sunnudagur, 9. nóvember 2008

Íslenskur almenningur saurgaður

Alþingi var saurgað í dag, sögðu fréttamenn Stöðvar 2, þungir á brún. Ætíð þegar íslenskur almenningur reynir að mótmæla þá rísa fjölmiðlar upp og gera lítið úr mótmælum, hæðast af þátttakendum og lækka þátttakendatölur um að minnsta kost helming. „Skrílslæti“ er algengt orð hjá fréttamönnum ef einhver vogar sér að mótmæla stjórnvöldum.

Það var fréttastofan sem saurgaði almenning í gærkvöldi. Spaugstofan hefur tekið betur á málum almennings en fréttastofurnar.

Kastljósin og Mannmálin minnast ekki á að í Alþingi hafi íslenskur almenningur ítrekað verið saurgaður undanfarinn ár. Nei það hentar ekki, því þá geta fréttamenn átt von á því að fá ekki viðtöl við ráðherra. Ef þeir fá ráðherra í viðtöl, eru það þvílíkar helgislepjur og manni verður flökurt

Ég var í Noregi seinni hluta vikunnar og þar voru viðtöl við Björk og Gro Harlem Brundtland efst í sjónvarpsfréttunum. Þar var fjallað um mál sem ekki falla að sjónarmiðum íslenskra valdhafa og það hefur þar af leiðandi ekki náð inn í íslenska fjölmiðlum, nema kannski neðanmáls á bls 20.

Menntamálaráðherra Íslands var staðinn af því í sumar að misnota hrikalega dagpeninga úr sjóðum almennings. Hún hefur verið fastur gestur í sverum veizlum útrásarvíkinganna á dagpeningum frá almenning. Um daginn sagði hún án þess að blikka augum og athugasemdalaust af hálfu fréttamanna að hún vissi ekki hvort væru inni í heimilisbókhaldinu skuldir upp á nokkur hundruð milljónir og fullyrti að hún hefði ekki fengið neitt af skuldum sínum strikað út. Bara stofnað einkahlutafélag og sett skuldir sínar þangað.

Ekki hafa fréttamenn tekið á þessu og hún fær glansviðtöl við Sigmund í Mannamálum þar sem maður fær það í tilfinninguna að þau séu á leið í matarboð á Holtinu og nenni varla að standa í þessu.

Davíð fékk að tala athugasemdalaust heilt Kastljós og þó svo hann færi með hverja staðleysuna á fætur annarri gerði Sigmar engar athugasemdir og brosti sínu breiðasta og maður var viss um að hann hefði beðið um eiginhandarárritun að loknu viðtalinu. Það var nú annað upp á teningunum þegar verkalýðsforingi kom til hans. Þá missti Sigmar fullkomlega stjórn á sér, nú skildi almenningur fá að finna fyrir því. Ekki ætla ég að mæla athöfnum Gunnars Páls og eiginmanns Þorgerðar bót. Aðferðir þessara háskólamenntuðu manna í viðskiptafræðum eru óafsakanlegar. Það getur vel verið að einhver lögmaður, sem fékk reyndar um leið strikaðar út sínar skuldir, hafi fundið eitthvað gat í lögum, það breytir engu.

En viðhorf og vinnubrögð leiðandi fréttamanna eru alltaf svo niðurlægjandi gagnvart íslenskum almenning. Vitanlega ættu fréttmenn vera búnir að taka Þorgerði í gegn og hún búinn að segja af sér.

Lífeyrissjóðir eignuðust hluta í SR (Síldarverksmiðjur ríkisins) á sínum tíma og ég var spurður hvort ég vildi ekki setjast þar í stjórn. „Jú takk, það gæti svo sem verið ágætt að koma sjónarmiðum launamanna þar að“. Svo kom upp nokkru síðar að það átti að ganga fram hjá kjarasamningum við uppbyggingu verksmiðju SR í Helguvík og ég tók það upp á stjórnarfundi. Menn urðu undrandi og Mogginn splæsti á mig heilum leiðara þar sem ég var níddur niður og talinn misnota aðstöðu mína. Ég benti á að ég væri reyndar þarna sem fulltrúi þess fjármagns sem launamenn ættu og væri að koma á framfæri þeirra sjónarmiðum, hafði það reyndar fram. En það skildi Mogginn ekki og mér var hent út úr stjórninni á næsta aðalfundi og hefi ekki síðan þá setið í neinni stjórn fyrirtækja.

Íslenskir ráðamenn komast upp með athafnir í hverju málinu á fætur öðru, sem ekki er liðið í löndum sem teljast siðmenntuð. Þar má benda á ágæta upptalningu Gríms Atlasonar hér á Eyjunni í gær. Þar sem langur listi atvika þar sem forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins brjóta allar siðferðisvenjur þvers og kruss og fréttamenn sjónvarpsstöðvana brosa einungis við þeim í sínum velstraujuðu jakkafötum í Mannamálunum og Kastjósunum.

Hverjir eru það sem eru að saurga Alþingi íslendinga? Það er svo sannarlega ekki almenningur.

Ég veit svo sem að þessi pistill fellur í grýtta jarðveginn hjá fréttastofunum, og ég settur á svarta listann, en svona er þetta bara. Öll vitum við að það eru fréttastofunar bera ekki minnstu sökina á því hvernig komið er. Það eru þær ásamt stjórnmálamönnunum sem hafa saurgað Ísland.

18 ummæli:

Birgitta Jónsdóttir sagði...

Takk fyrir mjög góða og þarfa grein. Þetta orðalag á Stöð 2 var svo lygilegt að ég hélt fyrst að mér væri að misheyrast. Fjölmiðlar landsins hafa svikið þjóðina á örlagatímum.

Nafnlaus sagði...

Eins og venjulega, þú talar okkar máli, hinnar sauri ötuðu alþýðu. En einhverntíma var sagt; "Það saurgar ekki manninn, sem ofan í hann fer, heldur það sem út af honum gengur". Það eru þeir sem kasta saurnum, sem óhreinkast. En við þurfum að standa saman til að hegna þeim. Trúi því að þú verðið þar líka í forystusveit. Takk, Guðmundur!

Nafnlaus sagði...

Heyr heyr Guðmundur!

Menn þurfa ekki að óttast lengur að vera settir á þann svartan lista lengur því þar eru allir sem skipta einhverju máli og láta sig þjóðina varða og þora. Og það sést ekki á svörtu lengur...

Getuleysi íslenskra fjölmiðla er algjört, nema þá helst DV (hélt ég ætti aldrei eftir að segja þetta) en þeir eru illskársti kosturinn í dag. Ótrúlegt en satt.

Ég bíð enn eftir að stór hluti þjóðarinnar, sem hingað til hefur beðið á hliðarlínunni, rísi upp sem fyrst sjálfum sér og öðrum til varnar og heiðurs.

Ef ekki, þá eigum við þetta bara skilið og þeir sem eftir verða "taka pusið í hnakkann" en ég er farinn.

Nafnlaus sagði...

Mjög svo sammála, Guðmundur!

Það er verið að búa til "raunveruleika", en allir þeir sem ég hef heyrt í og voru til staðar á mótmælunum kannast ekki við þá mynd sem dregin var upp í fjölmiðlum.

Ég var ekki á staðnum, en það væri gott ef þeir sem voru það sendu ritstjórnum fréttastofa ábeningar um hvað þeim finnst um þá mynd sem dregin var upp í fjölmiðlum.

Helvítis, djöfulsins, andskotans....fjölmiðlaræflar. (sorry, en ég verð að blóta samkvæmt læknisráði, annars fer blóðþrýstingurinn upp úr öllu valdi).

p

Nafnlaus sagði...

Sjaldan hefur reiði almennings verið meiri og augljósari en þessar síðustu vikur. Hún kemur úr ótal áttum og flæðir nú yfir bakka sína eins og draga í vorleysingum. Þarna koma saman sameiginleg sárindi fólks sem finnst það hafa vera svikið (misnotað) af ráðandi öflum (foreldrum og vina- og venslaliði). Þeim aðilum sem áttu að vernda, vissu hvað var í gangi en ákváðu að hafast ekkert að - enda höfðu þau boðið til svallsins og notið veitinganna.
Þáttur fjölmiðla og fréttamógúla, t.d. varðandi mótmælin á Austurvelli minnir mig því miður dálítið á viðhorf ákveðins hæstaréttardómara í viðkvæmum misnotkunarmálum - að gera þolandann, þann sem brotið var á, þann sem rís upp, ótrúverðugan.

Björn Jónasson sagði...

Ef maður stendur frammi fyrir því að kjósa heiðvirðan mann sem maður er ekki alveg sammála eða þann veiklundaða sem er sama sinnis og maður sjálfur, þá á maður að velja þann heiðvirða og þann siðferðilega sterka. Þú ert einn af þeim sterku. Ég er innilega ósammála lausnum þínum, en ég myndi kjósa þig í hvaða ábyrgðarstöðu sem þú byðir þig fram í.
Björn Jónasson

Nafnlaus sagði...

Er þetta ekki gott dæmi um að fjölmiðlar og blaðamenn almennt eru að reyna halda vinnunni?

Nafnlaus sagði...

HDM

Guðmundur ég vil þakka þér fyrir þennan pistil og skrif þín í gegnum tíðina. Þjóðin þarf á HEIÐVIRÐUM mönnum eins og þér fyrst og fremst í að feta leið sína út úr þessu.

BURT MEÐ SPILLINGUNA!

Nafnlaus sagði...

Þetta veit á eitt, og það er að almenningur þarf að taka með sér myndavélar í næstu mótmæli til þess að vega á móti vilhöllum fjölmiðlum.

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir þessa þörfu fjölmiðlagagnrýni. Það er stórt orð saurga, þarna var á ferð reitt fólk sem henti nokkrum eggjum og jógúrtdósum í Alþingishúsið - ekki í Alþingi. Lái þeim hver sem vill. Það er hins vegar saurug hugsun sem kallar athæfið saurgun. Það er út af þessari fréttamennsku sem margt fólk þorir ekki að mæta á mótmælin á Austurvelli. Ein vinkona mín sem hefur mætt á hverjum laugardegi mætti ekki í gær af því að hún hafði heyrt í fréttum að það ætti að kasta eggjum. Annar sem ég þekki, þorir ekki að mæta vegna þess að hann er hræddur við að missa vinnuna ef hann þekkist á mynd. Ofan á allt rán valdhafa og bankamanna, sem heldur áfram á hverjum degi, er fólk hrætt við að láta skoðanir sínar í ljós. Og ofan á það kallar Fréttastofa Stöðvar 2 eðlileg mótmæli saurgun. Eru þessir menn á mála hjá valdhöfum? Eða eru þeir einungis litlir kallar sem þrífast á því að "stóru kallarnir" brosi til þeirra?

Nafnlaus sagði...

Mjög góður pistill!

Íslenskir fjölmiðlar hafa tekið afstöðu með stjórnvöldum eins og oftast þegar kemur að umfjöllunum um mótmæli sem íslenskur almenningur stendur fyrir!

Ég leyfi mér að setja tengil inná videó (ljósmyndir og video) sem ég gerði um þessi mótmæli.

Youtube Video

ps. vona að þetta virki hjá mér. :)

Nafnlaus sagði...

Takk Guðmundur. Ég er sammála þér að fjölmiðlar hafa brugðist fólkinu. Og moggablaðakonan unga sem talaði í Iðnó og átti svo bágt af því hún vissi ekki hver ætti blaðið lýsir því vel að blaða- og fréttamenn á Íslandi þóknast sínum vinnuveitendum áður en þeir þjóna almenningi. Í dag vita ekki blaðamenn dagblaðanna hvaða stöðu þeir eiga að taka því þeir voru ráðnir vegna tengsla.
Það er búið að eyðileggja heilu kynslóðirnar af fréttafólki.

fréttafíkill sem fær bestu fréttirnar um Ísland úr erlendum fjölmiðlum og íslensku bloggi.

http://this.is/nei
http://vald.org
http://jonas.is
http://eyjan.is/silfuregils
http://www.borgarafundur.org
http://larahanna.blog.is
http://www.nyjaisland.is
http://www.nyirtimar.com
http://kjosa.is
http://okurvextir.blogspot.com
http://blogg.visir.is/bensi/2008/11/08/ver%C3%B0tryggingin-agust-olafur-og-samfylkingin

Nafnlaus sagði...

Góð grein.
Það eru fréttamenn sem niðurlægja sjálfa sig með fréttafluttningi, ótrúlegur undirlægjuhugsunarháttur hjá þeim.

Rögnv.

Nafnlaus sagði...

Góð grein og þörf.
Trúverðugleiki verkalýðsforistu er hins vegar ekki mikill og þá er ég ekki eingöngu að tala um spillingu formanns VR, stuðning stjórnar VR við spillingu formanns síns, stuðning trúnaðarmanna VR við spillinguna og stuðning forseta ASI við þessa spillingu. Ég er að tala um þá staðreynd að þessi félög semja um greiðslur beint frá atvinnurekendum, ég er að tala um mannréttindabrot á ríkisstarfsmönnum, að þeir geti ekki valið um hvort eða í hvaða verkalýðsfélagi þeir eru. Og síðast ekki ekki síst mannréttindabrot á rétthöfum lífeyrissjóða þar sem vald sjóðanna er stolið af þeim og sett í hendurnar á rekstraraðilum þeirra án þess að rétthafar geti svo mikið sem valið þá rekstraraðila. Ástæða þess að þú sast í þessari stjórn og ástæða þess að formaður VR sat í stjórn stærsta fyrirtækis landsins og eins og dæmið sýnir, tekur afstöðu gegn lífeyrissjóðum og almenningi til þess að færa eignir þeirra í vasa stjórnenda KB.

Nafnlaus sagði...

En hvað er SR, Guðmundur.
Þetta sama hefði formaður VR átt að gera. Hann átti að gæta hagsmuna sinna sjóðsfélaga en ekki bara eigin hagsmuna.

Nafnlaus sagði...

Guðmundur !

Það er rétt með fjölmiðla og fjölmiðla fólk, pólitíska þjónkunin er algjör !
Það verða sennilega tugir þúsunda sem mæta á næstu mótmælastöðu !

Jon Steinar sagði...

Þakka frábæran pistil. Það er líka vert að skoða hvað lygin er megn í því sem fjölmiðlar segja ekki og hversu athyglisbrestur spyrjenda er gríðarlegur þegar stjórnmálamenn henda sínu stofnanamáli og lagajargoni fram. Eins og þegar Geir sagði að Alþiginu yrði gert grein fyrir skilyrðum IMF, þegar FORMKRÖFUM væri fullnægt. Semsagt.Formkröfur þýðir skilyrði á lagamáli og því sagði hann beint að hann væri að hunsa kröfurnar um gagnsið.
Nú síðast sá ég að hinn norski hernaðarráðgjafi er sagður hafa verið fenginn sérstaklega frá noregi til að sinna aðgerðaráætlunum og neyðaráætlunum eftir. Hann hefur sennilega ekki komið til noregs lengi því hann var starfsmaður Glitnis allan tímann og hefur verið um langan tíma.
Ég eyði svo ekki plássi í meira í bili.

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir góda grein.
Thad er fjølmidlastéttinni til algerrar skammar, hvernig hún sinnir málum. En thad er líklega thad, ad fjølmidlarnir eru einmitt ekki óhádir. Thetta er fólk sem er jafn hrætt um ad missa vinnuna eins og hver annar. og thar med er ekki hægt ad stóla á thá fréttamennsku. Thad er ekkert hægt ad taka mark á thví. Annar raunveruleiki. En ég spái í hvort thad séu ekki margir fréttamannanna/kvennanna, med æluna upp í háls, af thví sem thau segja. Eda er kannski engin sjálfsgagnrýni.