sunnudagur, 16. nóvember 2008

Eitt ár

Í dag er eitt ár síðan ég hóf að blogga hér á Eyjunni, þetta er búið að vera viðburðarríkt ár, algjörlega öfgana á milli. Sjálfstæðismenn stóðu að fundarhöldum síðasta vetur þangað sem nokkrir af postulum nýfrjálshyggjunnar voru fengnir til þess að boða fagnaðarerindið.

Hólmsteinninn og Geir hrósuðu sjálfum sér fyrir hversu duglegir þeir hefði verið að að lækka skatta á þeim hæst launuðu og hvernig þeir hefðu svo hækkað skatta á þeim sem minnst máttu sín með því að láta skerðingarmörk bótakerfisins og skattleysismörk sitja kyrr í verðbólgunni. Þeir hæddust af þeim sem drógu dugnað þeirra í efa og sögðu að þar færu gamaldags öfundsjúkir kommatittir.

Frjálshyggjumennirnir mættu í Sjónvarpið og lofuðu þessar aðgerðir og hvöttu íslendinga til þess að lengja vinnuvikuna ennfrekar, annars hefðu þeir ekki í sig eða á vegna þess að ríkið þyrfti vitanlega að fá sína skatta. Og Hólmsteinninn brá sér í fundarferð um veröldina þar sem hann boðaði sitt íslenska fagnaðarerindi.

Forsetinn kom við í Kína á í glæsiferðum sínum um heimsbyggðina með útrásarvíkingunum og fagnaði því hvað hægt væri að flytja mikið af verkefnum þangað, vegna þess að þar væri vinnuafl svo ódýrt og verkafólk þar væri ekki með allskonar óþarfa eins og t.d. tryggan aðbúnað á vinnustöðum og hömlur á vinnutíma.

Hagfræðingar spáðu að þegar liði á árið yrði mikið fall í efnahagslífinu og verkalýðshreyfingin gerði í febrúar enn eina ábyrgu kjarasamningana gegn því að ríkisstjórnin settist niður með aðilum vinnumarkaðs og gerði þriggja til fjögurra ára áætlun um hvernig taka mætti á aðsteðjandi vanda.

Þegar aðilar vinnumarkaðs vildu efna samkomulagið og fá fundi fannst ráðherrum það óþarfa afskiptasemi. Almenningur og aðrir skyldu sko átta sig á því hverjir hefðu verið kjörnir til þess að stjórna landinu. Sjálfstæðismenn voru með venjubundnar upphrópanir og hentu út hverri reyksprengjunni á fætur annarri og vildu einungis stjórna með skyndilausnum. Þeir væri ekki til viðtals nema viku fyrir kjördag.

Ráðaleysi og fáskipti ráðherra vöktu athygli fulltrúa vinnumarkaðs og var umtalað hér í pistlum. Nú er komið fram að þeim var þá orðið ljóst hversu alvarlegt ástandið var í raun. Þar voru gerð alvarlegustu og afdrifaríkustu mistök sem íslenskum ráðherrum hefur orðið á fyrr og síðar. Ástandið hér á landi væri mikið nær því sem það er í nágrannalöndum okkar hefðu ráðherrar tekið á móti aðilum vinnumarkaðs og tekist hefði verið á við vandann strax snemma síðasta vor. En það var þeim um megn vegna þess að þá hefðu ráðherrarnir orðið að viðurkenna hversu illa þeir hefðu haldið á málum þjóðarinnar og að auki skaðað stöðu Davíðs og klofið Flokkinn.

Þessir hinir sömu vilja nú telja okkur í trú um að aðrir en þeir ráði ekki við vandann, það verði upplausn fari þeir frá og skipa vini og vandamenn í bankaráð. Við erum kominn 30 ár aftur í tíman og nú stjórnmálamenn eru í essinu í sínum sóðaskap og krefjast þess að bankaleynd sé aflétt fái menn lán sem eru þeim ekki að skapi. En víkja sér undan því að upplýsa hvernig kaupin gengu fyrir sig á eyrinni dagana fyrir bankahrunið. Þeir hafa tekið hundruð milljarða af lífeyrissparnaði og sparifé landsmanna í uppgjörum skilanefndannna, þar sem við blasir að gjaldþrotaskiptalög eru þverbrotin. En hafna að afnema sín eigin eftirlaunalög.

Svo er komið að stefna Davíðs og ríkisstjórnarinnar hefur skapað Ísland sérstöðu í samskiptum landa sem mun taka okkur mörg ár að lagfæra og enn fleiri ár að greiða upp þær skuldir sem vinnulagi þeirra hefur leitt yfir okkur. Uppgjör er óumflýjanlegt og kosningar ekki seinna en í marz.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

kjosa.is

Nafnlaus sagði...

Það virðist hafa farið framhjá ansi mörgum úr hópi svokallaðs almennings, að bæði innlendir og sérstaklega erlendir (OECD) aðilar hafa bent á þá gríðarlega auknu skattbyrði, sem launalægstu hóparnir hafa verið látnir taka á sig, einkum og sér í lagi í stjórnartíð Halldórs og Davíðs. Mest hefur verið níðst á þeim sem lifa á lífeyrisgreiðslum og opinberum bótum með því annarsvegar að halda bótagreiðslum niðri og hinsvegar og ekki síst með því að halda skattleysismörkum niðri í krónutölu án tillits til verðþróunar. Nú verður augljóslega enn frekar höggvið í þennan knérunn með því að lífeyrisbætur almennra launþega stórskerðast vegna þeirrar verðrýrnunar, sem verður á vörslufé lífeyrissjóða almennings.

Nafnlaus sagði...

Hvar var verkalýðshreyfingin á laugardaginn, Guðmundur? Hvar hefur verklýðshreyfingin verið undanfarnar vikur? 8000 manns mæta algjörlega að eigin frumkvæði og enginn talsmaður verkalýðsins sjáanlegur? Eruð þið kannski of upptekin við að "standa saman"? Ætlið þið bara að bíða eftir evrunni en láta verðtrygginguna setja fólk á hausinn og gera borgunarmenn að bótaþegum á meðan? Eruð þið búin að gefast upp fyrir verðtryggingunni, skrýmslinu sem þið bjugguð til sjálf? Hvar voru kröfuspjöld og fánar verkalýðsins á laugardaginn? Eru þau bara geymd í kjallara í Borgartúni og rykið dustað af þeim upp á punt 1. maí?

Nafnlaus sagði...

Guðmundur Gunnarsson er maður til að svara fyrir sig og gerir það vafalaust. Manni finnst hinsvegar stundum örla á því að sumir andstæðingar verðtryggingar vilji fá aftur framsóknaráratuginn milli 1970 og 1980, þegar enginn borgaði sannvirði skulda sinna til baka. Þá var lagður grunnurinn að veldi sumra, kannski flestra, þeirra aðila sem hafa ráðið öllu hér undanfarið og hafa farið með allt hér til fjandans. En til að hægt sé að fá lán, verður einhver að leggja fyrir. Ef þeir, sem leggja fyrir, fá ekki raunvirði sinna peninga til baka, heldur að þeir brenni upp á sama hátt og þeir gerðu á framsóknaráratugnum 1970-1980, þá verða engir peningar til að lána. Þetta verður því miður ekki lagað nema með alvöru gjaldmiðli.