laugardagur, 1. nóvember 2008

Fækkum í sjálftökuhópnum

Hef fengið gríðarleg viðbrögð eftir viðtal í fréttum stöðvar 2 í gærkvöldi, sem var byggt á þessum pistli sem ég birti hér fyrir nokkur. Birti hann hér aftur með smávægilegum breytingum.

Eftir að hafa hlustað á umræður þingmanna undanfarna daga staðfestist trú mín að tilvist þeirra er tilgangslaus. Það eru ráðherrar og handvaldir embættismenn og aðstoðarmenn sem móta öll mál. Að þeirri vinnu koma þingmenn ekki, einu gildir hvort þeir séu stjórnarþingmenn eða í stjórnarandstöðu.Þegar ráðherrar hafa svo komist að einhverri niðurstöðu þá er hún lögð fyrir þingmenn.

Ef embættismenn eða aðstoðarmenn eru þeim ekki auðsveipir í mótun niðurstöðu eru þeir látnir fara. Síðan fara fram sýndarumræður í hæstvirtu Alþingi samansettar af klisjum og innistæðulausum fullyrðingum. Í sjálfu sér skiptir engu hvort einhver niðurstaða næst (sem reyndar gerist aldrei) eða lagðar eru fram breytingartillögur (þær eru alltaf felldar), stjórnarþingmenn þrýsta alltaf á „Já“ takkan í þinginu. "Umræðu lokið og áfram með sýndarveruleikann"; segir hæstvirtur þingforseti.

Þingmenn leggja stundum fram eigin frumvörp eða þingsályktunartillögur. Þær hafna í nefndum sem stjórnarþingmenn stýra. Ráðherrar ráða svo hvaða mál komast í umræðu nefnda og þaðan inn á þing.Landsmenn og skattgreiðendur spurðu í fyrra ; Hvers vegna fengu þingmenn að setja kosningstjóra sína á launalista sem aðstoðarmenn? Fá stjórnmálaflokkarnir ekki fyllilega nægilega mikla styrki úr ríkissjóð?

Af hverju erum við með 63 þingmenn og 34 aðstoðarmenn á glæsilegum launum þegar allt er skoðað. Kostnaðargreiðslur, þingfararkaup og svo ekki sé talað um lífeyrisréttindi.Það er einfalt að fækka þingmönnum um helming. Við höfum ekki efni á því að halda þessu óbreyttu og halda uppi þessum óþarfa með skattpeningum okkar. Nú er verið að segja upp almennum launamönnum í þúsundavís um allt þjóðfélagið. Röðin er núna kominn að þingmönnum. Þeir eiga að axla sína ábyrgð.

Af hverju erum við með 3 seðlabankastjóra, á meðan aðrar þjóðir, sem eru að spjara sig mörgum sinnum betur en við, eru með einn.

Af hverju eru íslenskir seðlabankastjórar með helmingi hærri laun en seðlabankastjórar annarra landa (þegar allt er talið)?

Af hverju erum við með einhverja úrelta þingmenn í stjórn Seðlabankans ásamt einhverjum prófessor í sagnfræði sem allir gera grín að? Þessir menn fá góð meðalheildarmánaðarlaun almenns verkafólks á mánuði fyrir fundarsetu. Auk þess eru þeir að eftirlaunum og prófessorinn er að auki á fullum launum í Háskólanum. Þetta lið hefur sýnt fullkomið getuleysi og eru hafðir að spotti í öllum fjármálatímaritum heimsins.

Þingmenn hafa komið því þannig fyrir að ávinnsla í lífeyrisréttinda þeirra er mun hraðari en hjá öðrum landsmönnum. Þeir geta farið á lífeyri þegar þeir eru 55 ára. Við þurfum að vinna til 67 ára aldurs. 12 árum lengur. Mótframlag ríkissjóðs í lífeyrissjóð þingmanna til þess að standa undir þessum kostnaðarauka er 45% á meðan hann er einungis fjórðungur af því hjá almennum starfsmönnum.

Lífeyrisréttindi þingmanna eru verðtryggð með framlögum úr ríkissjóð, á meðan við hin verðum að búa við skerðingu réttinda okkar vegna þess að lífeyrissjóðir okkar fá ekki bættan sinn skaða úr ríkissjóð og eru þar að undirstaðar þess að hægt sé að bjarga málunum.Við hin erum þessa dagana að tapa umtalsverðum lífeyrisréttindum vegna þess að þingmenn sinntu ekki eftirlitsstörfum sínum. Röðin er núna kominn að því að þeir axli ábyrgð og lífeyrisréttindi þeirra verði sett í sama far og hjá almennum launamönnum.

Auk þess verður að afnema Eftirlaunafrumvarpið gjörspillta. En það veitir ráðherrum, seðlabankastjóra, forseta Íslands og æðstu embættis mönnum gríðarlega mikil sértæk réttindi sem kosta skattgreiðendur 600 millj. kr. Hér er um að ræða liðið sem hefur farið um heimsbyggðina með auðmönnunum og hrósað sér fyrir glæsilegan árangur í (ó)stjórn efnahagsmála Íslands. Röðin er núna kominn að því að þeir axli ábyrgð á aðgerðaleysi sínu og óábyrgum athöfnum. Allt í kringum þessa menn liggja í valnum gjaldþrota einstaklingar og heimili.

Hvað með hina 9 hirðmenn Davíðs sem hann gerði að sendiherrum korter áður en hann hætti í pólitík, allir með milljón á mánuði og dýr lífeyrisréttindi sem Davíð veitti sjálfum sér og sínu jáfólki þráðbeint úr ríkissjóð um leið og hann smeigði inn í lög skattfrelsi til handa þeim sem stunda ritstörf og eru á eftirlaunum hjá ríkinu.

Með ofangreindum tillögum væri hægt að spara á þriðja milljarð króna. Ekki veitir af því þá þarf ekki að draga eins mikið saman þjónustu og ekki segja upp sjúkraliðum, kennurum og öðrum ríkisstarfsmönnum.

Af hverju eigum við ein að axla ábyrgð á þeim gríðarlegu axarsköptum sem þessir sjálfumglöðu og óhæfu menn hafa gert. Á meðan þeir búa í öruggu umhverfi sem þeir hafa girt af með allskonar lagakrókum þurfum við búa við um 20% atvinnuleysi eins og er orðið á vinnumarkaði byggingarmanna. Aðrir þurfa að búa við 10% lækkun launataxta og niðurskurð á vinnu, eða um 30% lækkun á heildarlaunum. Ef okkur tækist að fækka þeim um helmingi þá væri líka töluverða líkur á að mistökum þeirra fækki umtalsvert.

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Nauðsynleg breyting er ekki að fækka þingmönnum, heldur að gera þá launalausa. Það eru stuðningsmenn þeirra sem eiga að greiða þeim laun. Við eigum ekki að greiða þingmönnum laun í gegnum skattakerfið.
Þessi breyting myndi endurvekja lýðræðið og afnema spillinguna. Þetta myndi einnig þýða að síngjarnir peningapúkar myndu leita annað.
Þórður S

Nafnlaus sagði...

Breytingar strax, en hvernig, með hverjum og eru einhverjir til í tuskið? Ég er til! Ég hef bara ekki hugmynd um hvert og til hverra ég á að snúa mér!

Nafnlaus sagði...

Fækka þingmönnum STRAX.

Nafnlaus sagði...

Þetta er skelfilegt ástand sem hér ríkir og ef almenningur þessa lands tekur ekki til sinna ráða nú og stoppar þetta djöfuls sukk og svínarí þá er mér illa brugðið. Það er löngu tímabært að hér verði gerðar róttækar breytingar og þessu sjálftökuliði verði hent út. Það gerist þó ekki nema með samstilltu átaki þjóðarinnar og nú er lag. Hreinsum til og byggjum upp lýðræðislegt, heilbrigt jafnaðarsamfélag þar sem allir og þá meina ég Allir fá að njóta þess sem landið hefur upp á að bjóða. Ekki einhverjir fáir útvaldir einkavinir og velunnarar stjórnarherranna. Áfram Nýja Ísland. Peðersen

Nafnlaus sagði...

Hvað hefur lítil þjóð með höfðatöluna marg umræddu300þús íbúa að gera við 63 þingmenn með öllu sínu hafurtaski? Þeir ættu að vera í mesta lagi um 30-32!
Og svo hvað höfum við að gera með allan þennan flottræfilshátt að hafa sendiráð víðs vega um heim með tilheyrandi kostnaði - nú á tímum leifturhraða veraldarvefsins - LOKA ÞEIM flestum en halda einu í hverri heimsálfu sem sér um mál í þeim heimshluta!
Stjórnvöldin þurfa að byrja að taka til hjá sér með góðu fordæmi og spara í hvar sem hægt er við því að koma!
Leggja niður Forsetaembættið sem er nú orðið ekkert annað en lítið konungsdæmi fyrir snobblið!
Við erum reið og við viljum aðgerðir sem virka en ekki e-ð
sem skilur okkur almenning eftir með skuldahala næstu öldina sem verður arfleifð barna og barnabarna okkar!

Nafnlaus sagði...

Eigum við þá ekki að ganga alla leið og t.d. lækka laun formanna verkalýðsfélaga. Þeirra sömu félaga sem skilja félagsmenn sína eftir á köldum klaka við atvinnumissir??

Nafnlaus sagði...

Góð hugmynd að fækka í stjórnkerfinu. Af nógu er að taka: þingmönnum, aðstoðarmönnum þingmanna og utanríkisþjónustunni.
En hvað með sjálftökumennina í verkalýðshreyfingunni, af hverju er aldrei talað um að fækka þeim? Af hverju sitja verkalýðsforingjar í stjórn lífeyrissjóðanna? Af hverju berjast duglegir menn eins og Guðmundur ekki fyrir rétti launafólks til að standa utan verkalýðsfélaga ef það kýs svo?

Nafnlaus sagði...

Fólki er frjálst að standa utan verkalýðsfélaga. Þó eru nokkrar starfsmannahaldsdeildir sem vita/fatta það ekki.

Þá er um að gera að vera frekur og leiðinlegur. Það hefur virkað í mínu tilviki.

Það er þó ekkert djók að standa utan verkalýðsfélaga - sérstaklega þegar ástandið er eins og það er nú.

Tiltekt í öllu er orðin tímabær, hvort sem það sé á alþingi, stofnunum þess opinbera, í sveitarfélögunum, eða jafnvel hjá verkalýðsfélögum og lífeyrissjóðunum þeirra. Það er tilgangslaust að úthrópa einhverjum einum, það þarf eina alls herjar tiltekt á skerinu !!!


Öddi.

Nafnlaus sagði...

Það þarf að fara í gegnum allt hér á landi. Róta öllu upp og hreinsa til. Annars verður aldrei líft og engin leið að vinna sig út úr vandanum. Það er drep í sárinu og plástur dugar ekki til.

Kv.
Sigríður Guðmundsdóttir

Nafnlaus sagði...

Sammála mörgu sem kemur fram.
Hins vegar tel ég ekki skynsamlegt að fækka þingmönnum umtalsvert. En gerum í staðinn eftirfarandi. Aðskiljum löggjafavald og framkvæmdavald - ríkisstjórn á ekki að vera úr þingmannahópi. Gerum síðan landið að einu kjördæmi.