miðvikudagur, 19. nóvember 2008

Neðanmálsmenn

Meðal almennings ríkir gríðarleg óvissa um hvort hann haldi húsnæði sínu. Við blasir enn meiri verðbólga sem leiðir til hækkandi vaxta, sem aftur leiðir til þess að verðtrygging hækkar. Það er harla einkennilegt að þegar menn leggja í það að reyna að útskýra hvernig þetta kerfi virkar, þá eru þeir hinir sömu sakaðir um að verja kerfið og því haldið fram að þeir vilji viðhalda því.

Aðalsökudólgurinn er krónan. Hún hefur sveiflast gríðarlega. Það hefur ítrekað komið fram af hálfu helstu hagspekinga stjórnvalda að þeir vilji viðhalda krónunni vegna þess að þá sé mun auðveldara að stjórna efnahagslífinu. Ef aðilar semji um of há laun sé ekkert mál að fella hana og fara í 30% rússibanaferð með efnahagsífið, Eins finnst gott að geta spilað með krónuna ef stýra þurfi atvinnuástandi.

En á þessu eru hliðarverkanir. Sparifé landsmanna brann upp og hvarf, auk þess að ekki var hægt að fá langtíma lán. Það var árið 1979 sem stjórnvöld ákváðu að taka upp verðtryggingu til þess að tryggja að þó svo þau væru að spila með krónuna þá hefði það ekki þessar hliðarverkanir.

Þessu hefur verið mótmælt harkalega af hálfu verkalýðshreyfingarinnar og reyndar einnig af hálfu samtaka fyrirtækja, en án árangurs. Fyrirtækin hafa bent á að útilokað sé að skipuleggja rekstur við þessar aðstæður og verkalýðshreyfingin hefur bent á þetta leiði til aukins ójöfnuðar, þeir sem verði undir eigi mun erfiðara með að komast á fætur. Einnig kalli þetta ástand á að verðlag hér á dagvöru sem allt að því 40% hærra, hér ríki fákeppni vegna þess að erlend fyrirtæki leggi ekki inn í umhverfi krónunnar. Sama gildi um vexti og samkeppni á bankamarkaði.

Það eru stjórnvöld sem setja lögin og þau stjórnvöld sem kjörin hafa verið til valda hafa lagt til hliðar samkennd og jöfnuð, en látið markaðshyggjuna ráða för. Með því hafa þau ákveðið að viðhalda því ástandi sem tryggir áframhald óstöðugleikans og þá um leið að verðtrygging verði hér áfram. Það var ekki verkalýðshreyfing sem ákvað það. Á sama tíma hafa skattar á þá sem minnst mega sín vaxið, það hefur verið gert með því að láta skattleysismörk sitja kyrr í verðbólgunni og sama gildir um skerðingarmörk bóta almenna tryggingarkerfisins. Á sama tíma ákváðu stjórnvöld að fella niður hátekjuskatt.

Það er Ríkið sem á að setja leikreglur sem tryggja stöðu almennings. Ríkið hefur brugðist, þar á bæ hefur ekki verið tekið tillit til ábendinga um hvert stefni og því er Ísland í þessari stöðu.

Ef við viljum losna við verðtryggingu, þá verðum við að komast í umhverfi þar sem verðlag er stöðugt og verðbólga lág. Þangað hefur hafa aðilar vinnumarkaðs vilja komast, en Ríkið hefur hingað til hafnað því. Það var ekki fyrr en í síðsutu viku sem Flokkurinn lét undan, en hann vill taka sér tíma. Á meðan Flokkurinn er að hugsa falla heimili til jarðar og fyrirtæki riða til falls.

Það er ráðherrum og stjórnendum Seðlabanka þýðingarmeira að verja tíma sínum í að tryggja áframhaldandi setu sína og stunda hvítþvott, en að tryggja stöðu heimilanna. Það kostar nefnilega stundum óvinsælar ákvarðanir innan ákveðins hóps og sumir flokkar gæta tapað atkvæðum, jafnvel klofnað. Það skiptir meiru að koma í veg fyrir það en að verja hag almennings í hugum þeirra sem eru við völd þessa stundina.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er ekki sammála þessu Guðmundur, það er er verðtryggingin sem viðheldur verðbólgunni, hún tryggir það að þeir einu sem á einhvern hátt geta haft áhrif á verðbólgu (hið opinbera og fjármálastofnanir), hafa engan hag af því að halda henni niðri. Þeir tapa ekki alveg sama hvað verðbólgan er há. Verðtryggingin er svo góð við fjármálastofnanir að bankarnir gerðu atlögu að krónunni í örvæntingarfullri tilraun til að lifa af, jafnvel þó það setti verðbólgu af stað. Þeim var sama, lán þeirra voru verðtryggð. Annars staðar í heiminum er verðbólga skyndidauði fyrir fjármálastofnanir.

Ef lán hér væru ekki verðtryggð væru daglegir neyðarfundir þar sem unnið væri að aðgerðum til að halda verðbólgunni niðri svo fjármagnseigiendur töpuðu ekki peningunum sínum, en í staðinn er bara hægt að láta almenning borga aðeins meira. Öllum er sama.

Þetta sem er að gerast núna er svo hræðilegt að mig langar að hætta að borga í lögbundinn lífeyrissjóð og borga inn á lánin mín í staðinn ef það yrði á einhvern hátt til þess að slökkva á þessari vítisvél sem verðtryggingin er. En ég má það ekki. Takk.

Ég ætla þér ekki að vera svo illa innrættur að verja verðtrygginguna, en þegar maður sér verkalýðsleiðtogana koma af fundum þar sem inntakið hefur snúist um hvernig má halda henni við án þess að setja fólk á hausinn (en bara rétt svo), í stað þess að setja sér metnaðarfull markmið og setjast niður og segja: "Jæja hvernig skerum við í burtu þetta krabbamein úr hagkerfinu fyrir 1. maí 2009?" Að ætla sér að bíða eftir evrunni er bara uppgjöf. Hún kemur ekki fyrr en eftir nokkur ár og er sennilieg lengra í hana núna en vara fyrir 6 mánuðum. Á meðan virðist ykkur vera slétt sama þó meirihluti Íslendinga verði að launaþrælum í skuldagúlaginu.

Nafnlaus sagði...

Satt segir þú Guðmundur,þessir kallar eru aumingjar,"Mín orð"

Þeir hafa aldrei starfað fyrir Íslenska alþýðu,þeir hafa eingöngu komist til valda til að,sitja að kjötkötlunum og véla um hver fengi hvað í formi góðra starfa eða annarrar ívilnunar í öðrum gæðum , umfram aðra þegna landsins.
Þessir menn sem mest er talað um í dag eru óværur á samfélaginu og ætti að fangelsa með sama,ef hér væri lög og réttur.
En því miður er Fasisminn alls ráðandi í dag.
Ef fer fram sem horfir er skynsamlegast fyrir venjulegt fólk að fara sem fyrst úr landi til að geta bjargað sér,og leita sér lífsviðurværis og hamingju annars staðar. Ísland verður kúgað lengi vel af þessum bófum sem ráða nú um stundir,ef ekkert breytist.
En vonum það besta,ljósið fer brátt að ná í gegn.

Í Jesús Kristi við sjáum ljós,
ljósið sem eilíft mun skína.
Hann elskar þig Ísland,
þú ástfagra fagra land,
og alla íbúa þína.

Nafnlaus sagði...

Guðmundur!
Mæli með að þú birtir yfirlit yfir
árlega verðbólgu frá 1990.
Þegar horft er yfir það, gæti verið
að einhver spyrði af hverju er almenn verðtrygging er ennþá við lýði.

Hólmfríður Bjarnadóttir sagði...

Forgangsröðunin er oft ansi öfug og óskiljanleg. Nú eru það okkar kröfur að;
Fá nýja yfirstjórn Seðlabankanns
Sækja stax um inngöngu í ESB
Fá óháða rannsókn á hruninu

Nafnlaus sagði...

- rannsókn að hruninu
- umsókn í ESB
- ný (ríkisstjórn) seðlabankans...

allt þetta er mjög æskilegt og þarft, en tekur óratíma !

Það sem MJÖG stór hluti þjóðarinnar er lækkuð greiðslubyrði (sem er nb. há útaf verðtryggingu og gengi) STRAX!!!!!! og ekki seinna en í gær.

mér heyrist fólki vera næstum sama hvað skal gera - allt nema gjaldþrot og atvinnuleysi!

Eins ógeðslegt og það má nú hljóma þarf skammtímalausnir til að brúa bilið að langtímalausnum (s.s. annar gjaldmiðill). Það þarf að redda málunum - helst á kostnað úrásaraumingja sem komu þjóðina á kúpuna hvorteðer...

Öddi