fimmtudagur, 13. desember 2007

Raflínur í jörð - FroðusnakkAllir þingmenn í umhverfisnefnd Alþingis vilja að skipuð verði nefnd til að móta stefnu um það hvernig leggja megi allar raflínur sem nú eru ofanjarðar í jörð á næstu áratugum.
Þeirri stefnu hefur verið fylgt alllengi hér á landi að línur í fjölbýli eru settar í jörð, þar er t.d. geysilegur munur á íslenskum bæjum og t.d. bandarískum og við sáum það líka á Keflavíkurflugvelli. Staurar með línum, strengjum, símaköplum o.fl. hangandi í einni bendu.

Einnig hefur verið í gangi um allangt skeið skipulegt átaka að fella línur í sveitum landsins og koma strengjum í jörðu. Í dag fer maður í gegnum heilu sveitarfélögin án þess að sjá loftlínur, sérstaklega á Norðurlandi. Enda er svo komið að það er orðið frekar fátítt að stórir hlutar landsins verði rafmagnslausir, eins var reglulegt nokkrum sinnum á hverjum vetri fyrir ekki svo mörgum árum.

Það kom fram í umræðum í vor þegar stækkun álversins í Straumsvík var rædd, að til stæði að setja háspennulínurnar í jörðu síðasta spottann, en kostnaður var svo mikill að það yrði ekki gert nema með því að setja það inn í samning við álverið. Það er ekkert smámál að koma stóru línunum í jörð. Það þarf mikla stokka og veldur miklu jarðraski.

Þetta er í fullum gangi hjá Landsneti og RARIK þar sem það er hagkvæmt, þar af leiðandi kemur það í opna skjöldu að þingheimur taki nú höndum saman um þverpólitískt átak um að koma línum í jörð. Verkefni sem þegar er í gangi og búið að vera í allmörg ár. Það er svo annað mál ef koma á öllum 220 þús. volta dreifikerfinu í jörð og hringlínunni, það kostar um 300 milljarða.

Þetta er venjubundinn populismi þingmanna, sem byggist á því hversu illa þeir eru að sér hvað er að gerast í kringum okkur. Þingmenn skemmtu landsmönnum, þá sérstaklega rafiðnaðarmönnum þegar þeir stóðu grafalvarlegir og íbyggnir í ræðustól Alþingis og ruddu út sér fádæma endaleysu um raflagnir Keflavíkurflugvallar, þvílíkur sirkus.

Froðusnakkið heldur áfram, undanfarna daga hafa tillögur skreytt síður fjölmiðla um að þingmenn séu með tillögur að leggja háspennustrengi í stað háspennulína. Á myndinni frá ABB er góð útskýring á launafli fyrir leikmenn. Jarðstrengir auka launafl verulega, sérstaklega á lengri vegalengdum. Tap á raforku ef af tillögum þingmannanefndarinnar verður, samsvarar því að öll orka Búrfells gufaði upp í ræðustól Alþingis.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Bíddu. Ég hélt að þá yrði nóg að gera fyrir umbjóðendur þína?

Gamall línumaður.

Nafnlaus sagði...

Það er alveg brjálað að gera hjá okkar mönnum. Þarf ekkert frumvarp til að auka það
kv
fyrrum línumaður