sunnudagur, 23. desember 2007

Er óþægilegur sannleikur meiðyrði?

Á árinu 2005 áttu trúnaðarmenn og starfsmenn stéttarfélaganna ítrekað í útistöðum við starfsmannaleiguna Tvö lítil bjé. Yfirleitt enduðu þessar deilur með því að pólverjar sem voru hér á landi á vegum leigunnar flúðu frá leigunni yfir til þeirra fyrirtækja sem þeir störfuðu fyrir. Fyrirtækið og lögmaður þess höfnuðu alfarið að leggja fram launaseðla og fara að íslenskum lögum.

Fyrirtækið varð uppvíst að því að hafa í fórum sínum PIN númer bankareikninga starfsmanna sinna og fór þar inn og tók út fjármunu til greiðslu á einhverjum kostnaði sem forsvarsmönnum fyrirtækisins fannst að starfsmenn sínir ættu að greiða. Fyrirtækið var síðar dæmt til þess að endurgreiða umræddum starfsmönnum sínum um 2 millj. kr. hverjum, en þá var skipt um kennitölu og Tvö lítil bjé reyndust ekki eiga fyrir skuldum þannig að starfsmenn fengu ekki laun sín.

Fyrirtækið gekk endanlega svo kirfilega fram af starfsmönnum Rafiðnaðarsambandsins að það var ákveðið að birta fundargerð aðaltrúnaðarmanns og túlk hans á heimasíðu sambandsins þ. 23. okt. 2005.

Á fundinum voru nokkrir pólverjar, starfsmenn fyrirtækisins og forvarsmenn fyrirtækisins. Í fundargerðinni stendur m.a. “ Á fundinum staðfestu pólverjarnir að þeim hafi verið bannað af forsvarsmönnum 2b að hafa samband við trúnaðarmenn, einnig kom fram að þeir hefðu verið látnir samþykkja fyrir komuna hingað að þeir borguðu 500 dollara mánaðarlega til greiðslu kostanaðar á upphaldi þeirra hérna.“

Aðeins aftar; „en þegar þeir voru að byrja sitt starf komu þeir í fylgd forráðamanna 2b á verkstæðið og voru kynntir eins og manna er siður, til að leggja áherslu á hvernig 2b taldi að best væri að umgangast mennina lagði forstjóri 2b til við verkstjóra Suðurverks að ef pólverjarnir væru með eitthvað múður skildi hann bara lemja þá, því væru þeir vanir, að sjálfsögðu svaraði hann því til baka um hæl að þess háttar hegðun væri ekki stunduð á þessum vinnustað."

Aðeins aftar; „Það kom einnig fram á fundinum að Pólverjarnir telja að póstur þeirra sé skoðaður og lögðu fram aðvörunarbréf sem einn þeirra hafði fengið“

Aðeins aftar; „Þeim var skýrt frá því strax við komuna til Kef., þar sem forsvarsmaður 2b sagði við þá að ef þeir ekki stæðu sig í vinnu, tæki hann þá til Rvk þar sem þeir yrðu settir í hvaða vinnu sem er fyrir einn Usd á tímann og borguðu honum 80.000 USD sem væri sá kostnaður sem hann hafði þurft að bera vegna komu þeirra hingað yrði að fullu greiddur, sama gilti um ef þeir skemmdu einhver tæki, hvort sem það væri viljandi eða ekki.“

Aðeins aftar; „Einnig sögðu þeir að þeim hafði verið stranglega bannað að hafa samskipti við íslendingana, þar sem þeir litu á þá sem fyllibyttur og þjófa, en þeir hefðu vissulega komist að öðru, einnig að þetta hafi gengið svo langt að þeim hafi verið bannað að fara í sjoppu að kauða sígarettur.“

Tveir fréttamenn beggja sjónvarpsstöðvana höfðu svo samband við mig og spurðu mig út í þessa fundargerð. Ég svaraði þeim atriðum sem þeir lásu upp úr fundargerðinni og endurtók einnig að nokkru ræðu sem ég hafði flutt á ársfundi ASÍ. „Um alla Vestur Evrópu spretta nú upp fyrirtæki þar sem koma fram einstaklingar sem sjá möguleika á því að hagnast á því að nýta sér bága stöðu verkafólks úr Austur- Evrópuríkjum. Þessir dólgar setja upp búllur þar sem þeir bjóða þetta fólk til hverskonar starfa á niðursettu verði. Sumir þessara leigudólga velja sér starfssvið að flytja inn stúlkur og börn sem þeir selja í kynlífsþrældóm, aðrir velja sér það starfssvið að nýta sér stöðu bláfátækra atvinnulausra fjölskyldufeðra og leigja þá til vinnu á vesturlöndum. Þar er hirt af þeim mörg þeirra félagslegu réttinda sem þeir eiga rétt á og eins er hluta af launum þeirra.

Aðferðir og viðhorf þessara dólga eru nákvæmlega þær sömu og framkoman við þetta fólk er hin sama. Hugsunarháttur þessara manna er nákvæmlega hinn sami, gildir þá einu hvort sviðið þeir velja. Fólkinu eru settir afarkostir, ef það fer ekki í einu og öllu eftir því sem leigudólgarnir vilja, þá glatar það tilverurétt og er komið í óviðráðanlegar fjárhagslegar skuldbindingar við dólgana
."

Lögmaður fyrirtækisins fór mikinn í Sjónvarpinu úthúðaði stéttarfélögum og starfsmönnum þeirra og hótaði mér meiðyrðamáli. Hann er tíður gestur í Sjónvarpinu sem álisgjafi um þau mál sem hann sjálfur flytur. Svo 8 mánuðum síðar að mér var stefnt og þ. 16. marz 2006 féll dómur um að mér gert að greiða forsvarsmönnum fyrirtækisins og lögmanni þess samtals 1.5 millj. kr. Fyrir dóminn höfðu komið tveir verkstjórar, ásamt trúnaðarmanni og túlki og staðfest að allt sem fram hafði komið um hátterni forsvarsmanna fyrirtækisins væri rétt.

Í svari mínu um orðið dólgur sagði ég; „Það væri algengt orð í íslensku og notað yfir fólk sem væri með yfirgang gagnvart öðrum. Fólk sem hrifsaði til sín gæði sem væru eign annarra. T.d. flugdólgur, sem hrifsaði til sín frið annarra flugfarþega, dólgur í umferðinni væri lýsing sem allir skyldu hvað þýddi og þannig mætti lengi telja.“

Ef maður lítur til dóma t.d. um hrottafengnar hópnauðganir þá er það smáræði í augum dómara í samanburði við að forsvarsmaður hagsmunasamtaka reynir að svara fyrir félagsmenn sína í fjölmiðlum. Lögmaður fyrirtækisins hefur í fjölmiðlum í innrömmuðum greinum á áberandi stað í aðalblaðinu, ausið svívirðingum yfir fólk sem er ekki sammála öfgakennum frjálshyggjusjónarmiðum hans, m.a. kallað það eitthvert vinstra lið, Talibana og fleira.

Þegar lögmenn og forsvarsmenn fyrirtækja verða uppvís að óeðlilegri framkomu við starfsmenn sína, er okkur starfsmönnum stéttarfélaganna gert að sitja undir alls konar hótunum, upphrópunum um að við förum með lygar og bornar á okkur allskonar sakir. Allt er gert að ekki komist hið sanna fram, reynt er að koma vitnum úr landi svo ekki sé hægt að upplýsa mál. Borið fé á starfsmenn gegn því að þeir segi ekki sannleikann, þeim hótað öllu illu þegar þeir komi heim til sín.

En þegar mál vinnast gegn fyrir dómstólum og í ljós kemur að allar þær ávirðingar sem við máttum sitja undir voru ósannyndi þá gera fréttamenn ekkert, nákvæmlega ekkert.

Ekki höfðu fréttamenn fyrir því að fara yfir þær forsendur sem urðu til þess að þeir komu heim til mín og spurðu út í fundargerðina, þegar þeir fjölluðu um dóminn. Nú er svo komið að fólk þorir ekki að koma fram í fjölmiðlum nema undir nafnleynd. Skyldi nokkurn undra. Það má ekki segja sannleikann.

Ég féllst á að rita pistla hér á Eyjunni um hugarefni mín. Margir hafa komið til mín undanfarnar vikur og spurt; "Hvernig þorir þú þessu Guðmundur?" Þegar við vorum að fást við Rússana sem reistu síðustu Búrfellslínuna, kom einn þeirra þeirri athugasemd á framfæri; "Er ekki hægt að stinga þessum kolbrjálaða formanni Rafiðnaðarsambandsins inn á meðan við klárum að reisa línuna?"

Er það þetta það þjóðfélag sem við viljum? Alla vega höfnuðum við tilraunum stjórnvalda í að hefta málfrelsið fyrir nokkru þegar Fjölmiðlalögunum var hent út í hafsauga. En stjórnvöld hafa svarað með því að raða inn dómurum sem þeim eru þóknanlegir á öll dómstig.

Maður er hættur að greina hvar í Sovétinu við erum stödd. Ég sá mig alla vega tilneyddan til þess að segja mig úr þeim stjórnmálaflokk sem ég var alinn upp í og sat í borgarstjórn fyrir.

Engin ummæli: