miðvikudagur, 5. desember 2007

Hvað gengur lífeyrissjóðunum til?

Málefni öryrkja hafa verið til umræðu undanfarið. Kemur þar til árleg könnun lífeyrisjóða á tekjum öryrkja og breytingar á lífeyrisgreiðslum í samræmi við niðurstöður. Það sem hefur hvað mest áhrif í nýlegri tekjukönnun er að nú í fyrsta skipti er litið á greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins sem tekjur. Umfjöllun hefur verið neiðkvæð og einhliða í garð lífeyrissjóða og lítið hefur heyrst frá sjóðunum.

Hvað gengur lífeyrissjóðunum til að skerða greiðslur til öryrkja sem flestir eru langt því frá of sælir af sínum kjörum.

Lífeyrissjóðirnir eru að framfylgja ákvæði í samþykktum er segja að aldrei skuli samanlagður örorkulífeyrir og barnalífeyrir vera hærri en sem nemur þeim tekjumissi sem sjóðfélaginn hefur sannanlega orðið fyrir sökum örorkunnar. Samþykktir kveða því á um að sjóðfélagar sem missa starfsorku skuli ekki hafa hærri tekjur eftir að til örorku kemur en sem svarar meðaltekjum á meðan þeir voru á vinnumarkaði. Tekjukönnun leiðir í ljós að þegar greiðslum frá Tryggingarstofnun hefur verið bætt við lífeyrisgreiðslur lífeyrissjóða eru öryrkjar oft á tíðum með hærri tekjur en áður og ber því sjóðunum að bregðast við því.

Lífeyrissjóðir eru sameign þeirra er til hans greiða. Starfsfólki er falið að sjá til þess að starfað sé eftir samþykktum og sjóðfélagar sitji við sama borð og endurskoðendur fara reglulega yfir starfsemina í samræmi við gildandi lög og samþykktir. Þar er meðal annars kveðið á um að óheimilt er að gera betur við einn hóp sjóðsfélaga á kostnað annars.

Sá málflutningur öryrkja að lífeyrissjóðirnir eigi næga fjármuni til að standa undir greiðslum til þeirra er ósanngjarn gagnvart öðrum sjóðsfélögum. Eignir sjóðanna eru vissulega miklar en þær gera lítið meira en að standa undir áföllnum skuldbindingum núverandi sjóðfélaga. Ef tekin er ákvörðun um að breyta samþykktum þannig að þær séu hagfelldari öryrkum gerist það á kostnað elli-, maka-eða barnlífeyris, sem lækka mundi samsvarandi.

Lífeyrissjóður er ekkert annað en hópur félaga sem eru að vinna sameiginlega að því að tryggja kjör sín ef til örorku eða andláts eða við starfsloks vegna aldurs. Sjóðfélögum er heimilt að leggja fyrir ársfund tillögur um breytingar á samþykktum varðandi örorkulífeyrisgreiðslur en þær þurfa að berast fyrir lok desember ár hvert þannig að stjórn sjóðsins geti látið meta fjárhagsleg áhrif slíkra tillagna þannig að ársfundur geti tekið upplýsta ákvörðun.

Því ber að fagna því að stjórnvöld geri sér grein fyrir óheppilegum áhrifum víxlverkunar gagnvart öryrkjum. Undanfarin ár hafa lífeyrissjóðir undantekningarlítið verið að auka réttindi sjóðfélaga sinna þar með talið öryrkja og hefur tekjutrygging Tryggingarstofnunar ætíð verið lækkuð í kjölfarið. Á grundvelli þess undrast maður umfjöllun stjórnmálamanna.

Enn ámælisverðara er að stjórnmálamönnum hefur verið kunnugt um það í 3 ár að lífeyrissjóðirinir yrðu að lagfæra þetta misrétti innan sjóðanna. Þrátt fyrir það hafa þau ekki gert nokkuð til þess að standa við endurteknar yfirlýsingar að þau myndu lagfæra skerðingarkerfi almenna tryggingarkerfisins, en það hefur ekki verið gert. Lífeyrissjóðirnir hafa árangurslaust frestað aðgerðum til að gefa stjórnmálamönnum svigrúm til þess að lagfæra skerðingarkerfið. En stjórnmálamennirnir hafa frekar valið að verja tíma sínum að standa í hnútukasti við stjórnir lífeyrissjóðanna, sem einungis eru að fara að lögum sem stjórnmálamennrinir settu.

Og það eru öryrkjanrir sem sitja nú uppi með skerðingu vegna þess að stjórnmálamennrinir hafa ekki sinnt störfum sínum, enn einu sinni.

Gerð hefur verið athugasemdvið meðallaun fyrir örorku sé framreiknuð með vísitölu neysluverðs í stað launavísitölu. Með því móti verða viðmiðunarlaunin af því launaskriði sem orðið hefur á undanförnum árum. Það er hins vegar hægt að fara nokkur ár aftur í tímann t.d. á tímum „þjóðarsáttar“ til að finna tímabil þar sem vísitala neysluverðs hækkaði meira en launavísitala. Eins og staðan er í dag má telja umtalsverðar líkur á að neysluvístala komi til með að hækka meira á næstu misserum en launavísitalan.

Engin ummæli: