sunnudagur, 16. nóvember 2008

Frekjukynslóðin

Það er oft sem fólk ber saman tvo ólíka og telur sig með því færa rök fyrir sínu máli. Í Silfrinu í dag var eins og reyndar mjög víða fjallað um húsnæðismál og lánakerfið. Þar var gripið til algengrar samlíkingar það að svo kölluð frekjukynslóð hefði nánast fengið íbúðir sínar gefins.

Nú væri ætlast að fólk greiddi íbúðir sínar með verðtryggingum sem hækka og hækka. Það gerist reyndar fyrri helming greiðslutímabilsins vegna þess að fólk greiðir ekki alla vaxtaupphæðina. Þetta jafnar sig svo yfir á seinni helming greiðslutímans. Þessi leið var valin vegna mikillar sveiflu krónunnar og verðbólgu hér á landi. Það er vafalaust hægt að finna upp annað kerfi, en stjórnmálamenn hafa allavega ekki komið fram með það enn.

Og svo var verkalýðshreyfingunni kennt um allt saman. Reyndar oft þrautalendingin ef rökin vantar, sérstaklega hjá ódýrum stjórnmálamönnum, þá er gengið í skrokk á verkalýðshreyfingunni. Svo maður tali nú ekki um ef engin er viðstaddur til þess að svara fyrir það.

Ég er líklega af þessari frekjukynslóð. Byggði mína fyrstu íbúð 1971 efst í Breiðholti, á sama hátt og allir gerðu á þessum tíma, höfðu gert áður og líklega fram undir 1995. Fengum hana afhenta tilbúna undir tréverk eins og það heitir. Við hjónin máluðum síðan allt og gólfið líka. Fengum gefins gamla hurð hjá einum úr fjölskyldunni sem nýtt var sem útihurð. Með nokkrum spýtum var búið til borð undir eldhúsvask. Fengum gamla eldavél á slikk. En keyptum nýtt klósett og baðkar. Settum tusku í stað baðherbergishurðar. Þannig fluttum við inn og bjuggum þarna í 7 ár á þeim tíma keyptum við smá saman það sem upp á vantaði. Gerðum allt sjálf, eða unnum það í skiptivinnu.

Það lán sem við fengum var húsnæðislán sem dugaði fyrir tæplega helming íbúðarinnar eins og hún var afhent tilbúinn undir tréverk og sameign máluð, en ekki með gólfefnum. Ég vann fyrir hinum helmingnum á kvöldin og um helgar hjá byggingarmeistaranum í heilt ár, þegar ég hafði lokið fullum vinnudegi hjá mínum aðalvinnuveitanda, auk þess að ég seldi nýlegan Fólksvagn sem ég átti. Með þessum hætti tókst okkur ungum hjónum með tvö lítil börn að fjármagna íbúðina.

Það er rétt að húsnæðislánið varð tiltölulega auðvelt viðfangs eftir nokkur ár. Ef við berum þetta saman við það sem hefur verið á undanförnum árum, þá er verð á sambærilegri íbúð í dag um það bil 25 millj. kr. En í dag er allt frágengið. Tilbúið undir tréverk væri í grennd við 2/3 í mesta lagi, eða þá um 15 millj.kr. helmingur af því þá um 7 – 8 millj kr. Þannig að það er vart hægt að bera 7 millj. kr. lán til 15 ára á breytilegum vöxtum, saman við greiðslubyrði af 25 millj. kr. láni á 40 árum með verðtryggðu láni.

Annað sem gleymist í þessum samanburði við okkur frekjukynslóðina. Við greiddum í lífeyrissjóði og reyndum að byggja upp annan sparnað. Efnahagsstjórn þessa tíma var nú svo slöpp að allt sparifé ásamt lífeyrissjóðum nánast gufaði upp. Þannig að það bitnaði á þessari kynslóð, en ekki öðrum kynslóðum í lakari ávinnslu og réttindum. Þannig að fullyrðingar sem fram hafa komið um að frekjukynslóðin hafi eignast sínar íbúðir fyrir nánast ekki neitt eru að töluverðu leiti úr lausu loft gripnar.

Ef afnema á verðtryggingu þá er það ekki hægt nema með einhverju formi af breytilegum vöxtum eins og gert er í öðrum löndum. Þar er verðlag tiltölulega stöðugt og verðbólga á bilinu frá 2 – 3%. Það væri hægt með neikvæðum vöxtum eins mér heyrðist verið talað um í Silfrinu í dag. Þá er bara að finna einhvern sem vill lána í dag sína fjármuni á neikvæðum vöxtum. Það er varla réttlátt að heimta að þeir fjármunir séu teknir af sparifé annarra en þá þeirra sem eiga að njóta þess eins og gert var hér áður fyrr og rakið er hér að ofan.

Í umræðum um afnám verðtryggingar hafa hagfræðingar ASÍ og SA réttilega, eins og reyndar aðrir hagfræðingar, bent á hvað það kosti umtalsverða fjármuni, eða þá svo háar afborganir að fólk ráði illa við þær. Hagfræðingarnir hafa spurt hverjir eigi að borga þann kostnað. Starfsfólk verkalýðshreyfingarinanr hefur verið uppá lagt að vinna ekki á sama hátt og ódýrir pólitíkusar með innistæðulausum loforðum eins og gert var í Silfrinu í dag.

T.d. er næsta víst að ef farið væri að þeim tillögum sem settar hafa verið fram þá kostaði það Íbúðarlánasjóð það mikið að hann yrði gjaldþrota á um einu ári, sem myndi þá valda því að húsnæðislán féllu líklega niður eða þá að ríkissjóður yrði að leggja inn í kerfið tæplega 200 milljarða á ári. Það er hægt en þeir peningar yrðu að koma einhversstaðar frá, líklega í hærri sköttum.

15 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sammála þessu að hluta, en þessu má líka snúa við:

Bankarnir hreinlega tróðu meiri lánum en góðu hófi gegnir ofan í fólk.

Þetta var svona "super size me". Maður fer á MacDonalds og biður um eina kók. En er boðið risakók. Þjóðfélagið hleypur í spik.

Sama gerist á sviði bankamála: það er "ódýrara" að taka lán fyrir öllu klabbinu heldur en að fjármagna einstaka bita (eldhús, bað) með skammtímalánum.

En það er rétt, fólk hefur ekki haft þolinmæði til að búa við eldhúsinnréttingar úr máluðum spónaplötum.

Nafnlaus sagði...

Guðmundur !

Auðvitað á að afnema verðtryggingu húsnæðislána !
Maður skilur ekki hvernig stendur á því að verkalýðsleiðtogar virðast núna vera þeir einu sem vilja halda í verðtryggingu húsnæðislána ?
Núna er það íbúðarlánasjóður sem fer á hausinn, áður notuðu sömu menn lífeyrissjóðina sem færu á hausinn !
Það var hægt að taka verðtryggingu af launum !
Það var hægt að láta okkur öll fara á hausinn !
Það á að láta okkur öll borga skuldir , sem við stofnuðum ekki til !
Verkalýðsleiðtoganir sögðu okkur að við yrðum að semja um einhver verðbólgumarkmið , sem við stjórnuðum alls ekki !
Það má alls ekki breyta neinu um verðtrygginu húsnæðislána !

Er það aðalaverkefni verkalýðsleiðtoga að halda lanuamönnum í endalausri borgunarröð fyrir aðra, skuldir sem þeir virðast aldrei geta haft áhrif á !

Getur það verið að verkalýðsleiðtoganir séu orðnir of uppteknir á að hlusta á alla súper sérfræðinganna í gerfi hagfræðinga , en eru búnir að gleyma fyrir hverja þeir eiga að vera að vinna !

Nafnlaus sagði...

Eitt er við verðtrygginguna sem aldrei er talað um. Það er að með verðtryggingu hafa bankar og aðrar peningastofnanir bæði belti og axlabönd og hafa því enga ástæðu til að þrýsta á stjórnvöld að halda niðri verðbólgunni því þeir fá alltaf sitt og rúmlega það.
Þess vegna verður að afnema verðtrygginguna þá kemur þrýstingur á ríkisstjórnina frá eina fólkinu sem þeir hafa hlustað á hingað til.
Og ríkisstjórnin verður að fara að gera eitthvað í verðbólgumálum.

Nafnlaus sagði...

Jæja "félagi" Guðmundur... Eigum við að "deila byrðinni", "sigla í gegnum brimrótið saman", "taka höndum saman" , eða verður það bara fólk á aldrinum 25 til 40 ára, sem borgar gjaldþrotið? ERU ALLIR MEÐ EÐA EKKI?

Nafnlaus sagði...

Við stöndum frammi fyrir að reyna að gera upp fjárhættuspil þar sem vitlaust var gefið. Það finnast engar sanngjarnar lausnir og við verðum að reyna að skoða hvaða lausnir eru mögulegar þannig að samfélagið okkar standi af sér storminn. Verði verðtryggingin ekki afnumin þá eru bara til tvö svör; bylting eða landsflótti. Hvorugur valkosturinn mun skilja mikið eftir af eftirlaunaréttindum. Spurning hvort þið getið ekki fengið eignir auðmannanna sem bót fyrir aftengingunna?

Að auki vil ég benda þeim sem vilja leggja sitt afl á vogarskálar þeirra sem vilja endurheimta lýðræðið úr krumlum spillingaraflanna að koma á borgarafundinn á NASA klukkan 20 mánudagskvöld sjá hérna:

www.borgarafundur.org

Héðinn Björnsson

Nafnlaus sagði...

Það er óskaplega erfitt að fá fólk til að skilja að verði verðtrygging afnumin gerist eitt af tvennu. Ef vextir fá að fljóta, verða þeir bara þeim mun hærri. Ef ekki, hverfa allar innstæður úr innlánsstofnunum, því enginn vill eiga peninga. Ef koma á því kerfi á, að þeir sem taka lán þurfi ekki að endurgreiða jafnvirði þess sem tekið er að láni, hætta allir að leggja fyrir. Ef það er eitthvert takmark í sjálfu sér að eyðileggja lífeyrissjóðina, þá skal bent á að það tekur ekki langan tíma.

Nafnlaus sagði...

Sælir félagar.

Guðmundur var nú í Noregi í daginn og þar er 3% verðbólga og vextir á húsnæðislánum eru 6,0% og Norðmenn kvarta, enn takið eftir þarna eru vextir 6% sama og hér enn svo bætum við verðtryggingu við. Það verður að afnema verðtryggingu og finna annað sem virkar, enn það er til á Norðurlöndunum og öðrum ríkjum í Evrópu. Kveðja
Simmi

Nafnlaus sagði...

Fólkið sem naut góðs af þeim hugsunarhætti að ganga ætti á allar mögulegar og ómögulegar náttúruauðlindir á auðvitað að borga. Það á að borga fyrir þær skuldir sem það stofnaði til í nafni þjóðarinnar og þann hluta höfuðstólsins sem það skar í burtu. Í ofanálag á það að kaupa miða á Sigur Rós fyrir okkur krúttin.

Þið brugðust okkur sem yngri erum þó að þið hafið náttúrulega sjálf komið oftar á Kanarí en til Ísafjarðar og þar af leiðandi ekki séð að hér er allt búið að vera í rjúkandi rúst í a.m.k. 10 ár.

Nafnlaus sagði...

Frekjurnar sem eru foreldrar okkar krúttanna eru upp til hópa að gera út af við börnin sín...

Það sem er svo sárt fyrir krúttin er þegar frekjurnar segja þeim hversu skítt þau höfðu það þegar þau voru að koma sér þaki yfir höfuðið, og að við höfum það bara fjandi gott.

Ég man ekki eftir að hafa heyrt eldri kynslóðina reyna að stoppa okkur að kaupa "tilbúnar" íbúðir, um leið að skuldsetja okkur í botn (næstum því amk.)

Því er það vont að heyra núna "Æ tóld jú só" söng, það versta er að þau sögðu okkur þetta í hljóði...

Ég er hræddur um að við séum komin á þann stað að það skiptir engu hvað liðið er, við þurfum að bjarga málunum NÚNA, redda heimilunum, lífeyrinum o.s.frv.

Það sem skiptir mjög miklu máli þessa dagana er að greiðslubyrði heimilanna verði gerð manneskjuleg - SAMA hvernig það verður gert, afnám verðtryggingar eður ei.

Öddi

Nafnlaus sagði...

Nota þessa andskotans lífeyrissjóði til að greiða upp íbúðaskuldir fólksins sem er á milli 20 og 45 ára og láta frekjukynslóðina éta það sem úti frýs. Byrja svo upp á nýtt.

Nafnlaus sagði...

Ég og kærastinn minn keyptum 3ja herbergja íbúð og borguðum helminginn úr eigin vasa eins og þú forðum! Við höfum að vísu hurðir en þær eru eins og annað naglfast frá 1930. Húsgögnin eru gamalt gefins drasl frá foreldrum okkar "frekjunum". En þetta er ósköp krúttlegt (sem hæfir víst okkar kynslóð) við höfum jú hvort annað og börnin okkar 3. Við hjólum í nám og vinnu til að þurfa ekki að reka bíl. Laun einu fyrirvinnunnar (hitt er enn í námi) fara í að borga af íbúðinni, námslánunum og leikskólagjöldin auk þess sem við kaupum mat í grunnskólanum fyrir elsta barnið. Aukavinna er af skornum skammti. Tannlækningar og annar lúxsus er eitthvað sem við höfum ekki einu sinni látið okkur dreyma um.

Núna mun það gerast að íbúðin okkar mun hríðlækka í verði. Lánin okkar munu snarhækka á meðan. Eftir mjög skamma stund eigum við ekkert í íbúðinni og nokkrum mánuðum síðar þurfum við að borga til að komast út á götu. Á meðan munu ömmur og afar barnanna okkar sitja í sínum skuldlausu eignum og leggja áfram til fyrir efri árin. Það eina sem skyggir á gleði þeirra verður að barnabörnin verða ÖLL flutt úr landi ásamt foreldrum sínum - því við höfum ekkert að gera á Íslandi lengur. Við erum vel menntuð, svo til nýkomin heim úr námi og eigum því mjög auðvelt með að flytja út aftur. Þar höfðum við það betra fjárhagslega, þótti ósköp notalegt að vera á góðum leigumarkaði og höfðum mun meiri tíma með börnunum okkar. Nákvæmlega sömu sögu er að segja af svo til öllum vinum okkar.

Stolt okkar yfir því að vera Íslendingar er löngu farið hvort eð er. Því var sturtað niður í gróðærinu þegar hrokinn var að fara með ráðamenn og útrásarvíkinga. Það er best að flýja sem fyrst með börnin svo þau upplifi þjóðerni sitt annað.

Ég vona bara að það verði gleðilegt á lífeyrinum og að símasamband við útlönd haldist svo þið getið rifjað upp barnsraddirnar við og við.
Þið getið þá sagt þeim fallegu sögurnar af því þegar þið höfðuð tuskur fyrir hurðar og máluðuð gólf.. alveg sjálf.

Vinnandi námskona með börn, buru, Íls, Lín og vegabréf!

Nafnlaus sagði...

Vitið þið ekki hvernig bankarnir ráðlögðu fólki síðustu ár? Við skuldbreytingar á vanskilum lána voru fengið veð að láni hjá fjölskyldumeðlimum. Margir af frekjukynslóðinni eru veðsettir fyrir börnin sín af krútt-kynslóðinni!

Nafnlaus sagði...

Guðmundur, þú verður að svara því a.m.k. fyrir þitt stéttarfélag hvers vegna þið hafið tekið afstöðu með sjálftökuliðinu og gegn vinnandi fólki.

Eru lífeyrissjóðirnir nokkuð annað en mafíur í núverandi mynd? Hvers vegna eru lífeyrissjóðir að gerast bankar og lána til húsnæðiskaupa?

Hvers vegna eru lífeyrissjóðir að spila í hlutabréfaspilavítum?

Er ekki hlutverk lífeyrissjóðanna að ávaxta á öruggan hátt lífeyrisiðgjöld til elliáranna? Hver hefur gefið þeim leyfi til að spila fjárhættuspil með fjármuni launþega?

Það er sagt að það megi ekki afnema verðtryggingu því þá tapa lánastofnanir. Hinsvegar kemur aldrei fram að útlán myndu þar með lækka.

Er auk þess verjandi að drepa ungt fólk til að bjarga gömlu fólki? Er það ekki eldra fólkið sem hefur haldið um stjórnartaumana og komið þjóðfélaginu í þessa klípu? Eiga þau þá ekki að bera byrðarnar að einhverju leyti?

Nafnlaus sagði...

Verðtryggðir sparireikningar eru bundnir í 3 ár, er fjöldi almennings að spara þannig ? Hvers vegna tapa lífeyrissjóðirnir ef verðtrygging er tekin af ? Verð að viðurkenna fáfræði á þessu sviði, en eru þeir ekki að tapa tugmilljörðum á vissum fjárfestingum ? Bara til að komast nú e.t.v. að því (búin að greiða bísna lengi í sjóðina), - en nákvæmlega hvar væru þeir að tapa ef verðtrygging yrði lögð niður ? Eru þeir með stórar fjárhæðir á verðtryggðum innlánsreikningum ? Hélt þetta væri meira og minna allt í "fjárfestingum" og útlánum þeirra sjálfra.

Nafnlaus sagði...

Framhald frá síðustu setningunni áðan.
Útlánin eru auðvitað verðtryggð, en hækka ekki vextir svo um munar ef verðtryggingin er lögð niður ? Engin sanngirni er í að verðbólgutoppar eins og nú bætist við lánin. Það er staðreynd að fyrst þegar verðtrygging var tekin upp voru 1% vextir. Ég man eftir bréfi frá bankanum um að breyta láni sem ég var með úr óverðtryggðu í verðtryggt, BARA með 1% vöxtum. Hljómaði vel, en ég breytti ekki.