föstudagur, 14. desember 2007

Ræðan hans Péturs Blöndal

Fulltrúar ASÍ hafa kynnt tillögur í samhengi við endurnýjun kjarasamninga um hvernig stjórnvöld gætu liðkað fyrir komandi kjarasamningum. Allt tillögur sem hafa komið fram áður og beinast nánsat allar að því að auka ráðstöfuntekjur lægst launaða fólksins, hvort sem það eru launamenn eða bótaþegar. Áður hafa komið fram tillögur um 15% skattaþrep á tekjur undir 200 þús. kr., sem sjálfstæðismenn algjörlega hafnað. Nú leggur verkalýðshreyfingin fram hugmynd um að sett verði inn sértækur persónuafsláttur, sem lyftir skattleysismörkum upp að 150 þús. og deyr út við 300 þús. kr.

Auk þess hefur verkalýðshreyfingin lagt fram tillögur um hvernig megi aflétta þeim fátæktargildrum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur búið til með því að lyfta ekki skerðingarmörkum í bótakerfinu í samræmi við verðlagsþróun. En það bregst ekki ef verkalýðshreyfingin lætur í sér heyra þá stormar fram á völl fréttastofanna formaður efnahagsnefndar Pétur Blöndal, tekur viðtöl við sjálfan sig. Fer mikinn og slær um sig með allskonar sleggjudómum og yfirlýsingum, og það helst að verkalýðshreyfingin sé með óþolandi frekju. Pétri til upplýsingar er verkalýðshreyfingin í sinni einföldustu mynd að fara fram að þeir sem hafi verið í ríkisstjórnum síðustu kjörtamabil skili til baka þeim fjármunum þeir hafa með skerðingum haft af þeim sem minnst mega sín.

Pétur tekur einungis tillöguna um sértæka persónuafsláttinn og sleppir viljandi öðrum tillögum m.a um barnabætur, vatxatbætur ofl. Hann gætir þess að minnast ekki á að með tillögum verkalýðshreyfingarinnar þá aukist ráðstöfunartekjur hjóna með 2 börn og 300 þús. samanlagðar tekjur um 40 þús. kr. á mánuði. Tilviljun eða viljandi gert, dæmi hver sem vill. En í raun er Pétur að skýra þetta sem nýja fátæktargildru.

Pétur flytur ár eftir ár sömu ræðuna, um það sé hann sem hafi á kjördegi verið kosinn til þessa starfs og hann vilji ekki vera truflaður fram að næsta kjördegi. Það sé hann sem setji lög í þessu landi ekki verkalýðshreyfingin.

Þetta kallar Pétur, eins smekklega eins og honum er einum lagið, að launamenn í landinu séu að hrifsa völd frá þingmönnum og ætli að taka sér sjálfdæmi við að breyta landslögum. Ég hef ekki heyrt nokkurn mann í verkalýðshreyfingunni segja þetta. En það eru vel þekkt vinnubrögð hjá óvönduðum stjórnmálamönnum, að gera andstæðingum sínum upp skoðanir og úthúða þeim svo á grundvelli hinna uppgerðu skoðana.

Ræða Péturs er ósmekkleg. En fréttastofur bjóða okkur landsmönnum upp á að hlýða á þennan boðskap ítrekað reglulega árum saman. Pétri til upplýsingar þá er í verkalýðshreyfingin samansett af 100 þús. kjósendum og skattgreiðendum. Þetta er fólk hefur sem betur fer stjórnarskrárvarinn rétt til þess að hafa skoðun á því hvernig landinu er stjórnað alla daga ársins, ekki bara einn dag á fjögurra ára fresti.

Pétur og félagar gerðu reyndar tilraun til þess að taka þennan rétt af okkur fyrir nokkru með því að rúlla í gegnum Alþingi fjölmiðlalögunum alræmdu. Pétur er starfsmaður okkar og við borgum honum laun, ekki öfugt. Reyndar er ástæða til þess að benda á að á kjördag heyrist ekki múkk um þessi mál frá Pétri.

Í máli Péturs hefur oft komið fram, hann þoli bara alls ekki að því "jafnvægi" (lesist þeir ríku verði stöðugt ríkari og þar komi að borð þeirra verði svo yfirhlaðin að molar hrynji til fátækra), sem hann og tiltekinn hópur þingmanna hafi komið á sé raskað. Þeir sem hafi það slæmt eiga að hafa það áfram slæmt, annars missi þeir sjálfsbjargarviðleitnina. Það sé ekkert vandamál að lifa af 90 þús. kr. tekjum, það hafi hann sannreynt. Það eina sem maður þurfi að gera er að eiga skuldlausa íbúð og sparifé á bankabók, þá sé ekkert vandamál að lifa af þessum tekjum.

