Það er einkennilegt að heyra helstu hönnuði gjaldþrota efnahagsstefnu Sjálfstæðisflokksins telja að helsta forsenda öflugs atvinnulífs sé króna. Það sé grundvallaratriði að geta fellt gengi krónunnar komi það í ljós að almenningur hafi náð samningum um of góð laun. Þá sé gott að geta fellt krónuna.
Þessir menn kynna sig sem málsvara frelsis og afskiptaleysis stjórnvalda. Það er einnig svo niðurlægjandi að hlusta á þessa hina sömu lýsa því yfir að þeir ætli að sækja í neyðaraðstoð ESB, þess hins sama og þeir eru að fordæma. Þetta er svo fjarri að vera trúverðugt, enda hrynur fylgið af þessum mönnum.
Helstu forsvarsmenn íslenskra fyrirtækja segja að það sé útilokað að reka fyrirtæki með krónuna sem gjaldmiðil. Helmingur starfstíma þeirra fari í að bregðast við vanda sem skapast vegna krónunnar í stað þess að sinna uppbyggingu og rekstri.
Forsvarsmenn sprotafyrirtækja segja að það sé mjög erfitt að byggja upp sprotafyrirtæki í umhverfi krónunnar. Fyrirgreiðsla og styrkir séu margfalt betri innan ESB. Það er einmitt þetta sem Finnar benda okkur þegar þeir lentu í samskonar erfiðleikum og við erum að ganga í gegnum. Þeir fengu gríðarlega mikla styrki til þess að byggja upp starfstengt frumkvöðlanám. Nokkrir hópar íslenskra skólamanna hafa undanfarin ár farið og skoðað þessar breytingar í menntakerfi Finna og hafa allir lýst mikilli undrun og ánægju með þann mikla árangur sem Finnar hafa náð á þessu sviði.
Það eina sem heyrist frá forsvarsmönnum Sjálfstæðismanna er að halda eigi áfram á sömu braut, engu eigi að breyta. Þeir mæta svo reglulega í fréttaþætti og verja þeim tíma sem þeir fá til umráða í að tilkynna landsmönnum að nú sé ekki tími breytinga, ekki eigi að leita sökudólga og sífellt sekkur þjóðin dýpra.
Verkefni stjórnvalda er að hefja endurbyggingu íslensks efnahagslífis þar sem ríki sami stöðugleiki og í nágrannaríkjum okkar. Verðbólga og vextir á langtímafjármagni fyrir atvinnulífið og heimilin verði sambærileg því sem er þar. Í baráttunni við verðbólguna verðum við að losna við hina skaðlegu verðtryggingu. Hjá þeim þjóðum sem eiga að vera viðmiðun okkar er breytilegt vaxtastig á langtímalánum. Verðtryggingar er ekki þörf. Með því að líta til nágrannaþjóða okkar blasir við að ef Ísland hefði verið hluti af stærra hagkerfi þá væri þjóðin ekki svona illa stödd.
5 ummæli:
Ég er sammála þér með verðtrygguna hún þarf að hverfa og við þurfum að koma okkur í svipað lánakerfi og er hinum Norðulöndunum. Þessvegna var ég mjög hissa þegar ég las viðtalið við forseta ASÍ í mogganum í dag þar sem hann talar bara um verðtryggðlán eða gjaldeyrislán. Það fannst mér einsog okkar fólk væri fast í sömu rulluni. Nú er tækifæri að stokka upp á þessum sviðum og mörgum öðrum. Kveðja Simmi
En Guðmundur minn, hvað þá um lífeyrissjóðina? Maður heyrir alltaf þau rök að verðtryggingin sé hérna til að verja þá sjóði.
Ég sé ekki muninn ef við sem þjóð og allt unga fólkið sem þarf að eyða nánast restinni af sínu lífi í að greiða skuldirnar sínar hverfi úr landi vegna þeirra, heldur vil ég afnema verðtrygginguna og halda í fólkið okkar og verja það.
Takk sh
Það er aðeins þrennt í heimi hér sem við getum treyst: Davíð, Geir og krónan. Svo segja þeir tveir alla vega!!! Aðeins að spauga.
M.v. að þú átt að vera talsmaður ákveðins hóps, er þetta ekki að virka. Hverjir standa með þér?
Það þarf að koma iðnaðarmarkaðinum upp aftur og við gerum það ekki með smáskömtum, það verður að halda trukki áfram til að koma atvinnulífinu af stað. En smáskamtarinir verða að vera með, alveg augljóst.
Hvernig væri að iðnaðarmannafélöginn tæku sig nú samann og sýndu hvað í þeim býr .Settu fram aðgerðaráætlun með alvöru lausnum. Það verður einhver að taka að sér forustu í því og ég skora á Guðmund að gera það. Virðist vera eini verkalýðsforinginn sem þorir að vera með skoðun í dag.
Skrifa ummæli