þriðjudagur, 4. nóvember 2008

Áfram fljótum við að feigðarósi

Það er grafalvarlegt að horfa upp á hvernig mál þróast hér á landi. Viku eftir viku dregst það að ríkisstjórninni takist að koma bankakerfinu í gang og atvinnulífið verslast upp. Í síðasta mánuði var 3000 manns sagt upp. Stærsta hrinan í síðustu viku eftir að Seðlabankinn ákvað að hækka vexti upp í 18%.

Verðbólgan á Íslandi er sú hæsta sem þekkist í vestrænu samfélagi. Gjaldmiðill okkar er ónýtur og vextir þeir langhæstu sé litið til þeirra þjóða sem við viljum miða okkur við. Ísland er fullkomlega rúið trausti. Engin vill lána landinu fjármuni, utan neyðarlán frá Alþjóðasjóðnum. Eftir yfirlýsingu Seðlabankastjóra um að við ætluðum ekki að greiða erlendar skuldir hafa allir helstu erlendir viðskiptabankar heimsins snúið baki við Íslandi, við erum í fullkomnu frosti.

Ekki bætti úr þegar ákvörðun var tekinn um að ríkið yfirtæki bankana og “óhagkvæmar” skuldir skyldar eftir í gömlu bönkunum. Af hverju förum við ekki og ræðum við helstu fyrrv. viðskipabanka Íslands? Það væri hægt að bjóða þeim hlutabréf í hinum nýju bönkum í stað skuldanna. Þá yrðu þeir virkir þátttakendur í því að koma atvinnulífinu í gang og fá tilbaka eitthvað af tapinu. Þá myndum við fá fólk með reynslu og losna um leið við hina gróðafíknu íslensku glanna.

Ekki batnar álit íslensku bankanna þegar það er komið fram að 50 milljarðar af spilafé helstu starfsmanna bankanna voru settar í pappírstætarinn korter áður en ríkið yfirtók bankana. Ríkisstjórnin skipar fullkomlega vanhæfa nefnd til þess að skoða hlutina og kerfiskarl frjálshyggjunnar Birgir Ármannsson fer af stað og tekur viðtal við sjálfan sig og tuðar á því að “auðvitað sé þetta rétt”. Auðvitað á að halda áfram á Valhallarleiðinni og víkja sér undan því að draga menn til ábyrgðar og auðvitað er þvottavél Moggans er kominn í gang.

Á hverjum degi koma upp mál sem sýna þá gegndarlausu spillingu sem hefur viðgengist hér á landi. Kannanir sýna að hvergi sé miskipting meiri en hér. Hvergi eru skattar hærri. Við blasir að hækka þarf skatta ennfrekar til þess að borga svínaríið, sem hefur þrifist í skjóli þeirrar efnahagsstefnu sem fylgt hefur verið síðustu 17 ár.

Og fullkominn kyrrstaða ríkir hjá ríkisstjórninni. Sama staðan er búinn að vera í 4 vikur og fyrirtækin verzlast upp og skuldir heimilanna vaxa. Ástæðan virðist vera sú að Sjálfstæðisflokknum sé um megn að horfast í augu við stöðuna sakir þess að það muni verða of flokknum of dýrt pólitískt.

Almenning verður gert að borga. Klárt er að á meðan þessi ríkisstjórn ræður ríkjum þá verða skattar ekki hækkaðir í þeim sem mest hafa milli handanna, það verða lagðar enn þyngri byrðar á venjulega launamenn. Fjármagnstekjuskattur verður áfram 10%.

Forsætisráðherra og Seðlabankinn hafa lýst því yfir að það sé ætlunin að halda áfram með krónu sem sveiflast um 30% sem kallar á verðbólgu og vexti sem sveiflast um sömu stærðir og lánin hækka og hækka. Ef við ætlum að komast inn á sama far og tíðkast á hinum norðurlandanna, er einungis ein leið það er að henda krónunni og fara í stærra myntkerfi og vandvirkari vinnubrögð við efnahagsstjórn. Þetta hefur margoft komið fram hjá hagfræðingum ASÍ og SA og reyndar fleiri hagfræðingum.

Krónan er svo lítil að það var auðvelt fyrir vogunarsjóði og íslensku bankana að sveifla krónunni og hagnast á því. Þeir munu ekki hætta því. Það er því ótrúlegt feigðarflan að ætla sér að halda áfram með flotkrónuna eins og Seðlabankinn vill gera og stendur til að gera í næstu viku þegar við fáum Alþjóðasjóðslánið.

Úr þessu er einungis ein leið það er sýna fram á að okkir sé alvara í því að breyta af þeirri efnahagsstefnu sem við höfum fylgt, það er með því að breyta um stjórn efnahagsmála, lýsa yfir að við ætlum að skipta um peningastefnu og sækja um aðild að ESB.

