miðvikudagur, 12. nóvember 2008

Skammtímalausnir

Hluti af almennu kjarasamningunum í febrúar fyrr á þessu ári var samkomulag milli aðila vinnumarkaðs og ríkisstjórnar um samráð til að undirbúa hina harkalegu lendingu, sem blasti við íslenska efnahagskerfinu seinni hluta ársins. Tilllögur aðila vinnumarkaðs byggðust á því að gera langtímastefnumótun sem stefndi að lausn á endurteknum rússíbanaferðum krónunnar með tilheyrandi vandamálum í efnahagsmálum.

Ríkisstjórnin bauð nokkrum sinnum upp á kaffibolla en hafnaði öllum viðræðum. Þessi afstaða vafðist fyrir mörgum, eins og t.d. kom ítrekað fram á þessari síðu í vor. Í haust var enn tekið til við að fá þessa fundi, ekkert gekk. Það leiddi til þess að SA og ASÍ fóru að vinna að tillögum í september um hvernig þetta gæti gengið fyrir sig, atvinnulífið og heimilin stefndu í þrot, ef ríkisstjórnin ætlaði að halda áfram úrræðaleysinu og skammtímalausnunum.

Allur þessi ferill kom margoft fram í fréttum og var ítarlega fjallað um þessar tillögur hér á þessari síðu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur viðhaldið sínum venjubundnu vinnubrögðum um að drepa á dreif allri markvissri umræðu og stefnumótun til langs tíma með því að henda út reyksprengjum og tillögum út og suður um krónu, norska krónu, dollar, svissneska franka og svo nú einhliða upptöku Evru. Allir vita að allar þessar tillögur eru óraunhæfar og þjóna þeim tilgang einum að komast hjá málefnanlegri umræðu.

Ríkisstjórnin böðlast áfram með skammtímalausnun, krísulausnum. Sífellt sökkvum við dýpra. Þrátt fyrir hvernig komið er þá víkur enginn, ekki er breytt um stefnu og svo er komið að Ísland er einangrað og er algjörlega rúið trausti.

Nú hafa komið fram í fréttum upplýsingar um að a.m.k. viðskiptaráðherra, fjármálaráðherra og forsætisráðherra var kunnugt snemma í vor um Icesave og hvert stefndi í bankakerfinu og að lending hagkerfisins yrði margfallt harkalegri en aðrir íslendingar reiknuðu með. Þar er mjög líkleg ástæða hvers vegna ríkisstjórnin fékkst ekki til fundarhalda og langtíma stefnumótunar. Skýrir einnig það úrræðaleysi og vandræðagang sem einkenndi allt hjá ríkisstjórninni í vor og var oft fjallað um í fréttum.

Í gær héldu utanríkisráðherra og forsætisráðherra því fram að forseti ASÍ væri lýðskrumari og að þeim hefði ekki verið kunnugt um þetta fyrr en í haust. Ef það væri rétt, sem reyndar er vægt sagt ótrúlegt sé litið til frétta og skýrslna sem fram hafa komið, þá væru ríkisstjórnin reyndar að staðfesta það sem margir hafa haldið fram um vanhæfni hennar.

Verkalýðshreyfingin hefur sýnt fulla ábyrgð og vilja til þess að standa við það sem um var rætt í febrúar, en ekkert bólar á lausnum og ekkert samráð er haft við aðila vinnumarkaðs. Þolinmæði launamanna er á þrotum.

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Því í ósköpunum farið þið - verkalýðsforystan - ekki af stað með aðgerðir, boða þáttöku í mótmælunum á Austurvelli, alsherjarvekfall á mánudaginn (fínt að fá langa helgi að haustinu til mótvægis við tillögu alþm. um að hafa uppstigningardag á föstudegi!). Það er augljóst hverjum heilvita manni að það þarf eitthvað róttækt að koma frá fólkinu í landinu. Við erum að athlægi um allt fyrir að láta þetta fólk halda völdum og þess vegna vill enginn hjálpa. Maður hellir ekki vatni í botnlausa fötu!
Ragnar

Nafnlaus sagði...

