þekkja ekki nægilega vel þessi flóknu lífeyrisréttindi og víkja sér undan því að svara. T.d. er algengt svar hjá hinum "gríðarlega talnaglögga" þingmanni Pétri Blöndal að þingmenn hafi skert réttindi sín!!

Nú liggur fyrir Alþingi tillaga ríkisstjórnar um að leiðrétta hin alræmdu Eftirlaunalög. Réttindastuðull þingmanna er í dag 3% og þeir ætla að lækka hann í 2,4% af launum. Þingmenn eru 29 ár að ávinna sér 70% eftirlaunarétt. Almennir launamenn eru 41 ár að ávinna sér 56%.

Réttindastuðull ráðherra þegar búið er að lækka ávinnslustuðul úr 6% í 4,8% af launum. Ráðherrar eru þar með 14,5 ár að ávinna sér 70% eftirlaunarétt og þurfa eftir það ekki að greiða af launum sínum í lífeyrissjóð svo fremi þeir greiði í lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Til samanburðar má geta þess að þá hafa sjóðfélagar almennnu sjóðanna unnið sér inn að meðaltali um 16% lífeyrisrétt eftir 14,5 ára greiðslu í sjóðinn.

Svo ótrúlegt sem það nú er þá gerir hæstvirt Alþingi ekki ráð fyrir að þingmenn og ráðherrar eigi launalíf fyrir þingsetu og fái auk þess ekki vinnu eftir þingstörf. Þess vegna sé nauðsynlegt að þeir nái 70% lífeyrisrétt á umtalsvert styttri tíma en aðrir þegnar þessa lands. Þetta voru rök sem þingmenn lögðu fyrir landsmenn!!

Þetta er vitanlega fáránlegt og gengur ekki lengur. Vitanlega eiga þingmenn að afnema öll sérréttindi sín og sitja við sama borð og aðrir launamenn.

Þessu til viðbótar má geta þess að ætíð þegar laun ráðherra og þingmanna eru hækkuð er miðað við prósentuhækkun lægstu launa, sem ætíð hefur verið töluvert hærri en meðalhækkun. Þeir úthlutðu sér t..d með fjögurra mánaða afturvirkni í september hækkun lægstu taxta. Þessa dagana eru þeri sem eru með 350 þús. kr. laun eða hærri að taka á sig 10% launalækkun. Samkvæmt síðustu upplýsingum stendur það líklega ekki til hjá ráðherrum og þingmönnum.

Svona er Ísland í dag.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já svona er Ísland í dag.

Á morgun verður það annað hvort mannlaust eða blóðugt.

eða bæði

Nafnlaus sagði...

Algjört lágmark er að þingmenn samþykki frumvarp Valgerðar Bjarnadóttur sem flutt var á síðast þingi. Í greinargerð þess segir:

“Markmiðið með flutningi frumvarpsins er að alþingismenn, ráðherrar og hæstaréttardómarar njóti sömu lífeyriskjara og ríkisstarfsmenn, en búi ekki við sérstök forréttindi [...].”

Síðan á auðvitað að vinna að því að gera kjör og réttindi almennra launþega sambærileg þeim sem gilda fyrir starfsmenn hins opinbera.

Magnað að formaður jafnaðarmannaflokks skuli flytja slíkt ójafnaðarfrumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi. Er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir alveg heillum horfin?

Rómverji