Ríkisstjórnin ætlar að halda áfram leið vaxandi ófara og nýta ekki krafta hinna fjölmörgu vinnandi handa sem leita eftir störfum fullar örvæntingar. Ríkisstjórnin hafnar því að fara að tillögum ASÍ og setja af stað mannaflsfrekar framkvæmdir. Frekar á að láta þúsundir manna vera aðgerðalausa á bótum. Við eigum enn 20 milljarðana sem við fengum fyrir Símann og eiga að fara í nýbyggingar Landsspítalans. Af hverju ekki að nýta ekki atvinnuleysistryggingarnar til þess að lagfæra og endurbyggja opinberar byggingar, sem margar hverjar eru í lélegu ástandi. Af hverju ekki byggja fyrir sveitarfélögin sem ekki hafa haft efni á að byggja leikskóla og grunnskóla.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur

Ég hegg eftir orðalaginu "eftir að Seðlabankinn ákvað að hækka vexti".

Má ekki öllum vera ljóst að þessi vaxtahækkun er að kröfu IMF? Þeir sem vöruðu við því að leitað yrði á náðir IMF bentu sérstaklega á að búast mætti við því að sjóðurinn myndi krefjast vaxtahækkunar.

Sjálfur talaðir þú þá raunar um órökstuddar úrtöluraddir. Væri ekki stórmannlegra að viðurkenna nú að viðvörunarorðin voru á rökum reist?

Í framhaldinu væri svo skynsamlegt að byrja að blogga á ensku, því embættismenn IMF sem munu ráða vaxtastiginu hér næstu árin lesa varla mikið af íslenskum bloggsíðum.

Nafnlaus sagði...

Næsta stóra áfall sem á eftir að skella á okkur er þegar nýfrjálshyggjan skríður fram undan fylgsni sínu og setur andvana "krónu" á flot. Þessir menn gefast aldrei upp svo lengi sem þeir eru við stjórnvölin. Hvað gerist? Alvörupeningarnir sem við fáum að láni erlendisfrá, streyma út úr landinu á nokkrum dögum!! Við sitjum eftir með haug af matadorpeningum sem ekkert alvöru hagkerfi vill sjá, en lánin verðum við að greiða í alvöru mynt.
Það verður að stoppa þessa frjálshyggjumenn strax!! Við sem þjóð höfum ekki efni á því að sitja uppi með Geir-laug og Davíð gereyðingavopn.

Nafnlaus sagði...

Þetta er orðið þvílíkt rugl allt saman, að nú er ekki lengur spurningin hvort, heldur hvenær gerð verður bylting.

Nafnlaus sagði...

Ekki lýst mér á ef þetta verður raunin "Alvörupeningarnir sem við fáum að láni erlendisfrá, streyma út úr landinu á nokkrum dögum!"

Nafnlaus sagði...

Ég auglýsi hér með eftir að það verði gert plan hvernig á að hjálpa ýmsum þjóðfélagshópum; t.d. 20-40 ára fólk, nýskriðið úr námi, með miklar skuldir, börn og vesen... Þetta fólk hefur horft á afborganir lána sinna hækka um ca. 40% á síðustu mánuðum, og sumir hafa misst vinnuna.

Það gefur augaleið að þetta fólk er komið í þá stöðu að innkoman er lægri en útgjöldin, og þá á jafnvel eftir að kaupa mat !!!!

Þetta fólk eru félagsmenn í verkalýðsfélögunum og er jafnvel með allt sitt á lífeyrissjóðslánum.

Þetta fólk horfir í augu gjaldþrots, jafnvel fyrir jól.

Svo sér þetta fólk að skuldir verðbréfaaumingjanna voru niðurfelldar !! Þeir seku á ástandinu fá fjárhagslega syndaaflausn !


Ég er alla veganna fyrir mína parta farinn að leita að uppskriftum að rússneskum kokkteilum fyrir næsta laugardag, því ef ég er á leiðinni í skuldafangelsi fyrir sakir sem ég á enga sök á, get ég bætt alvöruglæp við og tekið refsinguna út með reisn.

Það myndi friða marga að þessi summa sem var afskrifuð, 50 milljarðar myndi hjálpa heimilunum og saklausa fólkinu töluvert.

Verðbréfasiðleysingjar ættu í raun að standa straum af þeim kostnaði.

Svo að lokum má benda á að þessi hópur sem ég minntist á hér að ofan er alls ekki sá eini sem er í töluverðum vandræðum.

Guðmundur, geturðu komið eftirfarandi beiðni til stjórnvalda - komið með raunhæft plan til að skera fólk úr snörunni, áður en þið verðið settir af - með illu.

Öddi

Unknown sagði...

Guðmundur.
Eftir daginn í dag er að verða áleitin spurning hvort ekki verði ráðist í byggingu fangelsis á Hólmsheiði með hraði. Það virðist vera vandfundnari betri fjárfesting.

Nafnlaus sagði...

VESLAST upp.... ekki verslast. Íslenskunni verðum við að halda, þrátt fyrir að við höfum tapað öllu öðru.