Þolinmæði launþega er þrotin!...fyrir þónokkru síðan.
Uppreisn með stuðningi forystunnar væri vel þegin.

Nafnlaus sagði...

Ef þolinmæðin er þrotin af hverju gerið þið ekkert nema að blogga?

Byrjið á því að hreinsa til hjá ykkur t.d. að hætta samstarfi við VR þangað til forstjórinn er farin, lýsið yfir vantrausti á ráðamenn, og ef ekkert gerist þá er boðað til alsherjaverkfalls.

Kv hinn atvinnulausi Friðrik Tryggvason

Nafnlaus sagði...

Afsögn ríkisstjórnar er eina krafan sem hefur einhverja meiningu.
Doddi

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur

ég eins og svo margir aðrir er orðinn leiður á þessari eilifu rússibanaferð. Ég er nú atvinnurekandi og á því að vera andstæðingur þinn, en mikið er ég sammála þér. Hvernig væri að þið félagarnir í ASÍ settið einfaldlega ríkisvaldinu stólinn fyrir dyrnar og boðuðu til allsherjarverkfalls í einn dag. Það er einfaldlega tími til kominn að yfirvöldum/ríksstjórn sé settur stólinn fyrir dyrnar. þetta gengu ekki lengur.

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur,
Ég ætla ekki að gera athugasemdir við þinn málflutning eða skoðanir, nema hvað þú segir að "komið hafi fram" að nokkrir ráðherrar hafi vitað um vafasama stöðu Icesave reikninga í mars.
Þetta er ekki rétt.
Þvert á móti hefur forstjóri Fjármálaeftirlitsins einmitt sagt að ráðherrum hafi ekki verið gert viðvart fyrr en í ágúst.
Er ekki betra að hafa þetta sannleikanum samkvæmt?
Það eru nóg vandræði í kringum okkur, við þurfum ekki að bæta neinu við það.
Kveðja, Þorfinnur

Nafnlaus sagði...

Þorfinnur, er ekki hlutverk ráðherranna að athuga með stöðu stærstu skuldsetningar Íslendinga erlendis?

Guðmundur sagði...

Þorfinnur
Ég stend við þessa fullyrðingu. Það hefur m.a. komið fram að rætt var við ensku ráðherranna um þessi mál í apríl.

Einnig veit ég um fundi þar sem þessi mál voru rædd mun fyrr en haldið er fram

Nafnlaus sagði...

Þorfinnur!
J.Fr.J. sagðist ekki hafa sagt ráðherra frá vanda ICESAVE en ALLIR hefðu vitað um hann. "Allir" hlýtur að taka til bæði forstjóra FJM og bankamálaráðherra. Það skrýtna er að sá síðarnefndi spurði forstjórann ekki um málið!

Ragnar

Guðmundur sagði...

Eitt sem ég gleymdi áðan.
Það hefur ítrekað komið fram hjá þeim sem standa að fundunum á Austurvelli að þeir vilja ekki nein samtök af neinu tagi séu þátttakendur eða skipuleggjendur.

Þetta var gert til þes að tryggja að það væri ekki hægt að fordæma fundina vegna ákveðinna stjórnmálflokka eða fleira íþeim dúr.

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir godar greinar!
Thad er ekki haegt ad sitja lengur undir thessum endalausu "hneykslum" sem upp koma dag hvern og adgerdarleysi stjornvalda.
Er ekki haegt ad boda til sameiginlegra motmaela launthega- samtaka og theirra sem nu skipuleggja fundina à Austurvelli. Launthegar geta gengid nidur Laugaveginn og maett hinum à Austurvelli.

Boda thyrfti allsherjarverkfoll med krofu um afsogn rikistjornarinnar og myndun krisustjornar med ohadum fagadilum asamt fulltruum launthega, atvinnurekanda og rikis sem situr eitt kjortimbil. Thad thyrfti eflaust ad boda til kosninga til thess ad thetta se geranlegt i lydraedisriki en traust almennings à flest ollum theim stjornmalamonnum sem sitja à althingi er horfid, somuleidis traust a theim flokkum sem vid thekkjum i dag.