sunnudagur, 9. nóvember 2008

Uppreisn

Nú eru liðnar 6 vikur frá hruninu og enn reynir ríkisstjórninn að böðlast áfram á sama bílnum með sama mannskapinn eftir sama farinu. Engu á að breyta. Almenningur mótmælir allri óvissunni og krefst breytinga. Er með skrílslæti eins og forsvarsmönnum valdaflokksins er tamt að segja þegar almenningur vogar sér að mótmæla.

Er í stjórn sambands norrænna byggingarmanna, sem eru samtök með vel á aðra milljón félagsmanna. Flutti erindi um stöðuna á Íslandi á þingi þeirra í Osló á fimmtudaginn. Norrænir menn eru okkar bestu og traustustu vinir, á vissan hátt samlandar. Enda eru tugþúsundir íslendinga búsettir á Norðurlöndum og hér heima eru enn fleiri þúsundir sem hafa búið þar í lengri eða skemmri tíma, annað hvort við nám eða störf ef ekki hvort tveggja.

Í umræðum við lok erindisins kom fram að við nytum stuðnings norrænna félaga, en það væri skoðun þeirra að það væri sama og kasta fjármunum á glæ að lána okkur peninga, ef ekki yrði gerð yrði breyting á stefnunni og skipt um stjórnendur. Ef íslendingar fáist ekki til þess, stæðum við einfaldlega enn verr og skulduðum enn meira. Værum enn fjær því að ná tökum á erfiðleikunum.

Það er eins og íslenskir ráðamenn trúi enn á spádóma greiningardeilda bankanna, sem snérust um að auglýsa batnandi stöðu krónunnar og fá fólk til þess að koma með fjármagn í bankana. Á sama tíma voru aðrar deildir í sömu bönkum að taka stöðu gegn krónunni og unnu að hrapi hennar. Nú vill ríkisstjórnin fá hundruð milljarða að láni og setja í hendur á sama fólkinu og kom bönkunum og þjóðfélaginu á kaldan klaka

Það er einfaldlega skelfileg tilhugsun að það þurfi uppreisn almennings til þess að rífa þjóðfélagið undan þráhyggju núverandi stjórnvalda. En forsætisráðherra og fylgismenn hans hæðast af Evrópusambandinu og evrunni og óttast að þurfa að axla ábyrgð afleiðinga efnahagsstefnunnar.

Á meðan falla heimilin og fyrirtækin.

16 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Íslendingar -- og íslenskir fjölmiðar -- gera sér ekki grein fyrir því hvað það þýðir að Svíar hafi fengnir til að vera í farabroddi vegnar hinnar alþjóðlegu fjársöfnunar fyrir Ísland sem nú stendur yfir.

Hvorki stjórnvöldum né eftirlitsaðilum er treyst fyrir peningunum. Og samband Íslands við önnur lönd er svo arfa lélegt að Norrænir frændur okkar þurfa að leggja til sinn eigin trúverðugleika til að fá aðrar þjóðir til að íhuga lán til Íslands. Þetta sést best á því að Svíar voru búnir að handsala lánsloforð frá Pólverjum áður en íslenski forsætisráðherrann haðfi hugmynd um það.

En þetta fjalla íslenskir fjölmiðlar ekki um. Því miður.

Takk fyrir að opna þennan vinkil á umræðunni.

Oddur Ólafsson sagði...

Það er bara eitt í stöðunni.

Þessi ríkisstjórn fari frá og síðan taki við minnihluta- eða utanþingsstjórn undir forystu Steingríms J Sigfússonar. Síðan verður að kjósa eins fljótt og hægt er.

Það er ekkert annað í stöðunni.
Flokkurinn og Samfó eru búin að klúðra sínu tækifæri. Þjóðin hefur ekki efni á þessari óstjórn.

Nafnlaus sagði...

já kallinn, þetta er einhver ótrúleg þráhyggja sem Flokkurinn er í og afneitun að það hafi orðið algjört strand í okkar málum. Því miður þá erum við þannig stödd að valdið er hjá manni sem lemur hausnum við stein og hann heldur að hann geti bjargað málunum. Ég hef það á tilfinningunni að hann sé að reyna að bjarga sínum orðstýr frekar en þjóðinni. Það eina sem getur bjargað þessu landi er að SA og ASÍ taki völdin í sínar hendur og komi fram með lausn sem allir geta sætt sig við.

kv.

frv. atvinnurekandi

Unknown sagði...

Nafnlaus sagði...

Hvað þarf marga til að setja seðlabankann í herkví,,einfaldlega slá hring um hann og sjá til þess að enginn fari inn. Byrja á því síðan stjáornarráðið. Þarf ekki að brjóta neinar rúður eða kasta matvælum. Láta Björn Bjarna sýna sitt rétta andlit. Ég er til hvenær sem er. Tvö þúsund menn geta valdið vandræðum. LOKUM SEÐLABANKANUM þar til Davíð er farinn frá.

Nafnlaus sagði...

ESB er sálarlaus ófreskja sem étur börnin sín og þig líka ef þú álpast þangað inn. Ef þú vilt einræði og ert á móti þjóðaratkvæðagreiðslum er ESB með Lissbon sáttmálanum eitthvað fyrir þig.

Nafnlaus sagði...

a) Neyðarstjórn. Utanþingsstjórn með umboð til tiltekins tíma. (Við þurfum stjórn sem nýtur trausts)

b) Útlendar rannsóknarnefndir rannsaki hrunið; einkavæðingu bankanna og starfshætti; starfshætti stjórna stærstu almenningshlutafélaganna sem voru.

c) Hundahreinsun í embættismannakerfinu.

d) Kosningar.

Rómverji

P. S.

Burt með eftirlaunaóþverrann. Ekki til hálfs heldur bara burt með misréttið!

Nafnlaus sagði...

Guðmundur, þú hefur lög að mæla. Hvernær er nóg orðið nóg? Er þessi auma ríkisstjórn að bíða eftir blóðugum átökum, ég bara spyr. Það kemur ekki svar frá IMF á morgun og sennilega ekki hinn heldur. Eftir hverju er að bíða? Langar til að spyrja þig hvort þú kannt skýringar á því hvers vegna verkalýðsforystan hefur ekki tekið forystu í að lýsa yfir vantrausti á þessa handónýtu ríkisstjórn? Er skýringinuna að finna í nánum tengslum hennar og Samfylkingar? Ný utanþingsstjórn getur ekki verið verri en sú sem nú situr. kveðja,Fríða

Nafnlaus sagði...

Góður pistill Guðmundur.
Er ekki ábyrgð launþegaforystunnar orðin þónokkur í því ástandi, sem nú ríkir. Hvernig væri að forystusveitir allra launþegasamtaka, kæmu sér saman um ályktun gegn stjórnvöldum og þeirra stjórnleysi? Sýnið nú dug, þor og samstöðu, þjóðinni til heilla.
Burt með spillingarliðið!

Nafnlaus sagði...

Guðmundur, það er æði margt til í þessu. Mér blöskraði umfjöllun fjölmiðla á mótmælunum. Því miður er staðan þannig að engin þjóð treystir íslenskum stjórnvöldum lengur. Því bíður öll fyrirgreiðsla. Það mun að öllum líkindum draga til tíðinada bráðlega í mótmælum ef ekkert breytist hjá stjórnvöldum er ég hræddur um.

Nafnlaus sagði...

Guðmundur !

Stóðst þú að því að velja nýjan forseta ASÍ ?
Ef þetta er mannvalið úr fólki innan ASÍ, þá erum við illa stödd !
Var að hlusta á Gylfa forseta ASÍ áðan í Mannamáli á stöð 2.
Eina sem situr eftir er þetta : bla, bla, bla ,bla ,bla bla, bla , bla og meira bla , bla !
Er þetta allt sami ,,klúbburinn" , pólitíkusar, atvinnurekendur og verkalýðsleiðtogar ?
Ekki sér maður neitt bjarta framtíð með þennan mann í brúnni hjá ASÍ !

bla, bla, bla , bla !!!!

Guðmundur !

Nafnlaus sagði...

Datt í hug að hér væru einhverjir sem hefðu gaman og áhuga á að lesa smá hugleiðingar fyrrverandi Flokksmanns.

http://jonthorvardar.blog.is/blog/jonthorvardar/entry/705429/

Nafnlaus sagði...

Já ég er sammála þessu með Gylfa Arnbjörnsson, hann er ekki að gera neitt fyrir okkur annað en að blaðra. Hann var í sunnudagsviðtali í Mogganum um daginn, þar sem hann dásamaði verðtrygginguna og talaði um að hún gæti hjálpað okkur!!! Maðurinn veit greinilega ekki hvernig það er að sjá lánin rjúka upp um hundruðir þúsunda á mánuði meðan launin lækka. Ætli hann sé ekki á sæmilegum launum sem forseti ASÍ.

Nafnlaus sagði...

Eitt af þeim verkefnum sem bíða okkar er að hreinsa til í verkalýðsfélögunum. Fyrir nokkrum mánuðum síðan sat ég fund með fráfarandi og núverandi forsetum ASÍ.
Þegar ég kom út af þeim fundi fann ég hversu illa brugðið mér var. Spurði sjálfan mig hvað eftir annað: Eru þetta virkilega forustumenn verkalýðsins á Íslandi. Sjaldan hitt aðra eins teknókrata og risaeðlur. Þessir menn eru svo gjörsamlega úr takti við almenning að hálfa væri nóg.
Gylfi getur auðveldlega séð hálfa þjóðina missa húsnæði sitt út af verðtryggingunni án þess að snúast hugur. Reiknistokkur hans segir honum allan sannleikann í því máli.
Þykist vera að verja lífeyrissjóðina. Hverjir borga í þá sjóði? Alþýðan í þessu landi! Þau prósent sem atvinnurekendur borga eru umsamin launahækkun og því hluti af launum hvers launamanns.
Hvers virði er verðtryggingin þegar fólk er hætt að greiða í lífeyrissjóð (nema þá af lúsarupphæð atvinnuleysisbóta) og helmingur eða meira af eignum hér á landi verða komnar í eigu lífeyrissjóðanna og bankanna? Reiknistokkur Gylfa getur ekki tekið svona breytur inn í reiningsdæmið og því heldur hann áfram að verja verðtrygginguna fram í rauðan dauðann.

Nafnlaus sagði...

Því miður finnst mér eins og á Alþingi sitji tveir menn. Einn þeirra fer 68% atkvæða og hinn 32%. Ekki 63 þingmenn sem allir greiði atkvæði samkvæmt sinni samvisku. Nú þarf þing sem getur greitt atkvæði um mál sem kljúfa flokka. Í þeirri pattstöðu sem nú er í íslenskum stjórnmálum tel ég að tímabundin leynileg atkvæðagreiðsla þingmanna geti komið hlutum á hreyfingu.

Nafnlaus sagði...

Íslendingar eru ekki þjóð heldur 300
og eitthvað þúsung einstaklingar
sem hugsa bara um sinn eigin hag
Samstaða er ekki til og mun aldrei
verða til
KERFIÐ MUN SIGRA