laugardagur, 15. nóvember 2008

Undanhaldið II - Ósannindin halda áfram

Það hefur tekið forsvarsmenn nágrannaþjóða okkar 4 vikur að koma ríkisstjórn Íslands í skilning um að Ísland verði að fara að alþjóðalögum, ef þjóðin ætlist til þess að fá aðstoð. Allt síðasta ár hefur fjöldi manns bæði innlendra og erlendra beitt öllum brögðum til þess að koma ríkisstjórninni í skilning um þetta.

Það var ekki fyrr en bankakerfi landsins er hrunið og landsmenn hafa tapað hundrað milljörðum af sparifé sínu, 10.000 launamenn flúnir af landi brott, fjöldi atvinnulausra hér heima er farinn að nálgast 4000 og við blasir að annar eins hópur missir vinnuna á næstu 2 mánuðum. Við fjölda heimila blasi gjaldþrot, þá loks gáfu Geir og hans fylgdarlið eftir.

Hvernig kynntu Geir og fjámálaráðherra þessa niðurstöðu fyrir landsmönnum? Með ósannyndum, segja þeir embættismenn sem áttu viðræðum við Ísland. Þeir segja að það hafi legið fyrir samkomulag 4. nóvember sem ríkisstjórn Íslands hafnaði. Nú hefur ríkisstjórnin ákveðið að breyta um stefnu og gengið að samkomulaginu.

Er nema von að ríkisstjórn sé algjörlega rúinn trausti innanlands og utan.

Örvæntingarfull reynir forysta Sjálfstæðisflokksins að telja þjóðinni í trú um að það sé hann sem hafi frumkvæði um þessa stefnu. Hvað hefur dunið á í öllum fjölmiðlum og fundum samtaka atvinnulífsins og launamanna undanfarin ár?

Mogginn lýsir þessum sjálfsblekkingunum svo vel í leiðara dagsins, „Með þessu útspili hefur Geir formaður Sjálfstæðisflokksins sýnt þá forystu sem margir væntu af honum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf haft forgöngu um mikilvægustu ákvarðanir í utanríkismálum þjóðarinnar og sýnir nú að hann varpar þeirri ábyrgð ekki frá sér.“

Þetta er einhver ósvífnasta blekking sem sést hefur, reyndar fyrir utan þá söguskýringar sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk Hannes Hólmstein til þess að semja og Menntamálaráðuneytið var látið kaupa í stórum upplögum. Sé litið til þróunnar síðustu öld og það sem af er þessari, þá hefur Sjáfstæðisflokkurinn ætíð staðið í vegi öllum mikilvægust ákvörðunum sem teknar hafa verið til hagsbóta fyrir almenning. Hann hefur ætíð barist fyrir hagsmunum tiltölulegs fámennrar valdastéttar.

Hér má t.d. nefna almennan kosningarétt, Vökulögin, Almennar tryggingar, sjúkrasjóði, lífeyrissjóði, samninga við Evrópska efnhagsbandalagið og síðustu en afdrifaríkustu ákvarðanir hans sem eru taldar upp hér að ofan og 75% þjóðarinnar hefur reynt að koma flokknum í skilning um það á síðustu misserum.

Og þjóðin syngur "Þú ert pínu pínu pínu pínulítill kall - Mikið minni en í gær"

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Af hverju er Samfylkingin í stjórn með svona flokki? Eru Jafnaðarmenn sama tóbakið? Eða er forystan ekki neinir Jafnaðarmenn?
Doddi

Skorrdal sagði...

Og nú þarf slagkraft verkalýðsins, Guðmundur! Ekki bíða eftir kallinu, stattu fyrir því! Sófagagnrýni hjálpar þessu samfélagi lítið. Hvar verða þínir félagsmenn - og þú - kl. 3 í dag?

Í fullri virðingu.

Nafnlaus sagði...

Það er pirrandi hvað þú skrifar oft í nafni þjóðarinnar. Held að það sé réttara að þú látir nægja að kenna skoðanir þínar við sjálfan þig.

Nafnlaus sagði...

Ég er alltaf sammála þér Guðmundur og það þú skrifar á allt við rök að styðjast. Ég er fastur gestur á mótmælunum á Austurvelli og það eitt sem mér finnst vanta þar og það er verkalýðsforusta þessa lands. Það er óþolandi að hún skuli ekki vera fremst í flokki þeirra sem standa að þessu frábæra átaki.