sunnudagur, 23. desember 2007

Hvert viltu fara? Jólapæling

Peningar blinda menn oft og verða að kjarna lífsins, jafnvel þó Jesú hafi varað okkur við og sagt að það væri auðveldara troða úlfalda í gegnum auga stoppunálar en fyrir auðugan mann að komast til himnaríkis. Of margir feta í spor bóndasonarins, þegar hann hafði eignast hanann, ásældist hann alikálfinn.

Eigendur fjármagnsins telja að þeir hafi forgang að þeim arði sem hin vinnandi hönd skapar, arðsemi hlutafjár kemur fyrst svo starfsfólkið. Þar liggur orsök þess ófriðar sem ætíð mun ríkja á vinnumarkaði. Peningar eru til lítils ef ekki er til staðar þekking til þess að nýta þá. Ágirnd leiðir eilífrar fátæktar. Kynlífsþrælkun, barnaþrælkun og atvinnukúgun starfsmannaleiga eru orðin áberandi mein á hinu vestræna samfélagi og viðhorf gegn þessu deifast. Þar er hin blinda auðhyggja að nýta sára fátækt til þess að ná arði. Ef hinn bláfátæki sættir sig ekki við það sem að honum er rétt, þá er honum umsvifalaust hent á dyr í atvinnuleysið og örbyrgðina.

Öfgakenndir hægri menn hafa ítrekað reynt að koma í gegn heimild innan Evrópusambandsins um að miða eigi við laun í upprunalandi vinnuafls, ekk á því svæði þar sem vinnan fer fram. Valdamestu ríkin í Evrópusambandinu með Frakkland í broddi fylkingar hafa staðið gegn þessu. Þau hafa bent á það í málflutning sínum, að nái Frjálshyggjumenn sínu fram, jafngildi það að vinnumarkaður Evrópu taki hraðlest niður til þeirra kjara sem lægst eru á Efnahagssvæðinu. Það er einmitt það sem málsvarar forsvarmenn auðhyggjunnar vilja, svo þeir geti hámarkað arð sinn á kostnað hinna bláfátæku launamanna, og nýta sér ástand þeirra svæða þar sem atvinnuleysið er mest og kjörin lökust. Evrópuríkin stofnuðu með sér samband til þess að auka atvinnu og velmegun, okkur hefur orðið töluvert ágengt lífskjör fara batnandi. Við erum að berjast fyrir sjálfsvirðingu og atvinnuöryggi þannig að starfsmaðurinn geti horfst í augu við vinnuveitanda sinn ekki á skó hans.

Einn af sjóliðsforingjum Napóleons sagði honum þegar hann kom heim frá Loocho eyju að þar væru engin vopn. Napóleon furðu lostinn; “Hvernig í ósköpunum fara þeir að því að berjast?” Svarið sem Napóleon fékk var; “Þeir berjast aldrei, þeir eiga nefnilega enga peninga.”

Bush og skoðanabræður hans eru krossfarar nútímans og fara í skjóli ofstækisfullra trúarskoðana og eyða gífurlegum fjárhæðum í vopn. Þeir myndu ná mun lengra og meiri árangri í baráttu sinni gegn hryðjuverkum með því að byggja upp atvinnulífið og gera fátækum launamönnum kleift að berjast fyrir auknum réttindum. Staða bláfátæks fólks leiðir til vonleysis og reiði. Þar skapast frjósamur jarðvegur fyrir uppeldi hryðjuverkamanna. Þar er auðvelt að ná til ungs fólks sem býr í vonleysi láglaunasvæðanna og sannfæra það um nauðsyn óhugnanlegra hryðjuverka.

Í ævintýrinu um Lísu í Undralandi kemur hún að gatnamótum og spurði kött sem þar staddur; “Getur þú nokkuð verið svo vinsamlegur að segja mér hvaða leið ég á að fara?”
Kötturinn svaraði um hæl; “Já, það fer nú heilmikið eftir því hvert þú vilt fara.”
Lísa svaraði “Æi, það skiptir ekki svo miklu máli hvert ég fer!”
Þá svaraði kötturinn sposkur;” Nú, þá skiptir heldur ekki máli hvaða leið þú velur!”

Lífið er fullt af áskorunum og viðfangsefnum, til að ná árangri og lífsfyllingu verðum við að gera upp við okkur hvert viljum stefna. Of oft gerum við það án þess að leggja nokkurt mat á hvert við stefnum og hvað við þurfum að forðast. Hamingjan er ekki við næstu gatnamót og við þurfum ekki að fara langar leiðir til að finna hana. Hún er við hlið þér, felst í þeirri ákvörðun að njóta hennar.

Framtíðin er nokkuð sem maður nær með 60 mínútna hraða á klukkustund, sama hversu gamall þú ert. Ekki dreyma um framtíðina, hún gefur þér ekki hið liðna aftur, hún byrjar í næsta skrefi.

Sendi lesendum kveðjur um gleðileg jól.

Engin ummæli: