sunnudagur, 16. desember 2007

Ídol stjarna dæmd

Sársauki hefur öðlast sérstöðu í menningarheimi okkar. Blaðamenn og stjórnendur spjallþátta leita ákaft eftir sársauka viðmælenda. Raunveruleikasjónvarpið fjallar um þjáningar, andlegan sársauka og niðurlægingu. Kvöld eftir kvöld sitjum við fyrir framan sjónvarpið og fylgjumst með niðurlægðu fólki, sem grátandi brotnar undan sársaukanum. Við stökkvum fram og skellum poppi í örbylgjuna, meðan auglýsingarnar renna í gegn, svo við missum ekki af næsta niðurbroti. Glanstímaritið er á náttborðinu og lýsir framhjáhaldi, misnotkun eiturlyfja, missi sona og dætra. Ævisagan með kynferðislegu ofbeldi bíður eftir því að verða tekinn með í bústaðinn.

Þjáningar eru neysluvara dagsins. Hvað gerist þegar við fáum leið á kynferðislegu ofbeldi? Hvar verða mörk sársaukans? Verðum við skeytingalaus fyrir óförum annarra? Hvað skemmtir okkur þá? Allt er til sölu, kynferðislegt ofbeldi jafnt og vinnuframlag blásnauðra fjölskyldufeðra.

Aggressív fréttamennska er nauðsyn nútímaþjóðfélagi, en hún er vandasöm. Hún snýst ekki um sársauka einkalífs eða niðurlægingu. Hún er ekki spuni sem breytir þjáningum fólks í peninga.

Er ástæða til þess að birta fréttir af óförum samferðafólks okkar, þar sem þeim er lýst á sama hátt og fótboltastjarna skori glæsilegt mark. Einn okkar förunauta hefur orðið undir og er dæmdur til fangelsisvistar. Hann á móður, ástvini og börn, þau lesa blöðin. Hann varð undir í baráttu við ákveðnar fíknir. Er það fagnaðarefni, skoraði hann glæsilegt mark?

Er ástæða til þess að fjalla um það með þessum hætti. Ég vildi frekar sjá fréttir á borð við þegar Joe Walsh snjöllum gítarleikara Eagles sagði á tónleikum í Melbourne. “Ég hef bara einu sinni dottið í það, en það fyllerí stóð reyndar yfir í 20 ár.” Við vissum það öll, hann er líka svo brensalegur, en hann gerir okkur öllum kleift að tala um það. Við vitum að hann hefur náð tökum á fíkn sinni og samfögnum honum.

Gefum Ídolstjörnunni svigrúm til þess að takast á við sín mál og ástvinum hans tækifæri til þess að standa við hlið hans.

Engin ummæli: