þriðjudagur, 4. desember 2007

Við viljum göng frá Laugarnesi upp í Gufunes - strax

Við sem höfum valið okkur það hlutskipti að vilja búa utan 101 svæðisins, andstætt flestum borgarstjórnarmönnum og áberandi álitsgjöfum, sitjum illilega í því. Það skiptir ekki máli þó við borgum hlutfallslega meir í skatta og opinber gjöld, þá verðum við að una því að þó svo við þurfum að sækja vinnu og skóla á 101 svæðið, að 101 fólkið kemur í veg fyrir að greiðar ökuleiðir eru lagðar um borgina.

Það talar af sannfæringu á kaffistofunum um útópíu með rafmagnslestum og einteinungum til Keflavíkur og beitir sér gegn umferðarbótum. Það fólk sem vill búa úthverfunum á heiðum uppi og ekki í nágrenni við kaffihús, getur notað reiðhjól þangað til Metró verður lagt um Reykjavík.

Færeyingar eru allöðru vísi þenkjandi og standa með báðar fætur á jörðinni, þeir ætla að leggja 12 kílómetra löng bílagöng milli Straumeyjar og Sandeyjar, á þessu svæði búa álíka margir og á Vestfjörðum. En þetta verða lengstu neðansjávarbílgöng í heimi.

Á sama tíma miðar ekkert að leggja Sundabraut. Íbúar í nágrenni við Reykjavík hafa ásamt þeim íbúum Reykajvíkur sem stunda útvist og sumarbústaðavist, hafa lýst því yfir að þeir telji mikla nauðsyn á því að Sundabraut verði lögð. Fólk sem á leið til höfuðborgarinnar, þarf oft á tíðum að verja allt að tveim klst. í bið til þess að komast frá Hvalfjarðargöngum og heim til sín inn í borgina.

Þessu úthverfafólki væri nú nær að vera ekki að eyða tíma sínum að óþörfu og ferðast um Ísland. Hvað er nú betra en að taka rútu til Keflavíkurflugvallar og fara í frí til útlanda?

Það kemur 101 fólkinu ekkert við að Faxaflóahafnir hafa boðist til þess að taka að sér fjármögnun og framkvæmd verksins til þess að flýta fyrir þessari samgöngubót.

Sundagöng samsvara innkeyrslunni á þeim göngum, sem frændur okkar og ofjarlar í að tengja saman byggðir, ætla að leggja hjá sér.

Eigum við að ræða um tillögur þeirra sem aldrei fljúga innalands, að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur og koma með því í veg fyrir að samkeppni komist á í innanlandsflugi og fargjöld lækki um 40%?

Engin ummæli: