sunnudagur, 30. desember 2007

Staðan í kjaraviðræðum um áramótin

Datt inn á Moggabloggið eftir að hafa séð í Mogganum í dag að þar var verið að fjalla um yfirstandandi kjarasamninga. Sá að sumir virðast ekki átta sig á hver staðan er og setti því saman þetta yfirlit.

SA hefur við upphaf viðræðna lagt fram þá tillögu að allir lágmarkstaxtar verði hækkaðir um krónutölu, og hefur nefnt 15 þús. kr. á mán. Auk þess hefur SA sett fram hugmynd um svokallaða launatryggingu, þar hefur ekki verið nefnd ákveðin prósenta. En nefnt hefur verið af hálfu aðila innan ASÍ að brotpunkturinn þyrfti að vera a.m.k. 9%. Það þýðir í raun að þeir sem hafi fengið minni launahækkun frá 1. sept 2006 en brotpunkturinn t.d. 9%, fái launahækkun sem nemur því sem upp á vantar. Þeir sem hafa fengið launaskrið umfram 9% fá ekkert.

Þessi aðferð gerir það að verkum að það er meira svigrúm til þess að setja í lægstu taxtana. En svo er þá hin leiðin sem nánast alltaf hefur verið farin, að setja flata prósentuhækkun á alla taxta, ef samið væri um svipaða launakostnaðarauka þýddi það líklega 4 - 5% launahækkun til allra.

ASÍ forystan hefur sagt að sambandið vilji ekki skoða þessa leið SA nema að krónutöluhækkunin verði hækkuð, auk þess að það náist samkomulag um launatrygginarbrotpuntinn. Einnig hefur verið sett fram krafa um að stjórnvöld komi að málinu og persónuafsláttur verði hækkaður upp í 150 þús.kr. og hefur ASÍ lagt fram tillögu um að sá sérstaki afsláttur deyji út við 300 þús. kr. tekjur. Auk þess að skerðingarmörk barnabóta og vaxtabóta verði hækkuð umtalsvert. Ef það samkomulag næst við ríkisstjórn þá aukast ráðstöfunartekjur hjóna með tvö börn, sem eru samtals með 300 þús. kr. laun á mánuði, um 40 þús. kr. á mánuði, auk launahækkunarinnar. Ekki hefur borist svar frá stjórnvöldum og þar af leiðandi liggja viðræður niðri.

En síðan spiluðu ráðmenn þjóðarinnar því út nú fyrir jólin til handa sjálfum sér aukahækkun upp á 2%. Laun þeirra hækkuðu um 2,5% 1. janúar 2006, um 3% 1. júlí sama ár og um 3,6% 1. október. 1. janúar í ár hækkuðu launin svo um 2,9% og um önnur 2,6% í sumar. Þetta vekur sérstaka athygli með tilliti til umræðunnar um launatryggingu. Ef launatryggingmarkið yrði sett þannig að þessi 2% aukahækkun ráðamanna stæðist þá þyrfti brotpunturinn það að vera 11,2%.

Það er svo spurning áramótanna hvort það eigi að taka mark á þessum skilaboðum frá æðstu valdamönnum þjóðfélagsins.

Engin ummæli: