föstudagur, 28. desember 2007

Kaupum flugeldana af björgunarsveitunum

Á undanförnum vikum höfum við ítrekað notið aðstoðar björgunarsveitanna vegna aftakaveðurs. Allar líkur eru á að við þurfum fljótlega á þeim að halda, enn ein óveðurspáin er kominn í loftið. Björgunarsveitarfólkið er ekki bara að leita að fólki til fjalla, auk þess hafa verið stórir flokkar úr sveitunum að störfum í þéttbýli með lögreglu og slökkviliðsmönnum við að bjarga eignum fólks frá skemmdum. Björgunarsveitarfólk um allt land hefur margoft sýnt að starf þess er algjörlega ómetanlegt og oft við aðstæður sem geta verið lífshættulegar.

Innan Landsbjargar starfa um átján þúsund manns í sjálfboðaliðsvinnu. Við skuldum þessu fólki að það geti notað besta fáanlegan búnað. En ekki má gleyma því mikla uppeldishlutverki sem björgunarsveitirnar vinna, þar lærir ungt fólk að umgangast íslenska náttúru og um leið eru byggðir upp heilbrigðir og öflugir einstaklingar

Flugeldasala fyrir áramót er mikilvægur tekjupóstur í fjáröfluninni og allt þetta fólk á það inni hjá okkur að við fjölmennum á sölustaði björgunarsveitanna.

En fyrir alla muni notið öryggisgleraugu og varið varlega svo við getum átt slysalaus og gleðileg áramót.

Engin ummæli: