mánudagur, 17. nóvember 2008

Undanhaldið III - Hrakist viljalaust undan vandanum

Ítrekað hefur komið fram í pistlunum hér á síðunni, að blasað hafi við allt frá því í vor hvert stefndi. Ísland yrði að hefja tiltekt í efnahagslífi. Forsvarsmenn allra nágrannalanda okkar höfðu þegar í vor gert íslenskum ráðherrum grein fyrir þessu og það væri frumforsenda allrar aðstoðar. Aðilar vinnumarkaðs stóðu fyrir utan stjórnarráðið allt frá því febrúar með aðgerðaáætlun og kröfðust þess að stjórnvöld tækju á hratt vaxandi vanda.

Í stað þess gerðu ráðherrar ekkert og óku fram af brúninni með benzínið í botni án nokkurra merkja um bremsuför. Fullkomið forystuleysi, ekkert frumkvæði. Stjórnvöld hröktust viljalaus undan vandanum og tóku þátt í glaumnum.

Undanfarnar vikur hafa ráðherrar örvæntingarfullir þráast við að horfast í augu afleiðingar aðgerða- og ráðleysi sínu. Undanfarnar 7 vikur hafa þeir boðið upp á leiksýningar í fjölmiðlum með uppsetningu röð fáránleikaatriða. Aldrei liðu nema örfáar klst. þar til að utan komu athugasemdir við framsetningu íslenskra ráðherra. Við Íslandi blasir algjör auðmýking og niðurlæging. Rúið trausti við höfð að háði og spotti um alla veröld.

Það blasir við að ef ráðherrar hefðu sinnt aðvörunum og hafið aðgerðir í vor þá væru ekki allir þessir óendanlegu mörgu milljarðar að lenda á íslenskum almenning. Mitt í þessu öllu voga svo forystumenn stjórnarflokkanna sér að setja upp vandlætingarsvip fyrir framan alþjóð og segja að það séu engar forsendur fyrir því að víkja fjármálaráðherra, viðskiptaráðherra ásamt stjórnun Seðlabanka og Fjármálaeftirlits.

Íslenskir ráðherrar hafa tamið sér vinnubrögð alræðisvaldhafa. Engin skil á milli stefnumótunar og framkvæmdavalds. Öll samskipti þeirra einkennast af tilskipunum. En svo kom að þeir rákust á vegg, ríkisstjórnir allra nágrannalanda okkar sögðu hingað og ekki lengra.

Íslenskur almenningur hefur á fjölmennum fundum krafist afsagna þeirra sem bera ábyrgð, og augljóst er að það getur ekki dregist lengur.

12 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Guðmundur Gunnarsson - í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er farið yfir kjaramál.
Þar segir að þjóðin hafi staðið saman á erfiðum tímum, þjóðarsátt og fleira. Þannig verði það áfram.
Er það með þínu samþykki, sem eins forystumanns verkalýðsfélags á Íslandi?
Alma Guðmundsdóttir

Nafnlaus sagði...

Ég sé engan mun á þér, Gylfa Arnbjörns og öðrum verklýðsleiðtogum og Geira og Imbu. Ykkur er alveg mákvæmlega jafn mikið sama um alþýðuna. Mér verður flökurt bara á því að sjá Gylfa á mynd eftir "björgunaraðgerðina" sem hann náði að sjóða saman. Ykkur virðist vera alveg sama þó fólkið veini á hjálp. Af hverju látið þið ekki sjá ykkur með fólkinu? Hvar voruð þið á laugardaginn? Ætlið þið að mæta næsta laugardag? Stéttabaráttan er að fara fram núna fyrir framan andlitið á ykkur og þið eruð hvergi sjáanlegir! Það mikilvægasta virðist vera að halda einhverju kerfi sem er að setja fólk á hausinn. Af hverju eru ekki daglegir neyðarfundir hjá verklýðshreyfingunni um leiðir til þess að afnema þetta kerfi í staðinn fyrir að bæta einni bótinni en í það til þess eins að framlengja tilgangslaust líf þess? Það þýðir ekkert að segjast bara ætla að bíða eftir evrunni. Við getum það hreinlega ekki! Af hverju ætlið þið, að láta okkur sem keyptum íbúð bera allar birðarnar ein?

Nafnlaus sagði...

Ég er gersamlega sammála þér, Guðmundur. Er líka farinn að tortryggja ýmsa "bloggara" hér og á "Silfri Egils"; spurning hvort fasistarnir eru farnir að fylkja liði á móti almenningi hér á bloggsíðum að samanteknum ráðum? En ókei - við viljum sameinast gegn spillingaröflunum. HVAR ER VETTVANGURINN???

Nafnlaus sagði...

Líklega eru "Neyðarlögin" sem sett voru til að þjóðnýta bankana mestu mistökin sem stjórnvöld gerðu við að bregðast við þeim vanda sem upp var kominn vegna lausafjárvanda bankanna. Nokkurskonar "Appartheid" aðgerð í peningamálum þar sem innstæðueigendum sömu innlánstofnunar var mismunað á grundvelli þjóðernis. Líkt og með mörg önnur ólög sem Alþingi hefur samþykkt, að þá rann þessi vitleysa "lagatæknikratanna" í gegnum þingið athugasemdalaust. Nú var verið að bjarga sukkinu með því að slá skjaldborg um innstæður íslensks almennings, en erlendir aðilar máttu éta það sem úti frysi. Aðskilnaður innstæðueigeinda á grundvelli þjóðernis. Þingmenn sveipuðu sig þjóðrembu að afloknum gjörningnum og töldu að þar með væri búið að ná utan um vandann. Þó að íslenskur almenningur hafi kokgleypt þessa "fléttu" var ekki við því búið að erlendir aðilar gerðu slíkt hið sama. Bretar brugðust við með því að nýta hryðjuverkalög til að frysta eignir og aðrar þjóðir nýttu þá möguleika sem þær höfðu til að takmarka skaðann af þeim ólögum sem samþykkt voru á Alþingi og eiga eftir að verða okkur til háðungar um ókomna tíð.

Setning Neyðarlaganna kann hugsanlega einnig að hafa víðtækari afleiðingar en gagnvart sparifjáreigendum. Við því er að búast að upp hraukist stefnur og málssóknir innanlands og erlendis á hendur íslenska ríkinu vegna þessara laga og þeim aðgerðum sem það viðhafði í og við fall bankanna.

Nafnlaus sagði...

Davíð Oddsson er maðurinn sem eyðilagði Ísland.

Þegar ég hugsa um Davíð Oddsson sé ég fyrir mér
í huganum þessa mynd.

http://www.schikelgruber.net/images/lastpic.jpg

Þarna er Davíð ásamt yfirhugmyndafræðingi sínum Hannesi Hólmsteini
kominn upp úr bunker Seðlabankans.
Hann er að virða fyrir sér árangur verka sinna og að fá sér frískt loft.

NB! Á þessari mynd eru statistar.
Maðurinn til hægri sem lékur Davíð Oddsson heitir Adolf Schickelgruber eða öðru nafni Adolf Hitler.
Sá sem leikur Hannes Hólmstein heitir Jósef Göbbels.
Rústirnar eru ekta.
Myndin er tekin seinnipart apríl árið 1945.

Nafnlaus sagði...

Mig langar að spyrja eins og nr. 2 Hvar er verkalýðshreyfingin!!!!!!!
Er henni hótað með því að upplýst verði hversu miklu hún hefur tapað á braski síðustu ára?? Er það þess vegna sem hún þegir? Finnst engum þögn Ömma skrítin?

Nafnlaus sagði...

í 18 mánuði hefur verið stjórnarkreppa í landinu & í vikunni fyrir glitnir stimplaði bb sig út úr stjórninni þingið er dautt alræði ráðherranna en samt géta þeir ekki komið sér saman um neitt annað en sitja áfram

kveðja tryggvi

P,S. ef verð trygging er nauðsin af hverju er hún ekki á laununum

Guðmundur sagði...

Án þess að ég sé að ætli gera aths. við þeu sjónarmið sem fram koma. Þá aðeins :
Eitt; ég hef verið ræðumaður á þessum fundum hans Harðar Torfa á Austurvelli ræða mín er hér á þessari síðu.

Annað; Hörður Torfa hefur byrjað hvern einasta fund á því að taka það fram að þátttaka hvers konar samtaka sé afþökkuð.

Þriðja; það hefur ítrekað komið fram hjá forsvarsmönnum núgildandi efnahahagsstefnu að þeir vilji halda í krónuna, því þá sé svo auðvelt að lækka laun almennings.
Þriðja; það eru stjórnvöld sem setja lög og það voru þau sem afnámu verðtryggingu launa.

Fjórða; Hvert einasta atriði sem sett hafa verið fram í pistlunum um þróun efnahagsmál hefur komið fram. Sorry

Að öðru leiti vísa til þeirra sjónarmiða sem ég hef sett fram í pistlunum og þakka ákaflega jákvæð bréf og ummæli í minn garð.

Nafnlaus sagði...

Guðmundur !

Þú segir :

,,Þriðja; það hefur ítrekað komið fram hjá forsvarsmönnum núgildandi efnahahagsstefnu að þeir vilji halda í krónuna, því þá sé svo auðvelt að lækka laun almennings."

Þetta er það sem leiðtogar verkalýðsins hafa verið að gera undanfarin ár !
Þið hafið tekið þátt í einhverju ,,verðbólguviðmiði" með stjórnvöldum með handónýtan gjaldmiðil og peningastefnu, sem hefur sýnt sig vera ranga !

Að verklýðsleiðtogar hafi ekki sést, þá er það þannig að aðeins þú Guðmundur hefur fundað með þínum félögum !
Það eru liðnar sex vikur og eina sem sést hefur af verkalýðsleiðtogum , öðrum en þér, var þegar núverandi forseti ASÍ birtist í Mannamáli á stöð 2 og tilkynnti að hann væri að semja einhverja þjóðarsátt !


Kveðja

Jón

Nafnlaus sagði...

Guðmundur, bjóddu þig fram

Nafnlaus sagði...

"Hörður Torfa hefur byrjað hvern einasta fund á því að taka það fram að þátttaka hvers konar samtaka sé afþökkuð."

Lætur verkalýðshreyfingin stjórna sér af Herði Torfasyni ?
Mér finns þessi afgreiðsla í ódýrari kanntinum hjá þér.
Verkalýðshreyfingar eru verkfæri fólksinns og ef þær þora ekki að mæta á fundi hjá Herði Torfa verða þær einfaldlega að boða til fundar á öðrum tíma.
Sunnudagur, mánudagur, þriðjudagur, miðvikudagur, fimmtudagur, föstudagur... allt lausir tímar á Austurvelli, frá kl 8:00 - 24:00.
Kær kveðja, þrátt fyrir smá pirring vegna aðgerðaleysis hingað til sem ég vona að standi til bóta.
Atli

Nafnlaus sagði...

Guðmundur, takk fyrir góða punkta. Betur má ef duga skal. Rétt er það hjá þér að þú fluttir mjög gott erindi á einum af laugardagsfundunum og kann ég þér þakkir fyrir. Ég þykist þess viss að allir verkalýðsforkólfar eru velkomnir á þessa fundi, þótt ekki þeir haldi ræður. Ég vill hvetja alla leiðtoga verkalýðsins til að mæta næsta laugardag, með fána félaganna og sýna stuðning við almenning. Viltu biðja hina um að koma með þér, fána og borða, mótmælaspjöld og hvað annað sem þarf.

Ég vill líka koma með smá punkt í þá "góðmennsku" ríkisstjórnarinnar. Þar segir að þau ætli að breyta reglum á þann hátt að verði fólk gjaldþrota mun það geta leigt heimili sín af ríkinu (Íbúðalánasjóði). Mér finnst þetta eitt allsherjar bull. Af hverju má fólk ekki eiga sín heimili eins og áður ?
Ljóst er að ríkið mun tapa miklum peningum í gegnum íbúðalánasjóð hvort sem er. Margt fólk er með íbúðir sínar í erlendri mynt, lánin hafa vaxið skelfilega og í flestu tilvikum er skuldin orðin hærri en markaðsverð íbúða voru jafnvel á þeim tíma er markaðsverð var í hæstu hæðum. Ríkið mun tapa þessum peningum ef fólk verður gjaldþrota.
Mín tillaga er sú að ríkið muni hreinlega afskrifa þá hækkun sem varð við fall bankana, þannig að fólk verður með lánin á því gengi sem það tók lánin á. Fyrst að fólk þarf að eiga pening til að leigja heimili sín af ríkinu, af hverju má það þá ekki bara eiga heimilin áfram ? Eða, af hverju á fólk að borga leigu hjá íbúðaleigu ríkisins, verður sú stofnun kannski sett á laggirnar, íbúðaleiga ríkisins ?

Guðmundur, hvað segir þú um þetta ?

kveðja,
Árni Haraldsson