Það er reyndar einkennilegt og reyndar ótrúlega óábyrgt, að á mjög viðkvæmu stigi kjaraviðræðna aðila vinnumarkaðs og samstarf við ríkisstjórn skuli formaður efnahagsnefndar endurtekið viðhafa vinnubrögð sem þessi. En Pétur passar upp á sína.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Enn og aftur erum við sammála, Guðmundur. Pétur Blöndal er einhver ómerkilegasta lýðskrumari sem náð hefur af öld Adolfs Hitlers inn á þá tuttugustu og fyrstu. Það er með ólíkindum að fólk skuli yfirleitt vera það illa að sér í reikningi, að skilja ekki rökvilluna í málflutningi hans. Hverjum ætli komi það betur, að skattprósenta lækki um x prósent, þeim sem hefur milljónir á mánuði eins og hann, eða okkur sem erum með innan við tvö hundruð kallinn? Ellegar flata skattprósentan, sem hann predikar um? Jú, jú, hann segir að þeir sem hafi minnst eigi að fá samfélagslega aðstoð. Já, einmitt, og láta menn eins og Pétur Blö skammta hana úr hnefa? Standa við loforðin á sama hátt og um persónuafsláttinn á sínum tíma, sem nú er hlutfallslega bara brot af því sem hann var í upphafi? Af hverju er skattkerfið fyrst og fremst miðað við að þeir tekjuháu greiði sem minnst en þeir tekjulágu sem mest? Af hverju er skömmtunarkerfi almannatrygginga miðað við að halda fólki í fátækrargildrum?

Nafnlaus sagði...

Nú er ég ekki alveg sammála þér Guðmundur minn. Ég(56), man efir Halldóri Blöndal, sem aldrei hefur fengið Dóm Þjóðarinnar, en faldi sig lengi á Öræfum-Norðurlands þar sem danska er töluð á sunnudögum. Það góða við Pétur að hann kann ekki að Bulla sig frá xD...Pétur er lélagasti lygari xD og ég fattaði þetta srax og hann byrjaði að koma fram í fjölmiðlum.
"Nafn-Lausi" ætti að hafa samband við Biskup Íslands og fá Nafn.
Þú ættir að fara í þann Leiðangur að Leiða okkur Almenning til...???
Þegar ég áttaði mig á því að skipulega var unnið að því að
Rífa niður Verkalýðs-Hreyfinguna("77-"79), undir stjórn Harðar Sigurgestsonar, forstjóra Eimskipa og "Guð-Faðir DO."
Ég var þá ungur og BG. formaður FÍA. sagði mér að halda kjafti fyrstu 10 árin í FÍA.
Stoppaðu Rafvikjana(220þ.) þína á LSHS. strax og við skulum sjá hvað "Lækna-Mafían", með sína milljón+, á mánuði gerir. Svo ekki sé talað um "Aulana á Alíngi".
Baráttu-Kveðja!!!

Nafnlaus sagði...

Pétur Blöndal hefur ekki verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Það kemur hins vegar ekki málinu við. Athuga ber málflutninginn og hann aðeins. Það skiptir engu hvaðan rök koma.

Ég horfði á viðtalið við Pétur í 10 fréttum í gærkvöldi og svo aftur núna. Ég sá hvergi þessa "sleggjudóma" sem þú minnist á og því síður að verkalýðshreyfingin sé með "óþolandi frekju". Skoðun Péturs kom fram, ekkert meira og ekkert minna.

Aðalatriðið í málflutningi Péturs er að hvati fólks með 150 þúsund í laun minnki ef stighækkandi persónuafsláttur kemst á. Í staðinn fyrir að svara þeim rökum þá ferð þú að rægja alþingismanninn með hvað hann hefur sagt í fortíðinni, ekki nútíðinni. Þetta er grundvallarrökvilla.

Í ofanálag gagnrýnir þú svo Pétur fyrir að nefna bara slæma hlutinn og sleppa öllum hinum. Það nákvæmlega sama og þú ert nú að gera. Eini munurinn er að hann kom fram í klipptu sjónvarpsviðtali á meðan þú getur vaðið um eins víðan völl og þér sýnist.

Ég ætla ekki að leggja mat á hvor málflutningurinn sé réttmætari. Hins vegar er alveg ljóst að Pétur Blöndal var mun málefnalegri en Guðmundur Gunnarsson.