Þegar varnarliðið fór fengum við íslenskur almúgi gefins allar húseignirnar á vellinum. Forsvarsmenn Þórunnarfélagsins mættu í fjölmiðla og lýstu því fjálglega hversu glæsilegar og velbúnar íbúðir þeim hefði áskotnast. Við vorum nokkrir sem bentum á að þetta væri nú ekki endalaus alsæla og raðfullnæging, því t.d. þyrfti að endurnýja allar raflagnir og allt dreifikerfið. Sama gilti um öll raftæki í íbúðunum. Við bentum á að væri miðað við þekktar þumalputtareglur þá væri kostnaður vegna þessa ekki minni en um 3 milljarðar. Til okkar sauðsvarts almúgans litu Menn með þjósti og forundran og hreyttu út úr sér; „Kaninn hefur notað þetta árum saman, hvers vegna er það ekki nógu gott fyrir okkur?“
Rafmagnseftirlitið fór suður eftir og staðfest allt sem við sögðum í nóvember 2006 og sagði að ekki kæmi til greina að flutt væri inn í íbúðirnar fyrr að loknum lágmarksviðgerðum. Það var litið til þeirra af Mönnum með háðskum valdsmannssvip og auglýstar glæsilegar og velbúnar íbúðir fyrir ungt fólk.
Þegar komið var að því að unga fólkið flytti inn, var Þróunnarfélaginu bent á niðurstöðu Rafmagnseftirlitsins og það væri einfaldlega endanleg niðurstaða og framhjá henni væri ekki gengið. Þá tóku Menn leigubíl til Reykjavíkur og drukku morgunkaffi með ríkisstjórninni og pöntuðu bráðbirgðalög, sem voru gefin út eftir að búið var að renna niður súpunni í hádeginu.
Forsætisráðherra mætti svo í viðtal svaraði spurningu fréttamanns um hvernig á þessu stæði með því að segja; „Þetta er smámál sem tekur því ekki að tala um.“ Viðskiptaráðherra stóð gleiðfættur í fyrir framan sjónvarpsvélarnar dró annað augað í pung hellti úr eyrunum og sagði; „Við ætlum sko ekki að standa gegn uppbyggingu á Suðurnesjum.“ Almenningur horfði undrandi á og spurði; „Var einhver að tala um það?“
Verið var að brjóta allar gildandi jafnræðisreglur hér á landi og á Evrópska efnahagssvæðinu með því að kippa öllum rafmagnsreglugerðum úr sambandi fyrir einn aðila og spara honum þar með útgjöld upp á 3 milljarða. Auk þess var það hitt smámálið að öryggi 350 fjölskyldna var ýtt til hliðar fyrir hagsmunum Manna. Þrónnnarfélagið hafði haft vitneskju um það í 8 mánuði að endurnýja þyrfti allar raflagnir á svæðinu en ekkert gert, og þrátt fyrir þessa vitneskju auglýstu íbúðirnar á fölskum forsendum og gefið vísvitandi rangar upplýsingar í viðtölum og auglýsingum.
En alvaran náði þó að hluta til upp á borð Manna og þeir ruku af stað og fengu alla rafvirkja sem fundust helgina áður en byrjað var að flytja inn í íbúðirnar til þess að hefja lágmarksviðgerðir. Unnið var dag og nótt til þess að bjarga því sem bjargað yrði. Á meðan á þessu stóð var sendur í viðtal til Sjónvarpsins verkfræðingur sem hefur starfað við bandarískar raflagnir í rúman áratug og látin segja; „Það er nú svo sem ekki stórhættulegt að búa við bandarísk rafkerfi.“ Hann sýndi svo í beinni útsendingu hvernig hann fór að því að stinga hárþurrku í samband við evrópska tengla. Forsvarsmaður Þróunnarfélagsins mætti einnig í útvarpsviðtal og lýsti því yfir að formaður Rafiðnaðarsambandsins væri asni og vissi ekkert um rafmagn.
Þróunnarfélagið seldi svo þær eignir sem alþjóð fékk gefins frá Bush til ákveðinna Manna, samningar voru faldir í skúffum. Það er eins og við vitum svo vel venjan hjá íslenskum valdamönnum þegar þeir meðhöndla eigur íslensks almúga. Þetta tíðkast ekki hjá þjóðum sem telja sig búa við opið lýðræði. Eftir mikinn hasar í fjölmiðlum og endalaust vesen í einhverjum leiðinlegum lögfræðingi sem náði kjöri inn á Alþingi í vor, þá urðu Menn að taka samningana upp úr skúffunum og sýna þá.
Þó við höfum einungis fengið að sjá samninga fyrir hluta af eignum okkar, þá kemur þar fram að gert er ráð fyrir að kostnaður vegna lagfæringa á rafmagni fyrir þær eignir verði 2 milljarðar. Hvað verður sú upphæð þegar allt verður talið?
Hvorir eru meiri asnar almenningur eða Menn?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli