sunnudagur, 9. desember 2007

Eru viðhorf til umhverfisverndar tekjutengd?

Það gætir vaxandi svartsýni vegna þróunnar efnahagsmála og vaxandi fjöldi hagfræðinga telur að við komum til með að fá harðan skell vegna þess að þenslan hafi verið of mikil og efnahagskerfið sé að fara úr skorðum.

Íslenskt hagkerfi er lítið og hefur alllengi sveiflast reglulega frá miklum uppgangi til djúpra dala. Mikið atvinnuleysi og þá var rokið til að kaupa skuttogara og reisa frystihús í nánast hverjum firði. Og svo kom 1967 Búrfellsvirkjun og álverið í Straumsvík og svo geysilega djúp niðursveiflu þar á eftir. Tæplega 1000 íslendingar urðu að gerast farandverkamenn og flytja til norðurlandanna árin 1970 til 1977.

Ef við förum nær okkur í tíma þá má minna á ástandið milli 1989 – 1995 með allt að 20% atvinnuleysi og svo aftur upp úr 2000. Í öllum þessum tilfellum voru háværar kröfur almennings til stjórnmálamanna um að þeir gripu til aðgerða til fjölgunar atvinnutækifæra. Aðgerða þar sem virkjunum var fjölgað og fundnir voru aðilar sem vildu reisa orkufrekar verksmiðjur. Járnblendið, stækka Straumsvík, Norðurál og svo síðast Kárahnjúka og álverið í Reyðarfirði.

Á undanförnum árum hefur umræða um umhverfið, orkuverin og verksmiðjur verið fyrirferðamikil. Fram hafa komið sjónarmið sem ganga jafnvel svo langt að það verði ekki virkjað meira. Margir hafa uppgötvað að gufuaflsvirkjanir eru síst minna umhverisspillandi en vatnsaflsvirkjanir.

Þar má benda á Hellisheiðina sem er búið að leggja vegi og rör um nánast gjörvalla heiðina. Í þessu sambandi má benda á að lón við virkjanir í neðri hluta Þjórsár fara einungis 10% út fyrir núverandi farveg árinnar. Aldrei hefur nokkrum manni dottið í hug að gera nokkar athugasemdir þó bóndi kalli til stórvirk jarðvinnslutæki og taki fleiri tugi hektara lands undir tún eða önnur mannvirki, sem nú virðast vera náttúruvætti á þessu svæði, sé litið til ummæla nokkurra einstaklinga.

Ég er ekki að draga þetta fram vegna þess að ég sé að hvetja til þess að allt verði virkjað. Ef við erum raunsæ og rifjum upp ummæli okkur sjálfra þegar atvinnuleysi var og sú staða var að mörg okkar máttu þakka fyrir að fá að vera á strípuðum dagvinnutöxtum. Hver voru viðhorfin þá? Erum við tilbúinn til þess að minnka neyslu okkar og hægja á lífsgæðakapphlaupinu?

Það væri kannski réttara að spyrja; Getum við það? Hratt vaxandi fjöldi íslendinga stóðst ekki freistingarnar sem lagðar voru á borð þeirra af bönkunum fyrir nokkrum árum þegar heimild við veðsetninga húsnæðis var aukinn upp í 100%. Margir keyptu sér húsnæði og innréttuðu það ríkulega. Margir aðrir seldu sitt húsnæði og byggðu enn stærra og fjárfestu í leiðinni í dýrum bílum. Það leið ekki langur tími þar þetta fólk var komið með yfirdráttarlán að auki.

Mjög mörgum fjöldskyldum var bjargað með skuldbreytingum af starfsmönnum verkalýðsfélaganna og lífeyrissjóðum þegar atvinna tók mikla niðursveiflu í kringum 1990. Þá var svigrúm til þess, sakir þess að þá var veðsetning íbúða og húsa um 40 – 50% og yfirdráttarlán þekktust ekki. Í dag er engin undankomuleið því allt er veðsett í botn og til viðbótar eru allmörg heimili rekin á milljón króna yfirdráttarláni með 20% vöxtum.

Fjölmargar fjölskyldur eru þegar búnar að missa húsnæði sitt á nauðungaruppboð og ég þori ekki að hugsa þá hugsun til enda hver staðan yrði ef við fengjum yfir okkur 10 – 20% atvinnuleysi og til viðbótar færu margir á strípaða dagvinnutaxta.

Erum við búinn að setja okkur í þá stöðu að við munum velja þá leið að reisa álver í Helguvík, Húsavík, Þorlákshöfn með tilheyrandi virkjunum. Eða kannski enn frekar að við erum í þeirri stöðu að verða að gera það?

Engin ummæli: