Tófan er farinn að rápa um húsgarða í þéttbýli segja fréttir. Rebbi hefur fengið frið og gengur á lagið. Rjúpu fækkar, skyttur bölva og jólavenjur eru í hættu. Skolli er klókur og duglegur að bjarga sér, fjölgar sér hratt sé til þess svigrúm.
Þessa þróun hefur maður séð um alllangt tímabil í ferðum um Hornstrandir. Melrakki hefur áttað sig á að honum er ekki bráður bani búinn nálgist hann manninn. Frekar að nálægðin sé launuð með góðum bita og kátum kveðjum. Nú er svo komið þegar sest er við tjaldskörina að kvöldi við eldamennsku, kemur Rebbi og sníkir bita og fær fagnandi móttökur, en lætur ekki þar við sitja bölvaður. Ganga þarf vel frá vistum að kvöldi inn í tjaldi, annars stelur Skuggabaldur því yfir nóttina. Gaggandi sendir hann tjaldbúum kveðjur úr hlíðinni ofar tjaldstæði.
Ef gengið er til veiða verður að huga að heildstæðri mynd. Ekki verður einn hluti keðjunnar veiddur og svo undrast að hlutföll raskist. Ef veiddar eru tilteknar tegundir í hafi, en aðrar látnar eiga sig, þá fjölgar þeim og hlutföll raskast.
Dýrbíturinn er mun duglegri en við til veiða. Fjölgar sér og sækir ekki bara í fuglinn tekur einnig eggin. Að því loknu sækir hann til byggða, hann er fallegur, það er rjúpan líka.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli