þriðjudagur, 25. desember 2007

Og svo kom blessað rafmagnið

Þar sem maður situr hér á jóladagsmorgni í öllum þeim þægindum sem við höfum búið okkur reikar hugurinn til þess að það er ekki langt síðan að hin þægilegu rafmagnstæki voru ekki til staðar til að gera okkur lífið þægilegra, og reyndar svipaður tími síðan vatnsveitur voru heldur ekki til hér á landi.

Skemmstur sólargangur í Reykjavík er um fjórar klukkustundir. Það má örugglega halda því fram, að baráttan við myrkrið hefur verið ofarlega í hugum Íslendinga alla tíð. Um langan aldur var skammdegismyrkrið einn af höfuðóvinum íslensku þjóðarinnar, sem menn urðu að berjast við með þeim föngum sem landið sjálft veitti.

Mörin úr kindunum, hrossafeiti, hvalspik, sellýsi, hákarlslýsi og lýsi úr fiskalifur. Kveikirnir voru gerðir úr fífu. Ljósaáhöldin voru kolur og lampar. Þetta ljósmeti var dýrt og óhentugt, svo það var sparað eftir föngum. Mun þá hafa verið venja að kveikja ekki ljós fyrr en seint í október, eða með vetrarkomu, þegar dagsbirta er ekki nema um þriðjung sólarhringsins. Ekki var þó kveikt um leið og fór að skyggja, heldur fengu menn sér þá rökkurblund og mun hafa verið venja að vakna svo klukkan 18. Þegar ljósið kom tóku menn til við vinnu og var venja að allir kepptust við fram að klukkan 22. Þá var víðast lesinn húslestur og menn gengu til náða.

Það var ekki allra siður að sofa í rökkrinu, sums staðar var það siður að kveikja ljós undir eins og skuggsýnt var orðið og hefja þá þegar innivinnu og keppast við fram að háttatíma. Var þetta einkum á heimilum útvegsmanna, þar sem var margt fólk og mörgu þurfti að afkasta áður en vermenn kæmu heim. Nú mundi engum detta í hug að vinna við þessa lélegu birtu, en við megum ekki gleyma að við þessa birtu voru mörg meistaraverk unnin. Fornsögur voru ritaðar og margir hagleiksmenn unnu listaverk sem enn er dáðst að.

En úti fyrir grúfði kolsvart myrkrið og þegar sást ekki til tungls var reynt að setja ljós í glugga til þess að vísa mönnum veg heim að bæjum. En þessi ljós voru svo dauf að þau megnuðu ekki að lýsa mönnum til vegar á fyrstu götum Reykjavíkur. Menn urðu að þreifa sig áfram.

Þannig var ástandið til ársins 1860 þegar nýtt ljósmeti kom til sögunnar sem olli byltingu. Steinolíulamparnir fóru þá að flytjast til landsins. Fyrst voru þeir notaðir í sölubúðum og íbúðarhúsum kaupmanna í Reykjavík. Upp úr árinu 1870 fóru þeir að tíðkast í torfbæjum. Og bæjarstjórn Reykjavíkur var stórhuga. Hún fékk 2.000 kr. lán í hafnarsjóði til þess að kaupa götuljósker, sem komu hingað árið 1876. Fyrsta ljóskerinu var valinn staður á Lækjarbrúnni við Bankastræti. Það var kveikt á því 2. september sama ár. Eitthvað var gleði bæjarbúa blandin og töldu sumir að það væri hreint og klárt hneyksli að bæjarstjórn væri að taka lán úr hafnarsjóði til þess að lýsa fyllibyttum og þjófum til vegar um bæinn.

Þessi ljósker voru notuð til ársins 1910, en þá hófst rekstur gasstöðvar í Reykjavík. Þá var kveikt á 207 nýjum ljóskerum, eða um helmingi fleiri en áður voru. Með gasstöðinni hófst bylting í baráttu Íslendinga við myrkrið og margir létu setja gasljós í híbýli sín. Edison fann upp rafmagnsperuna árið 1879 og strax í febrúar árið 1880 flutti Þjóðólfur fregn um þennan atburð.

Breskt tilboð um raflýsingu Reykjavíkur barst árið 1888. Nota átti 10 ha. gufuvél til þess að framleiða rafmagnið. Bæjarfulltrúar voru langt frá því að vera reiðubúnir að samþykkja svona byltingarkennda tillögu og henni var umsvifalaust hafnað. Kennslutæki í rafmagni voru keypt til Lærða skólans á árunum 1888 og 1889. Ætla má að þá hafi verið í fyrsta skipti kveikt á peru á Íslandi. Það næsta sem hægt er að segja úr sögu rafmagns hér á landi, er að árið 1894 var rætt á Alþingi hvort raflýsa ætti þinghúsið, en úr því varð þó ekki.

Ekki var unnt að leggjast í margskonar stórframkvæmdir í einu. Það var eðlilegt, að bæjarfélagið hugsaði fyrr um hafnarframkvæmdir en um rafmagn til ljósa og götulýsingar. Neysluvatn sóttu menn í fötum og skjólum í brunna, þar sem einatt þraut í þurrkum og frosthörkum. Frárennsli voru opnar göturennur. Heilsufar var þannig að læknirinn Matthías Einarsson, rakti taugaveikifaraldur í bænum til neysluvatns úr einum brunnanna. Bæjarbúar lögðu meiri áherslu á neysluvatn en rafvæðingu.

Eldiviðarbaslið var daglegt stríð húsmæðra. Mór hafði alltaf verið aðaleldsneytið, og mótekjan í Vatnsmýrinni og Kaplaskjóli hafði dugað til þessa, en varð lélegri með ári hverju. Bærinn óx í austurátt, og Austurbæingar sóttu sinn mó austur á bóginn, í Norðurmýri, Elsumýri og síðar í Kringlumýri, en austubæjarmórinn þótti lakari.

Árið 1894 kom til Reykjavíkur frá Kaupmannahöfn Vestur-Íslendingurinn Frímann B. Arngrímsson. Hann hafði stundað sjálfsnám í Vesturheimi í rafmagnsfræðum, m.a. var talið að hann hefði unnið hjá Edison. Frímann kom einkennilega fyrir, hann var fullur af skrumi og skrýtilegheitum og var illa til fara og staurblankur. Nokkrir Íslendingar komu honum til hjálpar í Kaupmannahöfn og sendu hann heim.

Hann fór fram á það bréflega við bæjarstjórn að hún kannaði hversu mikið vatnsmagn væri í fossum Elliðaánna og vegalengd frá þeim í bæinn. Sumum bæjarfulltrúum fannst þetta furðuleg dirfska, "að eitthvert aðskotadýr úr Vesturheimi skyldi dirfast að biðja bæjarstjórn um svona upplýsingar. Honum væri nær að afla þeirra sjálfur." Eftir miklar umræður var ákveðið að verja 30 kr. til þess að afla þeirra upplýsinga sem Frímann óskaði eftir. Sæmundur Eyjólfsson búfræðingur var fenginn til verksins. Hann mældi hæðina í Skorarhylsfossi og reyndist hún vera 21 fet, en vatnskrafturinn 960 hestöfl.

Að þessum upplýsingum fengnum hélt Frímann geysilega langan og háfræðilegan fyrirlestur í Góðtemplarahúsinu fyrir fullu húsi. Hann komst að þeirri niðurstöðu að með þessu afli mætti fá 20 faldan þann kraft sem þyrfti til þess að lýsa 200 hús í Reykjavík með þremur átta kerta perum, og götur bæjarins með álíka lýsingu og þegar væri á þeim. Árlegur rekstrarkostnaður myndi verða um 30 þús. kr. Þessu svaraði bæjarstjórn með því að kalla Frímann "humbugista og þetta væru svo háar tölur, að auðvitað kæmu þær ekki til greina."

Þetta varð revíuhöfundum efni í eftirfarandi söngtexta í fyrstu íslensku revíunni sem sýnd var í Reykjavík í leikhúsi Breiðfjörðs, 6. janúar 1895:

Við Arnarhól er höfuðból
þar er hálært bæjarþing
sem vantar eitt og vantar eitt,
það vantar alltaf, viti menn,
og vill fá - upplýsing.
Og þessu spurning kemst í kring;
Hvað kostar raflýsing?

Valgarður Ó. Breiðfjörð ritstjóri var mikill áhugamaður um hvers kyns framfarir, hann varð vinur Frímanns og í samvinnu smíðuðu þeir rafhlöðu og tengdu við hana peru sem gaf frá sér dauft ljós. Þetta varð Valgarði hvatning til þess að kynna sér enn frekar rafmagnsáhöld og sumarið 1896 hafði hann rafmagnsdyrabjöllur til sölu.

Tveim árum síðar, 7. maí 1898, auglýsti Eyjólfur Þorkelsson: "Rafmagnsdyrabjöllur með öllu tilheyrandi mjög ódýrar. Tilsögn fæst í að setja þær upp. Bjöllur þessar eru mjög nytsamar í stórum húsum.

Stundaklukkur sem ganga með rafkrapti fást einnig. Þær eru mjög góðar í stórhýsi, þar sem þyrfti margar klukkur, því ekki þarf nema eina almenna klukku til að stýra mörgum rafklukkum og það er mikill sparnaður sjérílagi í viðhaldinu. Þeir sem kynnu að vilja fá sjér eitthvað af þessum raftólum gjöri svo vel að líta við hjá mjér".

Úr sögu Félags íslenskra rafvirkja eftir höfund efnis þessarar síðu

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

þvílíkar þjóðfélagsbreytingar eftir rafvæðinguna!

Það má segja að "Íslendingurinn" í dag "gangi" fyrir rafmagni.