mánudagur, 10. desember 2007

Silfrið og Kiljan

Ég er einn þeirra 20% þjóðarinnar sem fylgist með þáttum Egils Helgasonar, ef ég man rétt niðurstöður áhorfskannana. Það er klárlega frábær árangur að ná svona háu áhorfi á þjóðmálaumræðu af þessu tagi. Efnistök Egils hafa verið góð, sem byggist á því að hann hefur góða grunnþekkingu á málum og fylgist greinilega vel með. Þó svo að ég sé eins sjálfsagt flestir landsmenn ósammála um það bil helming þeirra sem koma fram í þáttunum.

Oft hefur mér fundist, eins og reyndar hvað varðar aðra spjallþáttargerðarmenn, einkennilegt að oftast eru það alþingismenn sem eru látnir fjalla um kjaramál og málefni launamanna. Starfsmenn stéttarfélaganna, ASÍ, BSRB og SA eru frekar sjaldséðir. En með fullri virðingu fyrir alþingismönnum þá er þekking þeirra á þessum málaflokk óskaplega grunn. Hún ber öll merki þess að vera byggð á klisjukenndri upphrópunarumfjöllun fréttamanna, sem sumir hverjir eru ungir að árum og hafa enn minni þekkingu á því hvernig kaupin gerast á eyrinni.

Hér er reyndar ástæða að benda á góða undantekningu, umfjöllun Aðalbjörns austfirðingssins unga, í fréttum RÚV í gærkvöldi um hvernig kaupin gerast á eyrinni var áberandi góð og gerð af þekkingu, enda er hann uppalin að nokkru innan verkalýðshreyfingarinnar.

Í síðasta þætti Egils fékk hann þrjá femínsta til þess að lýsa baráttunni sinni og fékk flinka tæknimenn RÚV til þess að hafa settið bleikt í tilefni dagsins. Þessar konur hafa gagnrýnt efnistök Egils á svipuðum forsendum og ég geri hér að ofan. Ég sé hlutina ekki alveg með sömu gleraugum og þessar konur, en það er vitanlega aukaatriði. Þær komu sjónarmiðum vel frá sér í þættinum.

Kilja Egils er ef eitthvað er betri, þar er hann greinilega enn meir á heimavelli og nýtur sín fullkomlega. Egill er klárlega þáttagerðarmaður þessa árs og á fyllilega rétt á launahækkun hjá RÚV til þess að geta sett upp nokkra hillumetra undir allar Eddurnar sem hann á rétt á að fá, eða hvað þau nú heita þessi verðlaun.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er að verða Starf að ver sammála þér Guðmundur minn.
Baráttu Kveðja!